Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 15:04:06 (96)

1997-10-07 15:04:06# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[15:04]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Þessi fjárlagaumræða er að sumu leyti óvenjuleg. Hún fer fram við þau skilyrði að menn hafa breytt framsetningu fjárlagafrv. í kjölfar nýrra laga um fjárreiður ríkisins. Það er mitt mat að þessi breyting hafi verið til verulegra bóta hvað varðar framsetningu fjárlagafrv. Það er gleggra en áður var og sýnir betur tekjur og gjöld. Þeir sem það lesa fá betri yfirsýn yfir þessa hluti í frv. en áður var. Það verður að segjast eins og er að það bar nokkuð á því að ýmsir liðir, t.d. sértekjur, komu ekki skýrt fram, voru dregnar frá útgjöldum stofnana og sáust óglöggt í fjárlagafrv. sem og að dregnar voru frá sumum skatttekjum útgjaldaliðir og talan þannig færð nettó inn í fjárlagafrv. Hvort tveggja var mjög óeðlilegt fyrirkomulag og framkvæmd sem á engan hátt gat samrýmst eðlilegum háttum í þessu efni. Ég vil einnig segja það um fjárlagafrv. að því hefur þar að auki verið breytt til samræmis við ábendingar frá þingmönnum. Þá á ég við einstaka kafla í skýringum frv. sem hafa tekið breytingum í takt við þær ábendingar sem þingmenn höfðu um þá kafla. Það er mitt mat að mönnum í fjmrn. hafi tekist vel til að gera breytingar á frv. að þessu leyti.

Þá er einnig ástæða til að nefna hér, vegna þess að það bar á góma hjá hæstv. fjmrh., að það hafa orðið miklar breytingar í skilum á ríkisreikningi á seinni árum og það er orðið mjög til fyrirmyndar hversu fljótt ríkisreikningur liggur fyrir nú. Það auðveldar alþingismönnum mjög sína vinnu, einkum þeim sem hafa þann starfa að sitja í fjárln. og kynna sér þessi gögn. Það er orðið nær því en áður var að vera stýritæki og gefa okkur nauðsynlegar upplýsingar áður en við göngum frá fjárlögum.

Þá er engin ástæða til annars en að benda á að í íslenskum þjóðarbúskap er um þessar mundir ýmislegt sem okkur gengur í haginn og ætti því að nýtast ríkisstjórninni til góðra verka og ná fram góðum áformum. Það er augljóst mál að hagvöxtur er nokkuð öflugur og hefur á undanförnum árum skilað ríkissjóði verulega auknum tekjum, og þar að auki tekjum umfram það sem hafði verið áætlað í fjárlögum síðustu tveggja ára. Allt hefur þetta hjálpað ríkisstjórninni til að ná niður hallanum á ríkissjóði og hefur í raun ráðið úrslitum um að menn hafa nokkurn veginn skilað af sér þessum reikningum á núlli að tekjurnar hafa reynst svona miklu meiri en áætlað hafði verið.

Þá er verðbólga tiltölulega lág um þessar mundir og líklegt að hún verði a.m.k. nálægt því sem við eigum að venjast undanfarið þó að því sé ekki að neita að hún er heldur á uppleið og menn þurfa að hafa aðgát í efnahagslífinu ef ekki á að fara illa. Einnig hefur verið umtalsverð kaupmáttaraukning í kjölfar kjarasamninga á undanförnum árum sem hefur drifið áfram þennan hagvöxt ásamt umtalsverðum framkvæmdum í stóriðju- og virkjunarmálum. Sjávarútvegurinn hefur staðið sig mjög vel á undanförnum árum. Þrátt fyrir að ýmsu leyti erfitt umhverfi og mikinn niðurskurð í þorskaflaheimildum hafa útflutningstekjur sjávarútvegsins aukist nokkuð stöðugt og afkoma greinarinnar verið þannig að hún hefur skilað gríðarlegum tekjum í íslenska þjóðarbúið bæði beint og óbeint. Það má segja að það sé sá mesti auðlindaskattur sem nokkur þjóð getur fengið að búa við atvinnugrein sem nýtir auðlindina svo vel sem raun ber vitni.

