Umræða um tilraunaveiðar á ref og mink

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 15:27:02 (7631)

1998-06-05 15:27:02# 122. lþ. 146.97 fundur 467#B umræða um tilraunaveiðar á ref og mink# (um fundarstjórn), KHG
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[15:27]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst spyrja forseta að því hvort ekki standi til að taka fyrir 16. mál á dagskrá þessa fundar og ræða það til lykta. Hvað segir forseti við því?

(Forseti (GÁS): Forseti getur svarað því héðan úr sæti sínu að samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hefur fengið í hendur, þá eru ekki uppi áform um að ræða þau mál til lykta, heldur er áformað að taka þau af dagskrá.)

Ég vil benda hæstv. forseta á að það er ekki gert í samkomulagi við flutningsmenn málsins, að það verði ekki rætt hér og afgreiðslu þess lokið. Ég vil benda forseta á að samkvæmt því sem fyrir liggur má ætla að yfirgnæfandi meiri hluti Alþingis styðji þetta mál. Mér þykir nú taka í hnjúkana ef forseti Alþingis ætlar að beita sér fyrir því að koma í veg fyrir að vilji Alþingis nái fram að ganga.

Ég bendi einnig á að nú hefur þinghald staðið fjórum vikum lengur en til stóð með þeim rökum forseta að rétt væri að þingmenn fengju að ræða þau mál sem þeir vildu og þyrftu lengri tíma en áætlað var því ekki mætti koma í veg fyrir að vilji þings réði í hverju máli. Ég spyr því: Hvers vegna bregður svo við að í þessu máli ætlar forseti að bregða út frá starfsreglu sinni síðustu fjórar vikurnar?

Ég geri athugasemd við þessa fundarstjórn, herra forseti, og fer fram á að fram verði haldið umræðu um þetta mál sem hófst hér í gær og að forseti stjórni fundi á þannig að leitað verði afstöðu Alþingis í málinu. Nál. liggja fyrir, fyrir þeim hefur verið mælt og samkvæmt þeim má ætla að yfirgnæfandi meiri hluti Alþingis sé fylgjandi málinu. Ég undrast að forseti skuli leggja það á sig að koma í veg fyrir að þessi ætlaði meiri hluti komi fram. Hvaða ástæður liggja fyrir þessu, herra foreti, að forseti áformar að afgreiða ekki þetta mál? Hvaða málefnalegar ástæður liggja fyrir þessari boðaðri ákvörðun forseta?