Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 17:27:02 (104)

1997-10-07 17:27:02# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[17:27]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er margt við ræðu hv. þm. Sturlu Böðvarssonar sem mætti gera athugasemdir við. Ég ætla að einskorða mig við eitt örlítið atriði. Hv. þm. reifaði í nokkuð ítarlegu máli hversu vel spítalinn í Stykkishólmi hefði staðið sig á undanförnum árum. Þar væru meira að segja komnir biðlistar eftir aðgerðum. Það er í sjálfu sér ekki nýtt fyrir okkur að heyra það að biðlistar séu innan heilbrigðiskerfisins en auðvitað er nýtt að þingmenn stjórnarliðsins geri það að sérstöku umræðuefni úr ræðustól þingsins. En hann tók svo til orða, herra forseti, að það væri forkastanlegt --- efnislega sagði hann að það væri forkastanlegt --- að horfa upp á þau vinnubrögð sem heilbrrn. hefði haft í frammi gagnvart þessum spítala. Hann sagði að ekki væri hægt að skikka til að vild og vilja heilbrrn. í stað þess að ganga til samninga við spítalann um rekstur sinn. Nú er það svo að þessi hv. þm. talaði í fyrra þegar menn voru í umræðum um niðurskurð til landsbyggðarsjúkrahúsanna og það var ómögulegt að skilja mál hans öðruvísi en svo að hann legðist gegn niðurskurði.

Nú er það þannig að sá sparnaður upp á 160 milljónir, sem átti að ná fram hjá dreifbýlissjúkrahúsunum, er að því er kemur fram í frv. til fjárlaga helmingaður niður í 80 milljónir. Það er ljóst að þessi spítali lendir í niðurskurði og ýmsir fleiri spítalar. Mig langar að fá afstöðu hv. þm. til þess hvort hann sé sáttur við að heilbrrn., svo ég noti hans orðalag, skikkar til að vild sinni og vilja fjölmarga spítala úti á landi --- skikkar þá til þess að skera niður þó það liggi fyrir að í sumum tilvikum er það afskaplega erfitt. Ætlar hv. þm. að standa við það sem hann sagði í fyrra þegar hann lagðist gegn þessu í umræðum eða ætlar hann að greiða atkvæði með því? Mér finnst merkilegt að hlusta á hv. þm. koma og tala frekar illúðlega gagnvart hæstv. heilbrrh. varðandi þennan tiltekna spítala í Stykkishólmi þegar fyrir liggur að hann er oddamaður annars stjórnarflokksins í fjárln. og hlýtur auðvitað að hafa haft eitthvað um þetta að segja.