Eftirlit með fjármálastarfsemi

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 14:36:26 (7620)

1998-06-05 14:36:26# 122. lþ. 146.9 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 87/1998, Frsm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[14:36]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég túlka orð hv. þm. Svavars Gestssonar þannig að hann telji það hafa verið eðlileg viðskiptalega ákvörðun sem slíka, að tapið af Lind lenti á Landsbankanum. Það eina sem hv. þm. virtist finna að var framkvæmd þess máls innan bankans. Hvort sem framkvæmdin á því er á einn veg eða annan þá tel ég að það hljóti að þurfa eðlilegar verklagsreglur sem bankaráð setur bankastjórum og um það hvernig stjórnir fyrirtækja vinna almennt saman með framkvæmdastjórum þeirra.

Ég fagna því að hv. þm. virðist skilja það að af hálfu Landsbankans sem fyrirtækis kom ekki til greina annað en að taka á sig þetta tap. Að öðrum kosti hefði Landsbankinn rýrt stórkostlega á sér traust sem banki. Kjör þau sem hann nýtur í lánsviðskiptum við erlenda banka hefðu orðið miklu verri heldur en þau eru nú. Málið snýst hins vegar um að þarna varð mikið tap. Hverju sem þar er um að kenna þá var ekki um annað ræða en að bankinn tæki það á sig.