Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 22:23:48 (33)

1997-10-02 22:23:48# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[22:23]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gerði kúariðuna að umtalsefni í fyrri ræðu sinni. Ég held að það sé ekki nokkur vafi, eftir að hafa hlýtt bæði á ræðu hv. þm. og nú þetta andsvar, að hv. þm. hefur að einhverju leyti orðið fyrir þeim hræðilega sjúkdómi sem kúariðan veldur. Ég hélt reyndar að það væri svo að þeir sem fá þennan hroðalega sjúkdóm þyldu bjartsýni, en hv. þm. þolir alls ekki að talað sé um bjartsýnina. Það er bara bölmóðurinn og svartsýnin sem hv. þm. vill tala um.

Hv. þm. gerði mikið úr því hvernig ástandið væri í heilbrigðis- og tryggingamálunum. Ég vil ítreka við hv. þm. að það eru 4,5 milljarðar kr. sem menn munu setja í heilbrigðis- og tryggingamálin á föstu verði frá 1995--1998. Og það er ekki rétt hjá hv. þm. að ég hafi fagnað því hér áðan ef ekki tækjust samningar í Kyoto. Ég sagði að ég væri hræddur um að þjóðir heims væru ekki búnar að koma sér saman um hin lagabindandi ákvæði til þess að samningar gætu tekist.

Varðandi bankamálin, þá veit ég ekki hvort hv. þm. hefur fylgst með því sem þar gerðist frekar en öðru, að mér finnst, sem hefur verið að gerast í íslensku samfélagi á undanförnum vikum. Það var ráðinn einn aðalbankastjóri að ríkisviðskiptabönkunum, þ.e. þegar þeir verða gerðir að hlutafélögum frá og með áramótum. Það voru settar skýrar reglur og vel afmarkað verksvið yfirstjórnar bankanna með erindisbréfi sem bankastjórarnir fá og aðalbankastjórinn. (SJS: Eru þeir ...?) Það er líka gert ráð fyrir því að það séu settar skýrar reglur um starfskjör yfirstjórnar bankanna og að ákveðin verði heildarlaun í ráðningarsamningi hennar. Ég hef ekki betur heyrt en hv. Alþingi hafi gengið eftir því að slíkt væri gert.