Félagsleg aðstoð

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 17:11:48 (80)

1997-10-06 17:11:48# 122. lþ. 3.8 fundur 23. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunargreiðslur) frv., Flm. ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[17:11]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að lífeyriskerfið er þannig að þeir sem búa einir fá hærri bætur, en það er ekki mikið sem þar munar á milli. En við erum að ræða hér um þá sem eiga ættingja sem búa með þeim og fólk sem er umönnunarþurfi og þessir ættingjar eru tilbúnir að sinna. Við erum að tala um að því fólki verði greitt fyrir þau störf þannig að það geti látið af annarri vinnu og sinnt sínum nánustu til að styðja við fjölskylduna.

Hæstv. ráðherra talar um að þeir sem sækja um stofnanavist eða hjúkrunarrými í dag séu að leita að fullu öryggi. Er það ekki fullt öryggi ef við tryggjum að þeir sem annast sína nánustu á heimili fái greitt fyrir það, að þá sé þetta fullt öryggi að þeir verði áfram heima hjá sér? Ég veit ekki betur en þeir sem lenda inni á hjúkrunarheimilum margir hverjir lendi þar í öryggisleysi af því að þeir eru í ókunnu umhverfi og það hefur komið fram í könnunum að fólki líður best að geta verið sem lengst heima.

Vissulega eru margir sem fá sólarhringsheimahjúkrun. En það er ekki það sama og að vera með umönnun sinna nánustu sem búa með manni. Það er ekki það sama. Vissulega er þörf fyrir heimahjúkrun og það þarf auðvitað heimahjúkrun oft líka til stuðnings við þá sem sinna umönnun á heimilunum, þ.e. ættingjana. Það þarf heimahjúkrun og það þarf heimaþjónustu til viðbótar. En það er full ástæða til að skoða þennan möguleika, að koma til móts við þá sem vilja vera heima. Það er ódýrt fyrir samfélagið og það er mannúðlegt og það er sanngjarnt og það er réttlætismál. Það á ekki að miða aðeins við það að þeir sem eiga maka geti fengið slíka þjónustu.