Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 17:38:30 (111)

1997-10-07 17:38:30# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[17:38]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Fjárlagafrv. er lagt fram með nýjum hætti eins og fram hefur komið. Ég vil í upphafi máls míns taka fram að mér finnst frv. sjálft vera vel úr garði gert. Farið er eftir þeim lögum sem við samþykktum í vor um fjárreiður ríkisins sem var vönduð lagasmíð og afgreidd samhljóða á hinu háa Alþingi. Fjármál ríkisins koma því betur í ljós í frv. heldur en oft áður. Einnig eru fleiri þættir sem voru lagðir fram í sérstökum frv. áður felldir inn í frv.

Þótt umgjörðin sé við hæfi, þ.e. farið eftir lögum, er ekki hægt að segja að innihaldið sé það. Hæstv. fjmrh. hefur lagt mikið upp úr þeim hálfa milljarði í hagnaði sem fjárlagafrv. er lagt upp með. Í umræðunni hefur komið fram að ýmislegt af því hefur lítið með rekstur ríkisins að gera eins og sala eigna, tekjuaukning þar upp á 1,9 milljarða, þ.e. gengið út frá því að ríkissjóður selji eignir upp á 6,2 milljarða á næsta ári. Ekkert liggur fyrir um það hvernig verður staðið að þeirri sölu og ég mun víkja að því síðar. Ef þessir hlutir eru teknir frá kemur reksturinn ekki eins vel út. Síðan er matsatriði hvernig fara eigi með lífeyrisskuldbindingar. Þær hafa hækkað um 10,5 milljarða, 3,8 milljarðar eru gjaldfærðir, 6,7 milljarðar yfir endurmatsreikning. Þetta hefur verið gert að nokkru umtalsefni. Hægt er að hafa mismunandi skoðanir á því hvernig menn færa, hvort menn færa yfir rekstur eða færa yfir endurmatsreikning. Aðalmálið er að menn hafi samræmi í færslum milli ára og ég fæ ekki annað séð en að það hafi verið gert. Samt sem áður er rétt að vekja athygli á því að nokkuð stór upphæð fer yfir endurmatsreikning og kemur þá ekki fram í rekstri.

Almennt má segja að gagnrýni varðandi fjárlfrv. tengist umhverfi þess og forsendum. Hagvöxtur hefur verið á þessu ári og verður á næsta ári aðeins meiri en í nágrannalöndunum. Fyrir nokkrum árum var hagvöxtur minni hér en í nágrannalöndunum þannig að staðan er aðeins rýmri núna miðað við þau. Hins vegar þarf að hafa mjög skýrt í huga að uppspretta hagvaxtarins hjá okkur hefur verið einkaneyslan sem fyrst og fremst hefur komið fram með skuldaaukningu heimilanna. Alvarlegasti hluturinn í efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar, sem búin er að vera við völd í rúmlega tvö ár, er hvað bæst hefur við skuldir heimilanna á þeim tíma. Það er sagt að það sé góðæri og stjórnin keppist við að telja fólki trú um að góðæri sé mikið en almenningi gengur illa að finna góðærið í heimilisbúskap sínum. Við urðum vitni að því fyrr í dag þegar aldraðir borgarar komu og kröfðu ráðherra svara um góðærið títtnefnda. Ekki er fjarri lagi að áætla að meðalskuldir heimila gætu verið í kringum 6 millj. kr. Með einföldum útreikningi væri hægt að finna út að vaxtabyrði hjá meðalfjölskyldu, fjögurra manna fjölskyldu, væri ef til vill í kringum 50 þús. kr. á mánuði. Þetta er býsna há tala. Margir greiða meira og margir minna. Margir eru skuldlausir en margir hafa mun þyngri greiðslubyrði af lánum sínum. Alvarlegasta staðan í sambandi við fjárlagafrv. er hvernig heimilin koma út með efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar.

