Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 16:00:54 (65)

1997-10-06 16:00:54# 122. lþ. 3.6 fundur 14. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[16:00]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mótmæli því að umræðan sé komin út fyrir það sem þessi tillaga kveður á um. Það er hárrétt hjá flm. tillögunnar að hún snýst líka um fjármuni. Það þarf að tryggja að það sé nægur hópur táknmálstúlka og táknmálskennara, það þarf að tryggja að nemendur fái táknmálstúlkun í grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum og það þarf að tryggja að opinberar stofnanir, dómstólar, sjúkrahús o.s.frv. hafi táknmálstúlka. Við erum búin að setja rétt til táknmálstúlkunar í sum lög, m.a. varðandi skólann. Það vantar annars staðar. Grunnurinn er sá sem ég hef áður nefnt að Alþingi álykti um að viðurkenna íslenska táknmálið en til þess að það verði virt þurfa þeir hlutir sem ég hef nefnt í ræðu minni að vera í lagi og ekki tilviljunarkenndir. Ég fagna því ef það er rétt niðurstaða að óhætt sé að lækka framlög Samskiptamiðstöðvar til menntunar táknmálstúlka af þeim sökum að þegar sé búið að veita til þeirra sem eru í námi og að ekki þurfi fleiri, vegna þess að það hlýtur að segja okkur að miðað við allar þarfir séu nægilega margir táknmálstúlkar þegar komnir til starfa. Ég fagna því ef það er niðurstaða þó að ég óttist að það þyrfti að mennta miklu, miklu fleiri til að svara því kalli sem kemur þegar þetta fólk fer að verða meðvitað um rétt sinn og farið verður að praktísera það sem algjörlega hefur vantað, sem er táknmálstúlkun í öllum þeim opinberu stofnunum sem nefndar hafa verið.