Kosningar til Alþingis

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 15:31:23 (57)

1997-10-06 15:31:23# 122. lþ. 3.5 fundur 13. mál: #A kosningar til Alþingis# (skráning kjósenda) frv., Flm. SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:31]

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hér er endurflutt lítið þingmál sem er breyting á lögum um kosningar til Alþingis, með síðari breytingum. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Áður en kjósandi gerir grein fyrir sér getur hann óskað eftir því við kjörstjórn að umboðsmenn lista fái ekki að vita nafn hans og ber henni að verða við þeirri ósk.``

Þetta frv. var flutt á síðasta þingi og reyndar líka á næstsíðasta þingi. Þá fylgdi því svofelld greinargerð, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt 31. gr. stjórnarskrárinnar skulu alþingismenn kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu. Samkvæmt kosningalögum er umboðsmönnum þeirra lista sem í kjöri eru heimilt að fylgjast með framkvæmd kosninga, m.a. með því að sitja í kjörfundarstofu. Með þessu fá flokkarnir upplýsingar um hverjir þeirra sem á kjörskrá eru hafa neytt kosningarréttar síns. Þær eru síðan nýttar til þess að hafa samband við hugsanlega kjósendur listans sem ekki hafa kosið en listinn telur æskilegt að kjósi, svokölluð kosningasmölun.`` --- Þetta er sem sagt fyrsta tilraun hér í þingskjali til að skilgreina kosningasmölun. Ég vek athygli á því. Það mætti kannski ræða það alveg sérstaklega hvort þetta er rétt. --- ,,Kjósandi hlýtur að eiga rétt á því, í landi þar sem ekki er skylda að greiða atkvæði við alþingiskosningar, að ekki sé haft eftirlit með því hvort hann nýti atkvæðisrétt sinn eða ekki. Taka verður allan vafa af um að hugtakið ,,leynileg kosning`` nái einnig til þessa atriðis og því er þetta frumvarp flutt. Er til þess ætlast að kjörstjórn tryggi kjósendum þann rétt sem hér er gert ráð fyrir og að hún beiti til þess þeim aðferðum sem æskilegar teljast.``

Þetta var úr greinargerðinni sem fylgdi frv. á síðasta þingi. Það hlaut þá ekki afgreiðslu en um það mál urðu nokkrar umræður. Spruttu þær af því að allshn., sem hafði málið til meðferðar, afgreiddi aðra breytingu á kosningalögunum, 116. mál síðasta þings sem var flutt af hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni. Lagði hv. allshn. til að sú breyting yrði samþykkt samhljóða. Var það einnig gert þannig að ég hygg að sú breyting sem hv. þm. lagði til hafi verið afgreidd sem lög á síðasta þingi. Hins vegar var gagnrýnt við umræðu um það mál að þessi tillaga hefði ekki fengið meðferð. Hv. formaður allshn. sagði þá í umræðum að ekki hefði verið samkomulag um að málið yrði tekið út úr nefndinni og sagði nefndarformaðurinn jafnframt að skiptar skoðanir hefðu verið um málið í hv. allshn.

Í útskýringum hv. þingmanna Ögmundar Jónassonar og Guðnýjar Guðbjörnsdóttur, sem sæti áttu í allshn., kom fram að þar hefðu mál stjórnarandstöðunnar fengið lakari meðferð en í öðrum nefndum þingsins. Á þetta er minnst í greinargerðinni með þessu frv. og ég vona, herra forseti, með hliðsjón af því að hér er um augljóst sanngirnismál að ræða og með hliðsjón af því að málið er lagt fram og mælt fyrir því á fyrsta reglulegum fundadegi þingsins, að það verði að lögum í vetur. Þetta er lítið mál og í raun og veru held ég að allir séu sammála um það.

Þannig er að stjórnmálaflokkarnir höfðu hér áður eftirlit með því í kjörklefum, ég hygg flestir eða allir, hverjir kusu og hverjir ekki. Það hafði minn flokkur lengst af t.d. hér í Reykjavík, til skamms tíma í raun og veru. Það hygg ég að hann hafi t.d. í Neskaupstað svo ég nefni dæmi. Sjálfstfl. hefur einn flokka verið með eftirlit í hverri einustu kjördeild í Reykjavík. Ég veit ekki hvernig þetta er annars staðar í landinu en ég hugsa að Sjálfstfl. hafi þetta mjög víða. Ég ímynda mér, án þess ég viti það, að Alþfl. í Hafnarfirði hafi t.d. hugmynd um hvernig menn skila sér á kjörstað þar. Þetta er því til í einu og einu byggðarlagi og ekkert verið að amast við því. Hins vegar er verið að flytja hér tillögu um að kjósandi sem óskar eftir því þurfi ekki að gefa fulltrúum flokkanna upp nafnið sitt. Það er ekkert annað sem verið er að fara fram á.

Ég vænti þess að þessi litla tillaga fái góðar undirtektir og legg til að henni verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.