Staðan í heilbrigðisþjónustunni

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 15:14:18 (49)

1997-10-06 15:14:18# 122. lþ. 3.93 fundur 29#B staðan í heilbrigðisþjónustunni# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:14]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Svör hæstv. ráðherra við fullkomlega réttmætri athugasemd hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur eru fáheyrð. Þetta snýst um það að sérfræðingar hafa sagt upp samningum og réttarstöðu sjúklinga er stefnt í tvísýnu og spurningin, sem hefur verið varpað fram, er þessi: Fá sjúklingarnir endurgreiðslu þegar þeir koma til Tryggingastofnunar? Ráðherrann ber ábyrgð á málaflokknum. Alþingi kemur að þessu máli með lagasetningu og hefur sett þann ramma sem ber að fara eftir. Að vísa til fjárlagaumræðu eða segja eins og ráðherrann sagði hér áðan: Það á að líta á málin í heild sinni. Hvers konar svör eru þetta gagnvart fólkinu í landinu sem býr við það núna að geta ekki leitað til lækna, geta ekki leitað réttar síns vegna þess að það hefur ekki efni á því? Hvers konar heilbrigðisþjónusta er þetta sem ráðherrann og ríkisstjórnin boða?

Herra forseti. Það hefur komið í ljós að stefna ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega framkoma heilbrrh. og Framsfl. hefur verið með eindæmum í þessum málaflokki. Vitaskuld verða heilbrigðismálin rædd ítarlega undir öðrum dagskrárliðum aftur og aftur vegna þess að fullt tilefni er til þess en að koma og svara á þann hátt eins og ráðherrann gerði áðan er satt best að segja fyrir neðan allar hellur.