Eftirlit með fjármálastarfsemi

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 14:39:55 (7622)

1998-06-05 14:39:55# 122. lþ. 146.9 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 87/1998, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[14:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í efnislegri umræðu um þetta mál. Ég get þó ekki orða bundist þegar þessi makalausa pantaða syndakvittun ráðherra, sem heitir álitsgerð frá tveimur lögfræðingum, kom hér til umræðu og var nefnd áðan í ræðu.

Það er alveg ótrúlegt hvað okkur er boðið upp á hér á þingi. Það er ótrúlegt hvað þessir ,,virðingarverðu`` lögfræðingar, Andri Árnason og Gunnar Jónsson, láta frá sér fara um fyrirspurn mína fyrir tveimur árum. Ég verð nú að segja að þetta er ákaflega ótrúverðugt. Það eina sem þeir nefna að ég hafi spurt um fyrir tveimur árum er spurning mín um það hvort tap Landsbankans vegna Lindar hafi verið milli 600 og 700 millj. kr. Þeir minnast ekki á það að ég spurði fleiri spurninga í þessari óundirbúnu fyrirspurn. Ég spurði hvort ráðherra teldi ástæðu til þess að láta fara fram rannsókn óháðra aðila vegna þess hversu stórt tap þetta virtist vera. Ég spurði hvort ráðherrann teldi ekki ástæðu til þess að fram færi rannsókn á þessu máli.

Hæstv. ráðherra kaus að svara þessu ekki í þessari fyrirspurn. Hann lét því ósvarað hvort fara ætti fram rannsókn á málinu, þegar hann er með skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem látið hefur fara fram rannsókn á málinu, á skrifborðinu hjá sér. Hann nefnir það ekki hér í þinginu þegar er kallað eftir því hvort ekki sé ástæða til þess að láta óháða aðila rannsaka málið.

Þetta kjósa þessir tveir lögfræðingar að nefna ekki í álitsgerð sinni. Ég verð nú að segja, herra forseti, að þetta er ákaflega ótrúverðugt plagg þegar vinnubrögðin, hjá þessum ,,virðingarverðu`` lögfræðingum eins og þeir voru kallaðir hér í morgun, eru eins og hér kemur í ljós. Að nefna það ekki að ég hafi spurt um fleira sem ráðherrann kaus að svara ekki. Ég minni á að þetta var í óundirbúnum fyrirspurnatíma fyrir tveimur árum og tveimur dögum, óundirbúnum fyrirspurnatíma, 3. júní 1996 og þinglok voru 5. júní 1996. Þetta var einum og hálfum degi fyrir þinglok. Lái nú hver sem vill þingmönnum að hafa ekki komið með skriflega fsp. í framhaldi af þessu ótrúlega svari ráðherrans.

Ég minni á að fyrir þinginu liggja nú a.m.k. þrjár skriflegar fyrirspurnir frá mér. Ein þeirra er nálega tveggja mánaða gömul og tvær eru næstum mánaðargamlar, báðum er ósvarað. Voru miklar líkur á því að skriflegri fyrirspurn frá þingmanni væri svarað einum og hálfum degi fyrir þinglok þegar fyrirspurnum sem ráðherrum hafa borist jafnvel mánuði og tveimur mánuðum fyrir þinglok er ekki svarað? Er nokkur furða þó maður spyrji að þessu?

En ég gat ekki látið það vera að vekja athygli á því að þessir lögfræðingar kjósa í álitsgerð sinni að minnast ekki á eina af þeim fyrirspurnum sem ég lagði fyrir í þessum fyrirspurnatíma til hæstv. viðskrh. þegar ég spurðist fyrir um málefni Lindar og Landsbankans, spurningu sem ráðherra kaus að svara ekki og leyndi þar með Alþingi alvarlegum upplýsingum.