Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 15:59:36 (64)

1997-10-06 15:59:36# 122. lþ. 3.6 fundur 14. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:59]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Þessar umræður eru komnar út á almennt svið varðandi stöðu heyrnarlausra í þjóðfélaginu og raunar út fyrir það sem hv. þm. flytur tillögu um og er til umræðu. Að því er varðar ítrekaðar fsp. um fjárveitingar til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra legg ég áherslu á að á þessu ári hefur Samskiptamiðstöðinni verið komið fyrir í nýju og mjög góðu húsnæði í Sjómannaskólahúsinu í Reykjavík og hefur verið unnið að því að skapa henni þar viðunandi starfsumhverfi.

Í greinargerð með fjárlögum, og ég hélt að ég þyrfti ekki að lesa úr henni fyrir hv. þm. --- hún liggur frammi, segir um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra: ,,Framlag lækkar um 3,4 millj. kr. að raungildi og verður 15,2 milljónir. Framlag til túlkaþjónustu hækkar um 1,1 millj. kr. að raungildi en framlag til náms táknmálstúlka lækkar um 4,5 millj. kr. þar sem dregur úr náminu.`` Þetta er skýringin sem liggur fyrir frá Samskiptamiðstöðinni og ráðuneytið hefur farið að tillögunum enda er Samskiptamiðstöðin betur til þess fallin en ráðuneytið að meta hvernig að þessum málum er staðið.