Þá hefur lánsfjáreftirspurn hins opinbera dregist mjög saman og hefur hjálpað til með að liðka til á fjármagnsmarkaði ásamt því að lánsfé hefur farið mjög vaxandi í kjölfar upphleðslu á lífeyrissjóðasparnaði. Allt eru þetta jákvæð atriði sem auðvelda ríkisstjórn á hverjum tíma að hrinda fram stefnu sinni. Þá kemur líka betur í ljós en áður hver raunveruleg stefna ríkisstjórnarinnar er, hvernig hún ætlar að dreifa þessum ávinningi til þjóðarinnar. Þá geta menn ekki lengur skotið sér á bak við að það sé kreppa í íslensku efnahagslífi og rökstutt samdrátt með því. Þannig má segja að það reyni meira á pólitíska stefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma við þau skilyrði sem við búum við núna.

Þrátt fyrir öll þessi jákvæðu teikn sem eru á lofti, og ég tel enga ástæðu til annars en að draga fram og taka undir ánægju manna með það sem vel gengur, þá eru ýmsar blikur á lofti sem rétt er að vita af og vara sig á því að skjótt skipast veður í lofti eins og kunnugt er. Það getur gerst í íslensku efnahagslífi eins og í veðrinu. Þannig eru ýmsir hlutir sem ekki ganga sem skyldi og ef framhald verður á á því sviði um nokkra hríð þá geta skapast veruleg vandamál af þeim sökum. Ég vil nefna nokkur atriði í þessu skyni.

Í fyrsta lagi hefur umtalsverður halli verið í viðskiptum við útlönd á þessu ári, því síðasta og spáð er að verði áfram á næstu árum. Hann er að hluta til skýrður með innflutningi á fjárfestingarvöru vegna stóriðjuframkvæmda. Ég tel svo sem ekki ástæðu til að hafa miklar áhyggjur af viðskiptahalla sem kominn er til af þeim sökum því að við trúum að þau fyrirtæki sem taka til starfa á grundvelli þess innflutnings muni skila tekjum sem standi undir þeim skuldum. En eftir sem áður er meiri hluti viðskiptahallans kominn til af öðrum ástæðum en þessum. Hann hefur heldur farið vaxandi fremur en hitt og því er spáð að svo verði áfram þannig að erlendar skuldir þjóðarbúsins í heild munu fara nokkuð vaxandi þrátt fyrir samdrátt í fjárfestingum. Því er spáð að erlendar skuldir þjóðarbúsins muni vaxa á þessu ári um 3,5% og 4,5% á næsta ári ef ég man þær tölur rétt.

Þá eru vextir á íslenskum fjármagnsmarkaði enn mjög háir og hærri en gerist og gengur erlendis. Þeir eru um 2,5%--3% hærri en gerist erlendis og það eru feikilega miklar fjárhæðir sem þar er um að ræða þegar þessi vaxtamunur á í hlut. Það bitnar ekki bara á ríkissjóði sem skuldara heldur líka á almenningi að því leyti sem hann á í viðskiptum við lánastofnanir á þessum háu vöxtum. Það er fyllsta ástæða til þess að hafa allan varann á í þessu efni. Þetta hefur m.a. leitt til sérkennilegra hluta eins og þeirra að menn hafa séð sér hag í því að taka lán erlendis á vöxtum sem eru 2,5%--3% lægri en gerist hérlendis, flytja það fé inn í landið og nota það til að kaupa pappíra á íslenskum markaði og eiga þá vaxtamuninn til góða. Það eru nokkrir milljarðar kr. sem menn hafa aukið skuldir íslenska þjóðarbúsins með þessum hætti til þess að ná sér í þennan vaxtamun sem er vegna þess hversu háir vextirnir eru hér innan lands. Auðvitað er það á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að verulegu leyti hvernig á þessum málum er haldið og að vextir skuli vera svo háir þrátt fyrir ýmislegt sem gengur ríkisstjórninni í haginn.

