Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 22:52:57 (41)

1997-10-02 22:52:57# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[22:52]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Nú hefur þjóðin heyrt boðskap kvöldsins. Stjórnarflokkarnir lofsyngja góðærið en við stjórnarandstæðingar bendum á að ábatinn fer ekki jafnt til allra. Fjármunum almennings er sóað í einkavinavæðingu á meðan þjóðþrifamál eru vanrækt. Ég vil nota tíma minn til að tæpa á þremur meginatriðum íslenskra stjórnmála.

Núverandi ríkisstjórn stefnir að því að gera auðlindir þjóðarinnar að einkaeign fárra. Tímabært er að þjóðin rísi upp og mótmæli því að sameign þjóðarinnar, aflaheimildir að andvirði 200 milljarðar, er afhent fáum útvöldum endurgjaldslaust. Þjóðin hefur aldrei fengið að kjósa um það kerfi og hlýtur að krefjast þess í næstu kosningum.

Launakerfið í landinu sem hefur einkennst af lágum grunnlaunum, mikilli yfirvinnu og sporslum er handónýtt eins og vel sést nú af kjaraviðræðum kennara og lækna. Í nýrri úttekt OECD á Íslandi er stjórnvöldum ráðlagt að leggja mun meira fé í menntakerfið og laun kennara. Samanburðurinn við útlönd er hreint hneyksli. Ef við erum borin saman við lönd með sambærilega landsframleiðslu á mann erum við með langlægst framlög á mann til allra skólastiga og árlega vantar billjónir til að ná meðaltali samanburðarlandanna. Því vil ég skora á ríki og sveitarfélög að sameinast um átak í þessum efnum þannig að kennarar á öllum skólastigum geti haldið áfram störfum sínum með faglegan metnað í fyrirrúmi. Forseti þjóðarinnar skynjar alvöru þessa máls og það er kominn tími til að þeir sem stýra fjármálum almennings geri það líka.

Síðast en ekki síst er það kvenfrelsisbaráttan og framtíð hennar. Konur eru margbreytilegir einstaklingar en þær eiga það sameiginlegt að búa í kynjuðu þjóðfélagi. Það birtist m.a. í formi kynbundins valda- og launamismunar. En karlar búa einnig við kynbundið misrétti sem birtist t.d. í mismunandi rétti til fæðingarorlofs. Til að tryggja jafna möguleika kynjanna til frelsis þarf að skoða öll lög og stjórnarathafnir með kynferðisgleruaugum eins og við kvennalistakonur höfum margoft bent á. Þetta er nú viðurkennd stefna Evrópusambandsins og kallast samþætting eða main-streaming. Til að slík stefna komist í framkvæmd þarf pólitískan vilja, fjármagn og eftirfylgni, t.d. í formi stofnunar sem er sambærileg við Samkeppnisstofnun. Þetta skortir allt hjá núverandi ríkisstjórn og því eru jafnréttislögin haldlítil sýndarmennska.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég bind miklar vonir við að sú gerjun sem er nú í íslenskum stjórnmálum leiði til þess að til verði kröftugt stjórnmálaafl --- með eða án Framsfl.! --- sem setur konur, samábyrgð og menntun þjóðarinnar í fyrirrúm þannig að jafnrétti til frelsis verði ekki aðeins í orði heldur einnig á borði. Kostnaðinum má mæta með því að þjóðin sjálf njóti afrakstursins af auðlindum sínum í stað einkavina núverandi ríkisstjórnar. --- Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.