Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 15:48:09 (61)

1997-10-06 15:48:09# 122. lþ. 3.6 fundur 14. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:48]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu hans. Í henni kom fram ýmislegt sem er vert að staldra við. Mér finnst til að mynda merkilegt að fram kom hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að búið sé að leggja drög að því að skerða fjármagn til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra um 3,5 millj. Eigi að síður segir hæstv. ráðherra að í sumar hafi stöðinni verið þannig komið að ríkisstjórnin hafi nauðbeygð þurft að hlaupa þar undir bagga með því að veita 2 millj. sem sérstaka fjárveitingu til stöðvarinnar og mér finnst einhvern veginn að þetta rími ekki saman en það er aukaatriði í málinu.

Ég vildi koma hér, herra forseti, til þess að óska þinginu til hamingju. Það er nefnilega ekki oft sem það gerist að menn ræði málefnalega einhver mál og komist að niðurstöðu. Við höfum rætt þetta mál á undanförnum þingum. Hv. þm. Svavar Gestsson hefur flutt málið áður og nú hefur það gerst, herra forseti, að hv. þm. stjórnarandstöðunnar hefur náð eyrum ríkisstjórnarinnar vegna þess að eftir að hann lagði fram frumvarp sitt hefur hæstv. ráðherra farið í það að setja nefnd á laggirnar undir forustu hins mikilvirka hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur til þess að hrinda máli hv. þm. Svavars Gestssonar í framkvæmd. Í sjálfu sér er aukaatriði hver átti upphafið að þessu, ég skal ekkert um það segja, en mér finnst þetta vera gott dæmi um það hvernig stjórn og stjórnarandstaða eiga að geta unnið saman og óska hæstv. ráðherra til hamingju með að hafa tekið svona málefnalega á þessu.