Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 21:51:20 (24)

1997-10-02 21:51:20# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[21:51]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þýskur málsháttur er á þessa leið: Segðu já við lífið þá mun lífið segja já við þig. Enn ber á bölmóði og neikvæðri umræðu stjórnarandstöðunnar hér í kvöld. Þetta er ekki í takt við það góðæri sem gengið er í garð hér á landi. Ég vil minna á þær staðreyndir að kaupmáttur launafólks mun aukast um 25% til aldamóta. Eru það ekki kjarabætur, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir? Hjól atvinnulífsins snúast á ný. Við blasir erlend fjárfesting, virkjanir og ný orkuver. 12 þúsund störfin sem Framsfl. lofaði í kosningabaráttunni verða 13 þúsund. Samið hefur verið um miklar skattalækkanir til launafólks og sérstaklega til fjölskyldufólksins. Í pólitík eiga menn að segja satt og vera bjartsýnir. --- ,,Að ljúga að öðrum er ljótur vani en ljúga að sjálfum sér hvers manns bani.``

Hv. þm. sem hér var áðan kemur úr þeim flokki sem í átta ár fór með félmrn. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur verið hreinsað til í rúmum alþýðuflokksráðherranna sem þar sátu og aðhöfðust lítið. Stofnuð hefur verið Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna og hefur verið náð víðtækri samstöðu margra stofnana um það málefni. Þangað hafa leitað þúsund einstaklingar og fengið góða ráðgjöf og margir hverjir hafa náð tökum á sínum málum. Þannig að þessi ríkisstjórn er í eðli sínu félagslynd og með batnandi þjóðarhag er hún að ná þeirri stöðu í þjóðfélaginu að við getum nú um leið og við mætum nýrri öld skapað nýjar aðstæður fyrir fjölskyldu- og barnafólkið. Þess vegna getum við Íslendingar horft djarfir og bjartsýnir til nýrrar aldar. Við gerum okkur grein fyrir því að þrátt fyrir það er mikilvægt að búa við nöldur stjórnarandstöðunnar.