Staðan í heilbrigðisþjónustunni

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 15:18:37 (51)

1997-10-06 15:18:37# 122. lþ. 3.93 fundur 29#B staðan í heilbrigðisþjónustunni# (aths. um störf þingsins), VS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:18]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég kem hér ekki upp til þess að tala um heilbrigðismál. Ég er sannfærð um að það var ekki hugsun okkar þingmanna þegar við ákváðum að breyta þingsköpum í þá átt að opna fyrir möguleika í upphafi fundar að taka fyrir störf þingsins, að það væri hugsað þannig að þá ætti að taka fyrir einstaka málaflokka og spyrja ráðherra spurninga. Við höfum í þinginu annað form til þess að spyrja ráðherra spurninga. Það er bæði hægt að gera með skriflegum fyrirspurnum og hægt er að gera það tvisvar í mánuði með óundirbúnum fyrirspurnum fyrir utan það að hægt er að taka upp mál utan dagskrár, eins og hv. frummælandi, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, hefur óskað eftir. Hún hefur beðið um að taka heilbrigðismálin til umræðu utan dagskrár og ég efast ekki um að forseti vilji verða við því. Ég kem því hér upp til þess að koma því á framfæri við hæstv. forseta að ég tel að við séum að misnota þingskaparlögin ef við ætlum að nýta þau á þennan hátt (GÁS: Eftirlitsskylda ...). Hæstv. heilbrrh. hefur svarað spurningum og það er hennar mál hvort hún gerir það eða ekki. Hún er ekki skyldug til þess undir þessum dagskrárlið ef dagskrárlið skyldi kalla. Ég er ekki að færast undan því að ræða heilbrigðismál á hv. Alþingi, svo sannarlega ekki. Það munum við gera í vetur og höfum ágætis rök í þeim málum. Þegar á morgun mun hefjast umræða um fjárlög og ég efast ekki um að inn í þá umræðu komi heilbrigðismálin í ýmsum myndum. Ég kem því hér upp, hæstv. forseti, til að beina þeim orðum til forseta hvort honum finnist þetta eðlileg umræða undir þessum formerkjum.