Fjmrh. og forsrh. ræða oft, og Sjálfstfl. sérstaklega, áhyggjur af samneyslunni, þ.e. þá hluti sem fara í gegnum opinbera aðila af verðmætasköpuninni innan lands eins og það sé allt út úr korti. Það er rangt. Samneyslan, þ.e. það sem tekið er í gegnum opinbera aðila, er alls ekki meiri hérlendis en annars staðar og minni en víðast hvar, t.d. ef borið er saman við Norðurlöndin eða Bretland. Umsvif opinberra aðila eru einnig mun minni hérlendis en erlendis. Þannig eru skatttekjur hér lágar miðað við önnur lönd sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, rúmlega 30%, en meðaltal í Evrópusambandinu er rétt yfir 40% og meðaltal OECD-ríkja er rétt neðan við 40%. Ég tek fram að þessi samanburður byggist ekki á fjárlagafrv. heldur á gögnum frá OECD sem eru samanburðarhæf og umsvif, ef við tökum að 10% í landsframleiðslu, eru 56 milljarðar. Ég er ekki að segja að hið opinbera eigi allt í einu að fara að auka umsvif sín og skatttekjur um 56 milljarða á næsta ári en ég bendi á að það er blekking þegar fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa haldið því fram að opinber umsvif væru að sliga allt hagkerfið. Það er rangt ef borið er saman við önnur lönd. En ýmislegt annað er athyglisvert þegar borin er saman hagstjórn okkar og hagkerfi við ríki OECD. Tekjuskattar fyrirtækja eru hér langtum minni en hjá öllum ríkjum OECD. Ég fann ekkert ríki OECD sem er með lægra hlutfall. Þetta er um það bil 4% af fjárlögum sem eru tiltölulega lítil að umsvifum. Þetta er fyrir neðan allar hellur en þetta er efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar. Þetta er velferðarkerfi fyrirtækjanna sem ríkisstjórnin hefur séð um að tryggja frá því hún tók við völdum.

[17:45]

Ef tekjuskattur fyrirtækja ætti að skila svipuðu og meðaltal í Evrópusambandinu og í OECD ættu fyrirtækin að greiða meira en 20 milljarða í tekjuskatt í staðinn fyrir þessa 7 milljarða sem eru í fjárlagafrv. Nú eiga menn náttúrlega að segja sem svo: ,,Betur væri að hagnaður væri til staðar og þá kemur þetta allt saman inn.`` En þetta dregur athyglina að því að í fyrirtækjarekstri hérlendis er mjög mörgu ábótavant. Það er ekki bara að fyrirtækin greiði lítinn tekjuskatt og að þau búi við vænt skattaumhverfi af hálfu ríkisstjórnarinnar heldur er framleiðni íslenskra fyrirtækja meðal þeirra lægstu sem þekkist í Evrópu. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að launin eru lág hér á landi. Annað er athyglisvert, þ.e. að tryggingagjald sem er í fjárlagafrv. um 15 milljarðar er miklu lægra en gengur og gerist í Evrópu. Samsetning fjárlaga hjá ríkjum í Evrópu byggist miklu meira á tryggingagjaldi sem er greitt af fyrirtækjum. Hérna er vaskurinn hærra hlutfall. Allt ber að sama brunni ef menn skoða samsetningu fjárlagafrv. Það eru fyrst og fremst einstaklingarnir og heimilin sem eru látin greiða fyrir fjárlög þessarar ríkisstjórnar.

Lægsta skatthlutfallið á tekjur einstaklinga, þegar menn byrja að greiða skatta á annað borð, er hæst hérlendis. Þetta skattkerfi er komið út í tómar ógöngur. Þrátt fyrir að fjmrh. segi að skattar lækki, þ.e. alveg rétt, prósenturnar lækka aðeins, tekjuskattur einstaklinga hækkar um 3 milljarða milli áranna 1997 og 1998 sem er 20% hækkun. Það er tekjuskattshækkunin. Það eru að vísu aukin umsvif í þjóðfélaginu en það eru sífellt fleiri að greiða. Nú eru það reyndar ekki margir framteljendur sem greiða tekjuskatt og það er eitt vandamálið í viðbót. Nefna má að dráttarvextir, í frv., eiga að skila 3 milljörðum. Þarna er verið að skattleggja vanskil fólks. Það er tekjustofn upp á 3 milljarða. Viðskiptahallinn, og það er eitt það alvarlegasta í stefnu þessara ríkisstjórnar, verður tæplega 20 milljarðar á þessu ári. Hann verður aftur 20 milljarðar á næsta ári. Þetta er 40 milljarða viðskiptahalli. Við flytjum inn og eyðum 40 milljarða meiri gjaldeyri en við öflum á tveimur árum. Þetta er versta staða um áraraðir. Ég komst ekki nógu langt aftur til að finna jafnslaka útkomu á viðskiptum við útlönd og þessi ríkisstjórn er að leggja hér fram. Þetta þýðir vitaskuld að erlendar skuldir hækka sem þessu nemur þó svo að hlutfallið af landsframleiðslu geri það ekki en það er vegna hækkandi raungengis og það er nú kannski ein ástæðan fyrir því að ýmiss konar atvinnurekstur hér á erfitt uppdráttar.

