Eftirlit með fjármálastarfsemi

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 14:29:43 (7617)

1998-06-05 14:29:43# 122. lþ. 146.9 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 87/1998, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[14:29]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Nú gæti ég komið upp og sagt: Nei, víst hef ég rétt fyrir mér af því að ég er betri lögfræðingur en forstjóri bankaeftirlits Seðlabankans þó að ég sé ekki lögfræðingur. Ég segi alveg eins og er, herra forseti, ég gef ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir þetta álit forstjóra bankaeftirlitsins. Það skal vera alveg á hreinu vegna þess líka að það liggja fyrir tugir lögfræðilegra greinargerða um það hverjir bera ábyrgð og hverjir ekki varðandi bankaráð, bankastjórnir og viðskrn. Það er algerlega á hreinu að ráðherrann getur ekki skotið sér undan málinu með þeim hætti sem hann gerði áðan.

Svo vil ég að lokum segja það, herra forseti, í andsvari mínu að greinargerðin frá Gunnari Jónssyni og Andra Árnasyni er ótrúlegt plagg. Af því að viðskrh. vitnaði í hana áðan þá verð ég að tala um hana hér. Þar er m.a. reynt að segja að honum hafi verið bannað að segja frá því að hann hafi haft skýrslu Ríkisendurskoðunar um Lind undir höndum. (Gripið fram í: Hver bannaði það?) Það stendur hér. Þar er um að ræða ábendingar um hugsanleg refsiverð brot tiltekinna einstaklinga. ,,Verður að telja að ráðherra hafi verið óheimilt að fjalla um skýrsluna á Alþingi áður en ákvörðun um framhald málsins hafi verið tekin af þar til bærum aðilum.`` Þetta er auðvitað þvílíkt, með leyfi forseta, kjaftæði að maður hefur aldrei séð annað eins auk þess sem þetta er órökstutt og plaggið að öðru leyti er slakt sem lögfræðileg álitsgerð. Ég tel að það sé þannig að því er varðar Alþingi að Alþingi verði sjálft að láta fara fram úttekt á þessum ummælum úr því að ráðherrar þekkja ekki betur ráðherraábyrgð en hæstv. viðskrh. virðist gera.