Það annar hlutur sem rétt er að hafa í huga sem leiðir af þessu ójafnvægi. Það er hvernig gengið hefur verið skráð á þessu ári. Það hefur verið freistast til þess að halda niðri verðbólgu innan lands með því að hækka gengið. Þegar mest var á þessu ári hafði það hækkað um 2,5% og þó það hafi lækkað lítillega eða um liðlega 1% þar af þá hefur þessi hækkun á meðalgengi í för með sér verulegan fjármagnsflutning frá útflutningsatvinnuvegunum til þeirra sem skulda erlendis og þeirra sem kaupa innfluttar vörur. Það má segja að það sé verið að auka kaupmátt með því að halda genginu svona háu. En afleiðingin af því er sú að útflutningsatvinnuvegirnir, t.d. sjávarútvegurinn, verða af umtalsverðum tekjum vegna þessa. Það á kannski ekki hvað síst við um frystiiðnaðinn sem eins og allir vita er rekinn með verulegu tapi og ekki bætir þessi efnahagsstefna úr.

[15:15]

Það má áætla að tekjutap sjávarútvegsins á þessu ári vegna gengisstefnunnar nemi milli 2--3 milljörðum króna og sennilega nær þremur milljörðum en tveimur. Ráðgert er í stefnu ríkisstjórnarinnar að halda áfram að hækka gengið á næstu árum sem þýðir að gert er ráð fyrir því að hafa af útflutningsatvinnuvegunum fé með þessum hætti. Hvað sjávarútveginn varðar má gera ráð fyrir að hann muni verða af tekjum á næsta ári um svipaða fjárhæð og á þessu ári. Og það munar um minna en 4--6 milljarða kr. á tveimur árum.

Það hefði nú einhver vakið athygli á því að þetta gæti verið nokkuð myndarlegur auðlindaskattur og ekki er að efa að þeir sem eru að berjast í bökkum í hraðfrystiiðnaðinum eru væntanlega ekki mjög sammála ríkisstjórninni um efnahagsstefnu af þessu tagi.

Þá vekur það athygli að þrátt fyrir góðærið mikla sem lýst er yfir í fyrstu setningunni í þjóðhagsáætlun forsrh. að hafi ríkt hér stanslaust síðan 1994, þá hafa skuldir hins opinbera lækkað sáralítið ef nokkuð. Það er varla að það sé um það talandi hversu miklu lægri þær eru taldar verða í lok næsta árs en þær hafa verið á þessu tímabili. Hvernig má það vera þegar ríkissjóður og hið opinbera fá eins miklar tekjur í góðærinu og raun ber vitni, að mönnum tekst ekki að nota neitt af þeim tekjum til að lækka skuldir sínar?

Með því að skoða þau gögn sem fylgja fjárlagafrv. kemur í ljós að tekjur ríkissjóðs hafa aukist verulega frá því sem var á árinu 1993, síðasta ári áður en góðærið mikla reið í garð sem lýst er yfir í þjóðhagsáætlun að hafi byrjað á árinu 1994. Ef reiknað er út hversu miklar tekjur ríkissjóður hefur haft á þessum árum, l994, 1995, 1996, 1997 og 1998, umfram það sem hann hafði árið 1993 --- þetta getum við kallað tekjur ríkissjóðs af góðærinu --- þá kemur í ljós að auknar tekjur ríkissjóðs á þessum tímabili eru 71 milljarður kr. 71 milljarður kr. sem ríkissjóður hefur samtals haft í tekjur umfram það sem hann hafði á árinu 1993. Og hvað skyldu heildarskuldir hins opinbera hafa lækkað eða breyst á þessu tímabili? Það kemur í ljós ef við skoðum þær tölur miðað við verðlag ársins 1998, en þær tekjur sem ég var að vísa til byggjast á því að tekjur ríkissjóðs eru reiknaðar allar á verðlagi ársins 1997, að skuldir ríkissjóðs í lok ársins 1998, næsta árs, verða 28 milljörðum hærri en þær voru í lok ársins 1993 þegar góðærið var að bresta á og gildir einu hvort við tölum um heildarskuldir eða hreinar skuldir. Þær eru 28 milljörðum kr. hærri. Og ef við drögum þetta tvennt saman, þá fáum við það út að á tíma góðærisins hafa skuldir hins opinbera hækkað um 28 milljarða, tekjur ríkissjóðs eins verið 71 milljarði meiri en þær voru á árinu 1993. Þrátt fyrir 71 milljarð í nýjar tekjur hækka skuldir um 28 milljarða. Er þetta mjög traust fjármálastjórn? Er það mjög traust og ábyrg fjármálastjórn að á þessu góðæristímabili, samkvæmt yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar sem hefur náð öllum sínum meginmarkmiðum í efnahagsmálum, hafi skuldir hækkað um 28 milljarða? Það er nokkuð vel af sér vikið að komast hjá því að lækka skuldir á þessu fimm ára góðæristímabili. Samfellt fimm ára góðæristímabil þýðir hærri skuldir.

