Meðferð einkamála

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 16:26:18 (73)

1997-10-06 16:26:18# 122. lþ. 3.7 fundur 21. mál: #A meðferð einkamála# (gjafsókn) frv., Flm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[16:26]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær undirtektir sem málið fékk í ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Hv. þm. vakti máls á tveimur atriðum sem vissulega eru þess virði að við hugleiðum. Í fyrsta lagi spurði hv. þm.: Er líklegt að dómsmrn. verði tregara til þess að veita gjafsókn eftir að þetta yrði að lögum en ella? Ég held að ekki sé ástæða til þess að óttast það svo mjög. Við þekkjum það, eins og ég rakti hér áðan, að reglurnar sem gilda um gjafsóknina í dag eru mjög þröngar. Menn þurfa að fara í gegnum þröngt nálarauga áður en menn fá heimild til gjafsóknar. Ég held þess vegna að þegar dómsmrh. í þessu tilviki fyrir hönd ríkisins gefur slíkar heimildir, þá geri hann það yfirleitt í trausti þess að hann hafi unnið mál, hann hafi mál sem hann telji að varði miklu og sé þess vegna ástæða til þess að höfða. Ég held að þetta út af fyrir sig mundi ekki breyta mjög miklu um það. Það eru ekki mörg gjafsóknarmál höfðuð á hverju ári. Ég reyndi að afla mér upplýsinga um það í dómsmrn. hversu mörg þau væru, en fékk ekki tæmandi upplýsingar um það og teldi t.d. gott að hv. þingnefnd sem málið fengi til umfjöllunar mundi kanna það til þess að átta sig á umfanginu. Ég held því að sú litla opnun sem þetta frv. felur í sér eigi ekki að hafa neina meiri háttar röskun í för með sér. Eins og hv. þm. nefndi hér áðan er þetta fyrst og fremst tilraun til þess að reyna að skapa aukið réttaröryggi og þetta er réttlætismál.

Í öðru lagi spurði hv. þm., og það var líka mjög gild spurning, hvað væri átt við með hugtakinu ógjaldfær. Ég vil segja það sem mína skoðun og túlkun á þessu frv. að ég tel að til að mynda árangurslaust fjárnám ætti að nægja til þess að leiða í ljós hvort viðkomandi aðili er gjaldfær eða ógjaldfær. Ég er alveg sammála því t.d. að það að ganga svo langt að krefjast gjaldþrotaskipta yfir einstaklingi af svona tilefni væri alveg fráleitt. Ég hef sjálfur talað fyrir því, m.a. hér í þinginu og annars staðar, að ég tel að ríkið gangi allt of langt í því að knýja einstaklinga í gjaldþrot af sáralitlu tilefni og ég vakti athygli á því með því að leiða það fram í svari við fyrirspurn, sem ég lagði fyrir hæstv. fjmrh. á síðasta þingi að ég hygg, að kostnaður ríkisins af því að knýja einstaklinga í gjaldþrot nemi mörgum milljónatugum án þess að nokkuð fengist upp í viðkomandi kröfu. Þetta tel ég að sé mjög óskynsamlegt og ekki nokkur einstaklingur sem þyrfti að bera sjálfur ábyrgð á sínum fjármunum mundi láta sér detta það í hug að knýja menn í gjaldþrot undir slíkum kringumstæðum. Það er bara ríkið eitt og sér nú orðið í landinu sem hegðar sér þannig að það knýr menn í gjaldþrot, borgar 150 þúsund kall og tapar þessum 150 þúsund kalli. Þetta er bara fóður fyrir lögfræðinga og ekkert annað sem slík málsmeðferð hefur í för með sér. Því tel ég að það sé fráleitt að ganga svo langt að láta reyna á með gjaldþrotabeiðnum og tel að árangurslaust fjárnám væri nægjanlegt til þess að leiða slíkt í ljós.

En fleiri athugasemdir hafa ekki komið fram um þetta sem ég tel ástæðu til þess að fara yfir og ég þakka hv. þm. fyrir jákvæðar viðtökur við frv.