Kosningar til Alþingis

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 15:36:10 (58)

1997-10-06 15:36:10# 122. lþ. 3.5 fundur 13. mál: #A kosningar til Alþingis# (skráning kjósenda) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:36]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt innlegg. Ég vil heils hugar taka undir þessa litlu tillögu, þessa réttarbót gagnvart almenningi í landinu, í þessu tilfelli kjósendum. Það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt, kjósi kjósendur það þegar þeir koma á kjörstað að gefa ekki upp nafn sitt til svonefndra kosningasmala, að réttur þeirra verði virtur. Við þekkjum það í gegnum tíðina af fjölmörgum dæmum að í auknum mæli hefur fólk lagst gegn því að þessir njósnarar stjórnmálaflokkanna geti með ákveðnum yfirgangi krafist þess að fá uppgefið nafn viðkomandi kjósanda. Það hafa orðið uppá\-komur í einstökum kjördeildum vegna þess arna. Raunar hafa þekkst dæmi þess að á meðan kjósandi hafi verið að kjósa hafi verið haldið leynd yfir nafni hans en um leið og hann hafi verið horfinn á braut út um dyrnar hafi kjörstjórnin gefið það upp. Það er auðvitað enginn bragur á þessu. Ég tek undir með málshefjanda að þetta er lítið mál en út af fyrir sig stórt og Alþingi á að kippa þessu í liðinn eins fljótt og kostur er og klára þetta á yfirstandandi þingi þannig að við getum tekið upp nýja og betri hætti sveitarstjórnarkosningum sem í hönd fara í maí nk.