Hvað skyldi nú ríkissjóður þurfa árlega að leggja til hliðar til þess að standa undir vaxtaskuldbindingum hvers árs? Það er hvorki meira né minna en 16.200 millj. kr. sem gert er ráð fyrir á næsta ári að vextir og fjármagnskostnaður ríkissjóðs verði af þessum skuldum. Þetta er mikil fjárhæð. Þetta er ein allra stærsta einstaka fjárhæð í fjárlögunum og hár fjármagnskostnaður er ekki nema vegna þess að menn skulda mikið. Það er bara ein ástæða fyrir því og hún er sú að menn skulda mikið. 16.200 millj. er fjárhæð sem er hægt að gera mikið fyrir. Og ímyndum okkur að ríkisstjórninni hefði tekist á þessu fimm ára góðæristímabili að lækka skuldirnar, segjum um fjórðung, þá hefði mátt vænta þess að vaxtakostnaður ríkissjóðs væri miklu minni á næsta ári, einhvers staðar á bilinu fjórðungi til helmingi minni. Það er mikil fjárhæð. Það má bora mikið af jarðgöngum fyrir þá fjárhæð eina og sér.

Allt þetta góðæristímabil hefur ríkissjóður verið rekinn með halla. Menn hafa eytt meira en þeir öfluðu. Menn hafa ráðstafað skatttekjum seinni ára til að standa undir eyðslu þessa viðkomandi árs. Það er megineinkennið á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar síðustu ár að hún hefur eytt umfram efni.

Hæstv. fjmrh. gat þess að svo vel stæðum við að við mundum standa vel í samanburði við Evrópuþjóðirnar þegar við mætum efnahag ríkisins, skuldir og annað sem máli skiptir. Við skulum skoða þetta aðeins. Ef við lítum á áætlanir fyrir árið 1998, þá er gert ráð fyrir því að hallinn á rekstri hins opinbera verði um 0,6% af landsframleiðslu. Hjá Evrópusambandinu er áætlað að það verði 2,6% halli, 2% meiri en hjá okkur. Og það er gott að við stöndum okkur betur að þessu leytinu til. En þá skulum við líka hafa í huga það sem er misjafnt og er okkur í vil. Þess vegna eigum við að gera betur. Og það er eitt atriði sem er mjög stórt í þessu sambandi sem menn þurfa ævinlega að hafa í huga og muna eftir þegar menn bera saman þessa stöðu Íslands við lönd eins og í Evrópusambandinu. Það er að hér á landi er enginn her og við höfum engin útgjöld af þeim sökum. Þvert á móti, við höfum bara tekjur vegna þessa. Það munar nú miklu því að þessu er öfugt farið hjá öðrum þjóðum. Þar hafa menn mikil útgjöld en litlar tekjur.

Lítum aðeins á hver útgjöld annarra ríkja til hernaðarmála eru sem hlutfall af landsframleiðslu, þá er ég með tölur frá nokkrum Evrópulöndum, Danmörku, Noregi, Belgíu, Þýskalandi, Ítalíu, Frakklandi, Bretlandi og Spáni. Þær tölur eru frá 1,5% upp í 3,3% af vergri landsframleiðslu ár hvert, u.þ.b. 2--3% af vergri landsframleiðslu eru útgjöld þeirra ríkja vegna hernaðarmála. Útgjöld okkar eru engin en tekjur eru 10 milljarðar, tekjur þjóðarbúsins eru um 10 milljarðar sem eru um 1,5% af landsframleiðslu og ríkið hefur sínar tekjur af þeim umsvifum. Ég hef ekki mat á því en ef við giskum á að það sé um þriðjungurinn, þá er það um 0,5%. Samanlagt eru það svona 2,5--3,5% sem við þyrftum að vera betur staddir en Evrópusambandið til þess að standa að jöfnu að öðru leyti. Það er því kannski ekki ástæða til þess að kætast mjög mikið þó að við stöndum þó þetta betur hvað varðar hallann á rekstri hins opinbera.