Skuldir hins opinbera eru 51% af landsframleiðslu. Fyrir tíu árum voru þær 37%. Skuldir hins opinbera hafa tvöfaldast sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á tíu árum. Erlendar skuldir eru jafnmiklar núna og þær voru fyrir tíu árum. Það er ástæða til að draga þetta fram vegna þess að fjmrh. og forsrh. og framsóknarmennirnir eru alltaf að segja að hér séu blóm í haga og hér hafi orðið umsnúningur á efnahagsstjórninni. Það er rangt, það er ekki svo. Okkur hefur ekki miðað neitt sérstaklega vel áleiðis undanfarin tíu ár. Það eina sem er kannski markvert í efnahagsstjórninni á sl. tíu árum er sú efnahagsstefna sem kennd er við þjóðarsáttarsamningana, þ.e. við höfum náð að halda sambærilegri verðbólgu og er í nágrannalöndunum. En það er það eina.

Erlendar skuldir verða tæpir 270 milljarðar á næsta ári og það er nýtt met. Fjmrh. er ekki bara búinn að setja met í setu á ráðherrastóli, hann er búinn að setja met líka í skuldastöðu, í erlendum skuldum. Við greiðum 16 milljarða í vexti til útlanda og það er enn eitt metið þótt hlutfallið af landsframleiðslu hafi aðeins minnkað. 16 milljarðar er býsna mikið, ég held að það sé meira en við eyðum í menntamálin.

Fjárfestingin nú í þessu mikla fjárfestingaræði ef það má orða það svo er um það bil 20% af landsframleiðslu sem er meðaltal í OECD. Það sýnir eiginlega best í hvílíkum vandkvæðum íslenskt efnahagslíf hefur verið að fjárfestingar sem eiga að standa undir lífskjörum framtíðarinnar og hagvexti hafa verið svo lágar. Það eina sem hefur breyst í þessu er að það hafa verið þessar miklu fjárfestingar í orkufrekum iðnaði á þessu ári og verða á næsta ári. En hvert framhaldið verður veit enginn, en það er rangt gefið í þessu hagkerfi. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann verður lægri á næsta ári en hann var fyrir tíu árum. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann er minni. Fólk hefur minni kaupmátt á næsta ári með þessum góðærisfjárlögum hæstv. fjmrh. en það hafði fyrir tíu árum.

Nýjustu tölur um samkeppnisstöðu Íslendinga segja okkur að við erum í 19. sæti af 26 OECD-ríkjum. Það eru nokkur lönd í Suður-Evrópu sem eru fyrir neðan okkur í samkeppnisstöðu. Nýsköpun og þróun þarf ekki að nefna, við erum svo langt á eftir á þeim vettvangi.

Við ræddum fyrr í dag eitt það ömurlegasta í þessu fjárlagafrv., þ.e. hvernig ríkisstjórnin kemur fram við fólk sem minna má sín. Það á að afnema tengingu við launaþróun gagnvart öldruðum. Við sjáum hvað gert er í heilbrigðiskerfinu, það eru engar nýjar fjárveitingar til spítalanna. Ekki verða þeir betur í stakk búnir til að taka á biðlistum. Þessi ríkisstjórn vill halda áfram að horfa upp á fólk þjást mánuðum saman og veita ekki úrlausn, nokkuð sem engin þjóð gerir nú orðið. Engin þjóð hefur það á stefnu sinni nema sú íslenska að taka ekki á þessari mestu hneisu innan heilbrigðiskerfisins. Þeim er svo sem alveg sama um það. Þeir ætla að selja hér fyrir 6,2 milljarða. Hvað ætla þeir að selja? 49% í bankanum sínum nýja, Fjárfestingarbankanum. Þeir ætla að selja Íslenska aðalverktaka. Hvernig ætla þeir að selja? Hvernig ætla þeir að standa að þessu? Ekki er eitt einasta orð um það í fjárlagafrv., ekki eitt einasta. Ætli það sé ekki einhver einkavinavæðing á ferðinni eina ferðina enn hjá þessari ríkisstjórn. Það kæmi manni ekki á óvart þó að einhverjum yrði hyglað þegar kemur að þessari margrómuðu sölu hæstv. fjmrh.

