Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 21:44:49 (23)

1997-10-02 21:44:49# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, RG
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[21:44]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Við jafnaðarmenn leggjum megináherslu á hin mjúku gildi og málefni fjölskyldunnar. Það gerir ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ekki. Tvenns konar lífsviðhorf takast á. Annars vegar hin kalda markaðshyggja sem þröngvar fólki til að líta á samfélagið út frá þröngum hagsmunum fyrirtækjanna, helst stóru fyrirtækjanna. Hins vegar er jafnaðarstefna sem tekur fyrst og fremst mið af venjulegu fólki, fjölskyldunni í landinu. Jafnaðarmenn líta á arðsemi fyrirtækja sem leið að bættu samfélagi.

Fyrirtækin í landinu græða á tá og fingri enda var rekstrarumhverfi þeirra bætt á liðnum árum. Það var nauðsynlegt til að efla atvinnulífið og stemma stigu við sívaxandi atvinnuleysi. Við stóðum að þessum breytingum á sínum tíma í trausti þess að fjölskyldurnar í landinu fengju að uppskera þegar bati næðist.

Nú er löngu tímabært að bæta rekstrarumhverfi fjölskyldunnar. Fólkið er orðið óþreyjufullt að sjá góðærið í sínum eigin kjörum. Ísland er allt eitt láglaunasvæði þar sem báðir foreldrar vinna langan vinnudag sem gengur út yfir samverustundir þeirra og barnanna. Helsta áhyggjuefni barna er langur vinnutími foreldra. Það sýna kannanir. Þrátt fyrir öfluga stöðu fyrirtækjanna hefur ekki enn tekist að hækka kaupið svo mannsæmandi sé. Það var harðsótt fyrir starfsfólk á almennum markaði að sækja kjarabætur til fyrirtækjanna og nú veitist hæstv. forsrh. að launafólki. En hverjum er hann að senda tóninn? Leikskólakennurunum sem loks hafa náð samningum? Grunnskólakennurunum? Eða kannski þroskaþjálfum? Þetta eru allt láglaunastéttir --- þetta eru líka kvennastéttir. Það eru öðrum fremur konur sem starfa í hlutverkum fræðara og uppalenda. Það eru fyrst og fremst konur sem eru í umönnunarstörfum í þjóðfélaginu. Ég spyr: Er þetta fólk með óbilgjarnar kröfur?

Virðulegi forseti. Það voru margir sem lögðu mikið á sig við að ná þjóðinni út úr efnahagslægðinni. Ég nefni fyrst þjóðarsáttina. Í henni fólst samkomulag við fólkið í landinu um að vinna sig út úr verðbólgu m.a. með frystingu launa.

Í öðru lagi var miklu aðhaldi beitt í ríkisútgjöldum við mjög erfiðar aðstæður í stjórnartíð Alþfl. og Sjálfstfl. Ég tek það fram að þrátt fyrir mikinn samdrátt stóðum við vörð um þýðingarmikla málaflokka og nefni sem dæmi málefni fatlaðra og húsnæðismál.

Í þriðja lagi gerðust Íslendingar aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og það var Alþfl. að þakka. Núna eru allir sammála um að EES-samningurinn hefur skapað nýja möguleika fyrir atvinnulífið og aðalvaxtarbroddurinn í fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni er einkum ný vinnsluform í fiskiðnaði. Loks kom verulega bætt árferði með aukningu í þorski, rækju, loðnu og síld. Um sama leyti varð uppsveifla í helstu viðskiptalöndum okkar. Svari nú hver fyrir sig hvort efnahagsbatinn sé fyrst og fremst ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. að þakka. Staðreyndin er sú að það er varla hægt að klúðra stjórn landsins við svo góð skilyrði.

Virðulegi forseti. Ég fann engin fyrirheit um að skila gróðanum til barnafólks í ræðu forsætisráðherra. Nágrannar okkar á Norðurlöndum verja til barna og fjölskyldna þeirra 72--87 þús. kr. á íbúa meðan Íslendingar verja aðeins liðlega 42 þús. kr. á íbúa til barnafjölskyldna. Þó er barnafjöldi mestur hjá okkur á Norðurlöndunum. Á þessu sést að við erum hálfdrættingar miðað við önnur Norðurlönd í þessum málaflokki.

Fjölskyldan er grundvallareining samfélagsins sem búa þarf umhverfi til vaxtar og velfarnaðar allra meðlima sinna en þó sérstaklega barna.

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur enga fjölskyldustefnu. Fjölskyldustefna fjallar um að eldra fólki og börnum sé sýnd virðing. Ríkisstjórnin niðurlægir þessa hópa. Fjölskyldustefna tekur á biðlistum. Fjölskyldustefna er líka um menntamál og þar höfum við dregist aftur úr. Þessi ríkisstjórn er óvinveitt fjölskyldunni og því þurfa hugmyndir jafnaðarmanna að ná fram að ganga með sameiginlegu framboði í næstu kosningum.

Virðulegi forseti. Það eru mikilvæg verkefni fram undan. Í lok þeirrar aldar sem verður þekkt sem árin er Ísland reis úr öskustónni viljum við sjá öðruvísi þjóðfélag. Við viljum ekki þjóðfélag þar sem stórum hluta þjóðarinnar er skipað á þriðja farrými. Við viljum þjóðfélag sem er tilbúið til að mæta nýju samfélagsformi grundvallað á hugviti og þekkingu einstaklinganna. Við viljum sjá heimilin í landinu blómstra og að góðærið skili sér í heimilisbudduna.

Þjóðin þarf á framsæknu stjórnmálaafli að halda sem skilar efnahagsbatanum til þeirra sem sköpuðu hann --- fólksins í landinu. Sterku stjórnmálaafli til mótvægis við staðnaða ríkisstjórn sem skortir samúð með þeim sem minna mega sín. Jafnaðarmenn vilja leggja allt í sölurnar til að ná fram þeirri samvinnu sem kallað er eftir.

Jafnaðarmenn vilja ná samstöðu um sterkt stjórnmálaafl þar sem konur og kvenfrelsi er í fyrirrúmi, stjórnmálaafl sem tryggir jafnrétti og sömu laun fyrir sömu vinnu þar sem konur og karlar standa jafnfætis í baráttunni fyrir betra þjóðfélagi. --- Góðar stundir.