Eftirlit með fjármálastarfsemi

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 14:03:26 (7611)

1998-06-05 14:03:26# 122. lþ. 146.9 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 87/1998, Frsm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[14:03]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon verður að velja orðum mínum þau lýsingarorð sem honum finnst við eiga. Í sjálfu sér er ekkert við því að segja annað en að þau lýsa að málflutningi hans jafnt og mínum.

Varðandi það að setja stjórn Fjármálaeftirlitsins undir Alþingi þá tel ég að það sé á skjön við þá þróun sem verið hefur hér á undanförnum árum, að það er að það eigi að vera hlutverk fagráðuneytanna að reka þessar eftirlitsstofnanir með markaðnum á því sviði sem við á hverju sinni. Eins er það hlutverk ráðuneytanna að sjálfsögðu að annast alla þá stjórnsýslu sem sinna þarf á viðkomandi mörkuðum.

Ég viðurkenni alveg að ég held að það væri affarasælla fyrir þau fyrirtæki sem starfa á fjármagnsmarkaðnum að þau yrðu einkavædd og störfuðu eftir sömu leikreglum og viðmiðunum og önnur fyrirtæki í landinu. Þess vegna tel ég að framtíðin muni leysa þetta mál af sjálfu sér, að ráðherrann á þessu sviði verði ekki bæði fjárgæslumaður ríkissjóðs og eins í hlutverki eftirlitsstjórnvalds eða reglugerðasetningaraðila. Ég tel að það væri æskileg þróun.

Ég tel að það væri afturför og á skjön við uppbyggingu stjórnsýslunnar hjá okkur að Alþingi kysi sérstaklega stjórn Fjármálaeftirlitsins. Þetta er eðlilegt hlutverk viðskrn., að reka þessa stofnun, og þess vegna tel ég tvímælalaust að það fyrirkomulag eigi að hafa.