Eftirlit með fjármálastarfsemi

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 14:31:47 (7618)

1998-06-05 14:31:47# 122. lþ. 146.9 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 87/1998, Frsm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[14:31]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt að upplýsa hv. þm. Svavar Gestsson um að það var mjög breiður og almennur stuðningur við megintilgang frv., þ.e. að sameina bankaeftirlitið og Vátryggingaeftirlitið í eina stofnun, einfaldlega vegna þess að starfsemi tryggingafélaga og fjármálafyrirtækja er að renna saman á mörgum sviðum. Það var því almennt álitið og ég hef trú á því, að sameiningin væri mjög til bóta varðandi virkni eftirlitsins og alla meðferð þessara mála.

Enn fremur eru í III. kafla frv. ákvæði um starfshætti eftirlitsins. Ég hygg að þau ákvæði séu nægilega traust til þess að eftirlitið veki traust á markaðnum og ekki viðgangist óeðlilegar starfsaðferðir eða viðskiptahættir sem taka þurfi á.

Eitt vakti hins vegar athygli mína og væri áhugavert heyra meira um það frá hv. þm. Það var eins og hann væri að gera athugasemd við að tapið af Lind hefði lent á Landsbankanum. (SvG: Hvað segir þú?) --- að tapið af Lind hefði lent á Landsbankanum Hefði hv. þm. getað ímyndað sér að Landsbankinn léti dótturfyrirtæki sitt fara í gjaldþrot þannig að tapið af gjaldþrotinu hefði lent á kröfuhöfunum á Lind, sem voru erlendir bankar eða aðrir þeir sem höfðu lánað Lind peninga? Hefði hann hefði talið það í þágu Landsbankans, sem fyrirtækis, frá viðskiptalegu sjónarmiði, að það hefði gerst?