Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 21:39:20 (21)

1997-10-02 21:39:20# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[21:39]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var býsna skrýtin ræða. Hv. þm. gumar af góðri stöðu efnahagsmála. Veit þingmaðurinn ekki að Íslendingar vinna 50 klukkutíma á viku á sama tíma og í Evrópu er unnið 35 tíma í viku? Hér vinnur fólk tvo daga aukalega í hverri viku, 15 klukkustundir, til að hafa í sig og á. Þetta er kerfi Sjálfstfl. og á þessu byggjast lífskjörin.

Þingmaðurinn sagði að ágreiningsmálum hefði fækkað. Þvílík fjarstæða. Hann nefndi ekki einu orði skiptingu ránsfengsins í bönkum og sjóðum sem nú stendur yfir. Þar hefur ríkisstjórnin raðað vinum sínum í stjórnir og stöður og þar skiptir mestu máli að flokksliturinn sé í lagi. Þeir tryggja uppgjafastjórnmálamönnum sínum góðar stöður.

Herra forseti. Þetta er spillt kerfi. Er hv. þm. e.t.v. að verða ráðherra í ríkisstjórn hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar vegna þess að einhver sjálfstæðisráðherrann, t.d. hæstv. fjmrh., er, búinn að útvega sér feita stöðu í kerfinu? Ég er viss um, herra forseti, að þjóðinni þætti gaman að fá svar við spurningunni.

Hv. þm. Geir H. Haarde staðfesti í ræðu sinni stöðnunina í hugmyndafræði Sjálfstfl. Eldri borgarar, skattpínt millitekjufólk og sjúklingar geta staðfest þetta. Ég veit hver svör þingmannsins, ráðherrans væntanlega, verða. Þau munu byggjast á lognmollu, leiðindum og hótfyndni. Þessi hv. þm., einn af sterkustu foringjum Sjálfstfl., er að verja ríkisstjórn, ríkisstjórn sem er ekki til framfara fyrir fólkið í landinu. Það leiddi stefnuræðan í ljós og það leiddi málflutningur hv. þm. í ljós.