Eftirlit með fjármálastarfsemi

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 14:05:38 (7612)

1998-06-05 14:05:38# 122. lþ. 146.9 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 87/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[14:05]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Nú ætla ég að vera voðalega prúður og prófa að orða þetta þannig: Mér finnst málsvörn hv. þm. veikluleg. Ég tek eftir því að hv. þm. kýs að ræða ekki eitt aðalatriði í þessu máli öðruvísi en með þeim frasa að best væri að einkavæða bankana.

Það sem ég tel gera útslagið í þessu máli er sú staðreynd, sem hv. þm. kallar á fínu máli að hæstv. ráðherra sé fjárgæslumaður hagsmuna ríkissjóðs, en á mannamáli og í praxís virkar kerfið þannig að Finnur Ingólfsson á bankana. Í praxís á Finnur Ingólfsson, hæstv. viðskrh., Landsbankann og Búnaðarbankann. Samt á hann að stjórna bankaeftirlitinu eða Fjármálaeftirlitinu í þessu nýja fyrirkomulagi.

Það má vel vera einhvers staðar í áformum stjórnarflokkanna að einkavæða bankana, láta þá fara fyrir lítið, svo sem eins og hálfvirði eins og fyrrv. fjmrh. hafði hugmyndir um fyrir nokkrum árum. Hann taldi svo mikilvægt að losna við bankana að það yrði að hafa það, jafnvel þó að það yrði að láta þá fara á hálfvirði, það væri samt til þess vinnandi. Þannig voru hugmyndirnar þá. Þó það kunni að verða einhvern tíma í framtíðinni að bankarnir komist úr meirihlutaeigu ríkisins, þá eru þeir það í dag. Það sem meira er, sú afturför í lýðræðislegu eða þingræðislegu tilliti hefur orðið að í staðinn fyrir að Alþingi kjósi bankaráðin þá skipar viðskrh. bankaráðin eigin hendi. Hann fer með bankana eins og hann eigi þá algjörlega einn, þetta sé hans prívateign. Stjórnsýslan er þannig, menn verða að fara að horfast í augu við það. Það kýs hv. þm. Vilhjálmur Egilsson að ræða ekki nema á dulmáli. Fjárgæslumaður hagsmuna ríkissjóðs heitir það. Óheppilegt kannski og þarf að komast út úr því.

Þetta er mjög veikluleg málsvörn, herra forseti. Ég endurtek að hér er ekki um að ræða eftirlit á faglegum sviðum í einstökum ráðuneytum. Hér er um miklu stærri mál að ræða en svo.