Þá vil ég líka nefna aðra hluti sem er ástæða til að hafa í huga þegar við metum ástandið í framtíðinni í efnahagsmálum. Það er að blikur eru á lofti varðandi sjávarútveginn. Fjárfesting í sjávarútvegi er mjög fallandi um þessar mundir og það er ekki góðs viti í þeirri mikilvægu atvinnugrein. Það er ekki gert ráð fyrir að útflutningstekjur sjávarútvegsins aukist á næsta ári frá því sem nú er og má hafa efasemdir um að allt gangi eftir sem spáð er um afla og tekjur í sjávarútveginum þó að vissulega voni ég að svo verði og jafnvel að betur gangi en ætlað er. En við getum ekki gengið út frá því sem vísu.

Þá er athyglisvert að þrátt fyrir þann mikla hagvöxt sem hefur verið og efnahagssveiflu sem skilar mörgum nýjum störfum --- það kemur fram í gögnum ríkisstjórnarinnar að þau eru áætluð að verða um 5.000 á tveggja ára tímabili, þessu og næsta --- þá fækkar atvinnulausum aðeins um 0,7%. Og á næsta ári er gert ráð fyrir að aðeins fækki sem svarar 400 ársverkum á atvinnuleysisskrá. Mjög lítið af þessum nýju störfum verður til þess að draga úr atvinnuleysi. Og þó að það sé mjög gott að atvinnuleysi minnki og við fögnum því, þá er það samt áhyggjuefni að ekki skuli ganga betur en raun ber vitni þegar svona mikill fjöldi af nýjum störfum verður til eins og fram kemur í þeim gögnum sem fyrir okkur hafa verið lögð. Og menn hljóta að spyrja sig: Hvernig má það vera að atvinnuleysi er þrátt fyrir allt svona mikið? Af hverju minnkar það ekki meira þegar svona vel gengur? Hvað er að? Og mér finnst gagnrýnivert af hálfu ríkisstjórnarinnar að hún leiðir ekki hugann að þessu atriði. Það er ekki vikið einu orði að þessu atriði og reynt að draga fram skýringar á því og jafnvel að ríkisstjórnin setji fram stefnu í þessum efnum. En það er kannski ekki hægt að ætlast til þess að ríkisstjórn sem er búin að ná öllum sínum markmiðum hafi einhverja stefnu hér eftir.

[15:30]

Ég vek einnig athygli á einu atriði sem á að vera mönnum viðvörunarefni um að ekki sé allt sem skyldi og þó að vel gangi í efnahagsmálum og miklar tekjur komi inn þá er greinilegt að ekki njóta allir þess sem skyldi, skulum við segja. Í gögnum frá félagsmálastofnunum sveitarfélaga kemur fram vaxandi þungi í framfærsluaðstoð sveitarfélaganna. Hjá Reykjavíkurborg einni fjölgaði þeim um nærri 10% sem þurftu að fá fjárhagsaðstoð á síðasta ári frá því sem var árið á undan. Liðlega 3.500 einstaklingar í Reykjavík þurftu að fá fjárhagsaðstoð á síðasta ári. Þær upplýsingar sem ég hef um þróunina síðan þá benda ekki til þess að úr þessu hafi dregið. Menn hljóta að þurfa að leita skýringa á því og hafa svör við því, þeir sem sitja við stjórnvölinn á hverjum tíma, hvað þeir ætla að gera til úrbóta á þessu sviði. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera fyrir það fólk sem sér ekki góðærið?

Þá vil ég, herra forseti, víkja aðeins að þeim kafla úr ræðu fjmrh. sem fjallaði um skattalækkanir. Víst er að skattalækkanir hafa orðið nokkrar og umtalsverðar og ekki bara á síðasta ári heldur á starfstíma ráðherrans. Ef maður metur þessar breytingar má segja að við getum dregið fram ákveðna pólitíska stefnu í þeim. Mjög skýr pólitísk stefna kemur fram í skattbreytingastefnu ríkisstjórnarinnar. Hún er svona: Þeir sem hafa miklar tekjur eiga að fá mikla skattalækkun. Þeir sem hafa minni tekjur eiga að fá minni skattalækkun. Þetta er mjög skýr stefna. Auðvelt er að rifja upp breytingarnar á undanförnum árum sem hafa í öllum meginatriðum gengið í þessa átt.

