Dagskrá fundarins

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 16:37:07 (7642)

1998-06-05 16:37:07# 122. lþ. 147.92 fundur 464#B dagskrá fundarins# (aths. um störf þingsins), Flm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 147. fundur, 122. lþ.

[16:37]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil mótmæla afstöðu forseta. Ég tel að forseti hafi ekki unnið að málinu eins og vera skyldi. Málið var afgreitt frá nefnd 27. apríl eða fyrir sex vikum. Því hafa verið öll tök á að ljúka umræðu málsins. Henni var í tvígang frestað í gær án þess að nokkurt tilefni væri fyrir því að fresta umræðunni eins og gert var þannig að ég vísa allri ábyrgð á forseta á því að málið nái ekki fram að ganga á þessu þingi og tel að það sé dapurleg niðurstaða af störfum forseta á þessu þingi að hann skuli standa svona að verki nú undir lokin. Eftir allt það sem á undan er gengið á undanförnum vikum sem hefur verið að áliti hans til þess að tryggja að minni hluti þingmanna gæti ekki komið í veg fyrir að vilji meiri hluta þingmanna fái að ráða.

Nú virðist forseti hins vegar standa þannig að málum að hótanir örfárra þingmanna um málþóf verði til þess að koma í veg fyrir að mál sem nýtur að öllum líkindum stuðnings meginþorra þingmanna nái fram að ganga og ég vil sérstaklega mótmæla þessum vinnubrögðum, herra forseti, og tel þau þinginu til hneisu.