Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 21:32:33 (20)

1997-10-02 21:32:33# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, GHH
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[21:32]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Það hefur verið ró yfir stjórnmálunum í landinu undanfarna mánuði, jafnvel missiri. Undan því er ekki hægt að kvarta. Pólitískur stöðugleiki er í senn tvífari hins efnahagslega stöðugleika sem landsmenn hafa notið á undanförnum árum en jafnframt til marks um traust stjórnarfar. Hann er því eftirsóknarverður jafnt hér á landi sem alls staðar annars staðar.

Raunverulegum pólitískum ágreiningsmálum hefur líka fækkað á Íslandi í seinni tíð. Það er líka jákvætt. Hinn kreddukenndi fjandskapur margra vinstri manna við markaðsbúskap og frjálsa atvinnustarfsemi er t.d. mjög á undanhaldi og sömuleiðis fordómar sömu aðila gagnvart Atlantshafsbandalaginu og friðarstarfi þess á umliðnum árum. Með endalokum kalda stríðsins og gjaldþroti hinna ýmsu forma sósíalismans um allan heim hafa hugmyndafræðilegar forsendur viðhorfa sem þessara hrunið. Þau eiga sér nú fáa ef nokkra talsmenn hér á Alþingi. Engir vilja lengur kalla sig sósíalista á Íslandi, jafnaðarmenn vilja þeir allir heita.

Allir hljóta að fagna þeim stöðugleika sem skapast hefur hérlendis í efnahagslífi og pólitík. Eftir erfiðleikatímabil í upphafi áratugarins hefur atvinna aukist á ný og kaupmáttur vaxið. Hagur almennings batnar hægt en örugglega. Æ fleiri gera sér ljóst að sígandi lukka er best í þeim efnum og það er ekki hyggilegt að reyna að fara fram úr sjálfum sér í því efni. Að eyða um efni fram kemur öllum í koll fyrr eða síðar, bæði einstaklingum og þjóðarbúi.

Það er víðar en hér sem þróunin hefur verið jákvæð. Bylgja frelsis og lýðræðis hefur farið um allan heiminn, ekki aðeins um Mið- og Austur-Evrópu heldur einnig í fjarlægum löndum. Hefðbundin aðgreining milli innanlandsmálefna og utanríkismála er víðast hvar að mást út með stórauknum samskiptum þjóða og þeirri byltingu sem orðið hefur í upplýsingamálum, fjarskiptum og samgöngum. Sífellt fleiri vandamál eru þannig vaxin að þau verður að leysa með samstarfi milli þjóða. Nægir í því sambandi að nefna umhverfismálin, sem þjóðir heims gefa sívaxandi gaum, en einnig sjávarútvegs- og fiskveiðimál og fjölmargt fleira sem varðar okkur Íslendinga beint. Sjálfstæðum ríkjum í heiminum hefur fjölgað mikið á þessum áratug en veröldin sem við lifum og störfum í hefur minnkað vegna þessara breytinga. Við það verða Íslendingar einnig varir með margvíslegum hætti eins og sjá má af ánægjulegri útrás fjölmargra íslenskra fyrirtækja sem að undanförnu hafa haslað sér völl víða um heim með útflutning eða fjárfestingar.

Herra forseti. Í umræðum um stefnuræðu forsrh. eiga menn að horfa fram á veginn. Þá er mikilvægt að gefa annars vegar gaum að stefnumálum til skamms tíma og hins vegar til langs tíma sem og samhenginu þar á milli. Því miður hefur það lengst af verið svo í stjórnmálum á Íslandi að menn hafa verið svo uppteknir af lausn skammtímavandamála og alls kyns amstri líðandi stundar að þeir hafa ekki hugsað langt fram í tímann. Skýr framtíðarsýn er hins vegar forsenda þess að menn villist ekki af leið og hún er að sjálfsögðu ómissandi þeim sem vilja stjórna landinu af viti.

Á þessum áratug, í tíð ríkisstjórna Davíðs Oddssonar, hefur orðið sú gerbreyting á íslensku þjóðfélagi að nú geta allir sem vilja með góðu móti gert skynsamlegar áætlanir fram í tímann um sín eigin fjármál. Það er vegna þess að nú byrgir verðbólgan ekki lengur sýn. Aðstæður fyrirtækja til að fjárfesta og byggja upp atvinnurekstur til framtíðar hafa gerbreyst til hins betra. Einstaklingar og heimili hafa betri yfirsýn yfir fjárhagsskuldbindingar sínar og hvað hægt er að ganga langt í neyslu með tilliti til tekna og fyrri sparnaðar. Síðast en ekki síst þarf stjórnkerfið ekki lengur að eyða allri sinni orku í að kljást við aðsteðjandi efnahagsvanda heldur geta stjórnmálamennirnir nú tekist á við verkefni framtíðarinnar. Hér er á ferðinni slík grundvallarbreyting frá því sem var fyrir fáeinum árum að erfitt er fyrir utanaðkomandi að skilja.

Jafnframt hefur orðið sú breyting eins og ég gat um að umheimurinn stendur Íslandi mun nær en áður, sérstaklega unga fólkinu. Það stendur ekki endilega frammi fyrir því hvort það eigi að búa og starfa í þéttbýli eða dreifbýli heldur alveg eins hvort það eigi að hasla sér völl á Íslandi frekar en erlendis. Augljóslega er lykilatriðið í þessari samkeppni um unga fólkið að tryggja hér sambærileg og helst betri lífskjör og starfsskilyrði en annars staðar er völ á. Þess vegna þarf þjóðarbúskapur okkar að vera samkeppnisfær og í sátt við náttúru og umhverfi og þannig að hann búi vel að eldri borgurum, sjúkum og þeim sem minna mega sín. Forsenda alls þessa er gott og öflugt menntakerfi þar sem áhersla er lögð á að einstaklingarnir nái sem mestum þroska. En að sjálfsögðu einnig nútímalegt atvinnulíf sem hagnýtir sér til fulls tæknibyltingu upplýsingasamfélagsins og hina fjölbreyttu möguleika sem alþjóðavæðingin býður upp á. Og svo auðvitað skattalegt umhverfi sem ekki er letjandi heldur hvetur fyrirtæki og einstaklinga til dáða.

Undanfarin ár hefur verið unnið ötullega að því að gera íslenska samfélagið þannig úr garði, gera þjóðarskútuna hæfari til þátttöku í samkeppni þjóðanna. EES-samningurinn var t.d. mikilvægur liður í því og engum dettur í hug í dag í alvöru að hætta við hann eða hverfa frá þrátt fyrir öll stóryrðin á Alþingi fyrir 4--5 árum.

Í stefnuræðu forsrh. voru rakin mörg fleiri atriði sem öll miða að þessari sömu framtíðarsýn og sem ýmist er búið að koma í höfn eða er verið að vinna að.

Ég hvet ykkur, góðir áheyrendur, til þess að bera saman stefnuræðu forsrh. og málflutning foringja stjórnarandstöðunnar. Þar fór lítið fyrir framtíðarsýn. Það er vissulega gott, góðir áheyrendur, að vera Íslendingur en við getum öll gert betur. En það er líka hægt að glopra niður góðum tækifærum. Í því efni, eins og í mörgu öðru, veldur hver á heldur. Það skiptir máli hverjir stjórna Íslandi. --- Góðar stundir.