Hver man ekki eftir því afreki ríkisstjórnarinnar að lækka sérstaklega skatta á háar eignir og háar tekjur? Skattalækkunin síðasta vor er umdeilanleg svo ekki sé meira sagt. Það er aðgerð sem dreifir út 2 milljörðum kr. eftir efnahag á öfugan veginn þannig að þeir sem hafa miklar tekjur fá mest. Hún gengur upp eftir öllum tekjustiganum og engin tilraun er gerð til þess að dreifa skattalækkuninni misjafnt til þess að draga úr efnahagslegu misrétti sem er fyrir í þjóðfélaginu. Þetta er mjög skýr stefna og kemur mér ekki á óvart að Sjálfstfl. hafi þessa stefnu. Það sem kemur kannski á óvart er að hann skuli geta fengið aðra flokka til að fallast á stefnu af þessu tagi. Það er greinilegt að slíkt er ekki mjög hollt fyrir þá flokka. Það var ekki mjög hollt fyrir Alþfl. í síðustu ríkisstjórn að framfylgja stefnu Sjálfstfl. Það kom í ljós þegar upp var staðið að það er ekki heldur mjög hollt fyrir Framsfl. að framfylgja stefnu Sjálfstfl. í skattamálum. Skoðanakannanir þessa dagana sýna að það er ekkert mjög hollt og ekki ástæða til annars en ætla að kjósendur Framsfl. munu sýna það þegar upp er staðið að þeir ætlast til annars af sínum flokki en að fylgja og flytja skattastefnu Sjálfstfl. Þetta er því miður staðan þegar flokkarnir eru margir og dreifa sér um of þá hafa menn um það að velja að sitja á forsendum stóra flokksins í stað þess að snúa bökum saman og skapa sjálfir sínar sameiginlegu forsendur sem eru andstæða hinna hægri forsendnanna.

Ég vil aðeins rifja upp afstöðu stjórnarandstöðunnar til þeirrar skattalækkunar sem ég hef nefnt sérstaklega, skattalækkunarinnar nú í vor. Í nefndaráliti minni hluta efh.- og viðskn., sem gefið var út þegar málið var afgreitt úr nefndinni 9. maí, sameinaðist öll stjórnarandstaðan um afstöðu til málsins. Mig langar til að rifja upp fáein átriði úr því nefndaráliti því að það dregur mjög skýrt fram áherslur sem flokkarnir hafa sameiginlega og standa öndverðar gegn þeim áherslum sem endurspeglast í lagabreytingunum. Í nefndarálitinu segir svo, með leyfi forseta:

,,Gagnrýnisvert er að skattalækkunin er látin ná upp allan tekjustigann. Þeir sem bera mest úr býtum við þessar breytingar eru því barnlaust hátekjufólk. Það þýðir að hátekjumaðurinn ber mest úr býtum við breytingarnar. Tillögur Alþýðusambandsins voru að taka upp fleiri skattþrep og láta ekki hækkunina ná til hæstu tekna. Flestar nágrannaþjóðir okkar eru með fleiri en eitt skattþrep í tekjuskatti, en við Íslendingar erum einungis með eitt þrep sem meginreglu í okkar tekjuskattskerfi``.

Þá er rétt að minna á að samhliða þessum breytingum voru gerðar breytingar á barnabótum þar sem hæstv. ráðherra segir ævinlega að hafi verið að draga úr jaðarsköttum. Það eru mikil öfugmæli sem hæstv. fjmrh. kveður í þessu barnabótamáli. Staðreyndin var sú að það var verið að lækka barnabætur. Það var ekki verið að hækka barnabætur á lágtekjufólki og það hefur verið aðgerð á undanförnum árum varðandi barnabætur að draga úr heildarfjármagninu í þann bótaflokk fremur en að bæta við.

Minni hluti efh.- og viðskn. víkur einnig að þessu máli og ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að lesa þann kafla sem fjallar um breytingarnar á barnabótakerfinu:

,,Minni hlutinn gagnrýnir hins vegar harðlega fyrirkomulag barnabóta í frumvarpinu. Engu er varið til þess að auka barnabætur, en það er brýnt. Í stað þess er alfarið tekin upp tekjutenging barnabóta sem þýðir að barnabætur lækka hjá fjölmörgum einstaklingum. Það er skoðun minni hlutans að hækka hefði þurft barnabætur og draga úr tekjutengingunni. Barnafólk hefur komið illa út úr skattabreytingum undanfarinna ára. Það er mikilvægt að sýna þeim meiri skilning við skattabreytingar. Minni hlutinn telur að til álita hefði komið að draga verulega úr eða jafnvel afnema tekjutengingu barnabóta þannig að barnabætur hefðu hækkað í áföngum á nokkrum árum. Slíkt hefði kostað um 5 milljarða kr. en verið skynsamlegt til lengri tíma.`` Lýkur þá tilvitnun í þetta ágæta nefndarálit.

