Staðan í heilbrigðisþjónustunni

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 15:22:56 (54)

1997-10-06 15:22:56# 122. lþ. 3.93 fundur 29#B staðan í heilbrigðisþjónustunni# (aths. um störf þingsins), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:22]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég verð að segja um þær umræður, sem hér hafa farið fram, að mér finnst þetta nýr liður í þinghaldinu sem ekki er einu sinni leyfður, hæstv. forseti. Það hefur verið samið um það og er í þingsköpum að í óundirbúnum fyrirspurnum er hægt að spyrja hæstvirta ráðherra. Það liggur fyrir að stjórnarandstaðan hefur beðið um utandagskrárumræðu um heilbrigðismálin í heild sinni. Samt leyfir hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sér að ganga hér upp í rauninni með óundirbúna utandagskrárumræðu. Hv. þm. Ágúst Einarsson hefur uppi stóryrði í upphafi þessa fundar sem ekki eru þinginu sæmandi. Ég velti því fyrir mér hvort hér fari fram umræða um störf heilbrigðisráðherra. Þessi liður heitir athugasemdir um störf þingsins. Það hefur ekkert komið inn í þessa umræðu um störf þingsins þannig að þetta er ekki heiðarleg umræða af hálfu stjórnarandstöðunnar (SvG: Það er greinilegt að framsóknarmenn...) og hv. þm. Svavar Gestsson verður að sitja rólegur. Það verður nú að þola ýmislegt af öðrum, ekki eru svo lítil stóryrðin sem frá honum falla í hita leiksins (SvG: Meiddirðu þig?) þannig að ég bið hann bara að sitja rólegan meðan ég tala. Þess vegna segi ég, hæstv. forseti, að ég held að við verðum í sanngirni að ræða málin og gera það undir réttum liðum. Framsfl. skorast ekki undan því að ræða heilbrigðismál og ég geri mér grein fyrir því að þau stóru vandamál sem blasa við í samningum við sérfræðinga verða ekki leyst úr pontu Alþingis. Það verður að gerast annars staðar. En við skulum hafa umræðuna heiðarlega og mönnum liggur ekki svo mikið á að þeir geti ekki beðið hinnar stóru utandagskrárumræðu sem á að fara fram, sjálfsagt í þessari viku, um málaflokkinn. Mér finnst þetta ekki heiðarleg framkoma gagnvart hæstv. heilbrrh. og ekki standist þingsköp að taka hann svona upp.