Skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 11:44:05 (7583)

1998-06-05 11:44:05# 122. lþ. 146.7 fundur 723. mál: #A skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.# þál., LB
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[11:44]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að upplýsa að þessi tillaga er lögð fram í því skyni að ekki sé verið að fella órökstudda dóma. Markmiðið með þessari tillögu er að upplýsa um málið svo ekki séu felldir órökstuddir dómar. Það er tilgangurinn með þessu.

Það hefur verið með ólíkindum að hlýða á marga stjórnarsinna ræða þetta mál á þingi sem einhvern veginn ekki átta sig á því að grunnhugsunin á bak við þrískiptingu ríkisvalds er sú að Alþingi hafi eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Um hvað erum við að tala? Við erum að tala um að Alþingi ber skylda til að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu.

Ég ætla reyndar, virðulegi forseti, ekki að ræða mikið um ræðu hæstv. forsrh. eða hæstv. utanrrh. Þær dæma sig sjálfar. En það er óhætt að rifja það upp að ákvæði það sem vitnað er til í umræddri þáltill. var sett í lögin og breytt 1991 en ekki 1874. Þetta er þá a.m.k. á hreinu í þessari umræðu.

[11:45]

Í öðru lagi, virðulegi forseti, vil ég segja að það er aðeins lítill hluti þessa máls til skoðunar hjá ríkissaksóknara. Hann mun ekki skoða það hvort hæstv. viðskrh. hafi sagt þinginu rangt til eða leynt það upplýsingum. Hann mun ekki skoða það. Hann mun heldur ekki skoða hvaða atriði leiddu til afsagnar þriggja bankastjóra. Hann mun ekki skoða það.

Hvað mun hann skoða? Hann mun aðallega skoða þátt framkvæmdastjóra Lindar. Hann mun skoða þann þátt sem varðar þann aðila sem á að fórna í málinu. Það er það sem hann mun skoða, ekkert annað. Það er kjarni málsins. En að bera það síðan fyrir sig að málið sé hjá ríkissaksóknara er algjörlega fráleit röksemdafærsla. Hvað þá að koma með niðurstöðu dómara í nánast eigin sök, pantaða niðurstöðu, álitsgerð lögmanna. Það er enn fráleitara.

Virðulegi forseti. Ég held það sé algerlega nauðsynlegt að lesa niðurlag skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna þess að það hefur ekki verið gert, þar sem Ríkisendurskoðun telur m.a. --- og þá vil ég bara taka út framkvæmdastjórann því Ríkisendurskoðun bendir á meira --- hún bendir á að misbrestir hafi orðið í útlánaferli og eftirfylgni félagsins um nokkurt skeið og ábyrgðina megi að mestu rekja til ákvarðana fyrrum framkvæmdastjóra. Meðal annars er á það bent að háttalag hans geti varðað við almenn hegningarlög.

Og síðan segir hér í niðurlaginu í skýrslu Ríkisendurskoðunar:

,,Þegar litið er annars vegar til fjölmargra skýrslna endurskoðanda og bankaeftirlits um málið og hins vegar til hins mikla taps m.a. með hliðsjón af sífellt strangari útlánareglum félagsins og slöku innra eftirliti, verður að telja fyllstu ástæðu fyrir bankaráð Landsbankans að láta með einum eða öðrum hætti kanna starfshætti fyrrum framkvæmdastjóra Lindar hf. og grípa síðan til viðeigandi ráðstafana á grundvelli þeirra upplýsinga sem þá liggja fyrir.``

Þetta er lagt fyrir hæstv. viðskrh. Þetta er lagt fyrir hæstv. viðskrh. af bankaráðinu sem óskar eftir því að fá leiðbeiningu úr viðskrn. Hvað gerir hæstv. viðskrh. í þessari stöðu? Nákvæmlega ekki neitt. Það er það sem þarf m.a. að skoða í þessu máli og það er til vansa að menn skuli bera fyrir sig ríkissaksóknara í málinu því að hann er aðeins að rannsaka lítinn hluta málsins, virðulegi forseti.