Þetta þykir mér rétt að rifja upp þannig að þingheimi sé kunnugt hver afstaða stjórnarandstöðunnar í heild var til þessa máls varðandi tekjuskattsbreytingar og breytingar á barnabótum í vor sem hæstv. fjmrh. kallar alltaf lækkun jaðarskatta en það er eftir því sem ég best veit enginn skattur til á Íslandi sem heitir jaðarskattur þannig að ekki er hægt að lækka þann skatt sem ekki er til.

Herra forseti. Ég vil víkja að lokum að fáeinum atriðum. Ég tel að í fjárlagafrv. eigi að endurspeglast ákveðin og skýr stefna ríkisstjórnar á hverjum tíma og horfa 2--3 ár fram í tímann. Í þessu fjárlagafrv. er ekki að sjá mjög glöggt hver stefna ríkisstjórnarinnar er. Þar er ekkert annað að finna en yfirlýsingar um að hún hafi náð öllum sínum efnahagslegu markmiðum. Ég velti fram nokkrum atriðum sem ég tel að menn ættu að líta til þegar menn ákveða efnahagsstefnu til komandi ára.

Ég tel að í fyrsta lagi þurfi menn að stefna að valddreifingu í ríkiskerfinu. Ríki er ákaflega stórt, ógagnstætt og þunglamalegt og hefur tilhneigingu til að þenjast út og það er mjög heppileg aðferð að brjóta upp einingarnar og dreifa valdinu. Ég er á þeirri skoðun að það eigi að stefna að því að draga úr hlut ríkissjóðs í hinu opinbera og auka hlut sveitarfélaga sem því nemur. Ég tel að ríkið eigi ekki að vera með meira en 50% af umsvifum hins opinbera en í dag lætur nærri að það sé með um 80%. Ég teldi að það væri mjög áhugavert og hefði margt gott í för með sér ef menn stefndu að valddreifingu í þessa átt.

Ég tel að það eigi m.a. að huga að sparnaði, ekki bara á sjúkrahúsum og öðrum slíkum ágætum stofnunum heldur líka á stjórnarheimilinu. Það er náttúrlega mikil ofrausn í dvergþjóðfélagi upp á 260 þúsund manns að halda uppi 10 ráðherrum. Það er ekkert lítið að halda uppi 10 manna ráðherrasveit í pínulitlu þjóðfélagi og 14 ráðuneytum ef ég man rétt og kannski 15. Ég held þó að þau séu 14. Auðvitað eigum við að hafa miklu færri ráðuneyti og miklu færri ráðherra. Þetta er aðgerð sem mun örugglega leiða af sér sparnað í ríkiskerfinu en hún mun líka leiða það af sér að hún mun styrkja Alþingi því að það sem gerir Alþingi fyrst og fremst veikt er hin öfluga ráðherrasveit sem ræður ríkjum umfram aðra þingmenn.

Hins vegar tek ég tek undir það hjá hæstv. ráðherra að stefna eigi að að því að fjárlög nái til 2--3 ára. Ég tel það mjög áhugaverðar hugmyndir og minni á að Alþb. hefur ályktað um það í gegnum árin að taka upp tveggja ára fjárlög.

Ég vil svo að lokum segja vegna athugasemda ráðherrans um meðferð lífeyrisskuldbindinga, 6,7 milljarða að hér er um að ræða ný útgjöld sem stofnast til vegna verðlagsbreytinga og launabreytinga. Þau útgjöld eiga að sjálfsögðu að fara eins og önnur útgjöld yfir rekstrarreikning. Annað væri óeðlilegt. En ég sé, virðulegi forseti, að tíma mínum er lokið þannig að ég hef svör mín ekki ítarlegri við athugasemdum hæstv. ráðherra enda held ég að þess þurfi ekki.