Við erum að eyða minni fjármunum til menntamála. Þau eru ívið lægri útgjöldin til menntamála á næsta ári en fyrir tíu árum á sambærilegu verðlagi. Okkur miðar ekkert áfram í menntamálum þrátt fyrir að þjóðinni hafi fjölgað, enda höfum við fengið hvern áfellisdóminn á fætur öðrum á alþjóðlegum vettvangi. Það var TIMSS-skýrslan. Það var skýrsla sem við jafnaðarmenn báðum um í sambandi við háskólakerfið sem sýndi þessa ömurlegu stöðu í menntamálum og sjálfstæðismenn bera ábyrgð á því. Þeir hafa farið með þetta ráðuneyti í 12 ár af sl. 14 árum. Ég hef áður sagt að eina úrbótin í menntamálum er að koma þessum mönnum út úr ráðuneytinu. Það er engin aukin fjárveiting til Kennaraháskólans. Það þarf auðvitað að bæta menntun kennara við þær auknu kröfur sem umhverfið gerir til menntunar. Þeir gera ekkert í þeim efnum. Ef við ætlum að verja jafnmiklu fé og aðrar þjóðir gera til menntamála þá ættum við, herra forseti, að verja 10 milljörðum meira í menntamálin á næsta ári en við gerum. Það eru einungis Grikkir og Tyrkir sem verja minna fé til menntamála í Evrópu en við. Ég veit ekki hvort menntakerfi þeirra er eitthvað lakara en okkar. Framlög til rannsókna og þróunarstarfsemi eru mjög lág og það þarf ekki að ræða það, þau eru langt undir meðaltali nágrannaþjóðanna og nokkuð undir meðaltali OECD.

Í þessu fjárlagafrv. erum við enn og aftur með landbúnaðarkerfi sem er styrkt meira en hjá nær öllum þjóðum í heiminum. Það eru einungis Japanir og Norðmenn sem eru með stuðningskerfi sem er kostnaðarmeira en okkar. Þetta er sorglegt en við erum með meira stuðningskerfi en Evrópusambandið. Af hverju er þetta kerfi rangt? Það er rangt vegna þess að matvæli eru hér 30% dýrari en í Evrópu, en bændur eru fátækasta stétt landsins. Þetta kerfi er rangt. Ég er að draga þetta fram til að segja: Hérna þarf að verða stefnubreyting, þessir tveir helmingaskiptaflokkar eru ekki færir um það.

Það er nokkuð sem ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að. Hvernig ætlar hann að standa að þessari sölu? 6,2 milljarðar. Hvernig verður það gert? Eru skólagjöld í Háskóla Íslands hækkuð? Það er gert ráð fyrir sértekjum upp á 500 millj. kr. Þau eru núna held ég 22 þús. kr. Það er rétt að fá þetta upplýst. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um hvað hann meinar í ræðu sinni með setningunni um lífeyrissjóðsmál: ,,... að setja ný lög um starfsemi lífeyrissjóða á þessu þingi í samræmi við þá málamiðlun sem kom fram í meirihlutaáliti efh.- og viðskn.`` Það var engin málamiðlun, það var ósátt, ekki bara við okkur stjórnarandstæðinga, það var ósátt um það mál við aðila vinnukarkaðarins. Ég vil spyrja: Ber að skilja þessa setningu þannig að ríkisstjórnin ætli að þvinga fram það frv. sem við kvöddum hér í ósætti í vor? Það væri gott að vita það.

Við þurfum að gera endurbætur á ýmsu sem tengist skattamálum. Auðlindagjald, veiðileyfagjald, á að koma í staðinn fyrir aðra skatta eins og umhverfisskattar sem eiga að skipta meira máli hjá okkur. Við eigum að stokka upp þetta tekjuskattskerfi. Þegar þriðjungur framteljenda greiðir tekjuskatt þá er þetta skattkerfi sem við búum við orðið óbærilegt hjá venjulegu launafólki. Ég vil vekja athygli á því að sveitarfélögin fá orðið meira en helming af skattlagningu við tekjuskatt, þau fá 32 milljarða í ár á meðan ríkið fær 27 milljarða eða nettó 16. Mér finnst koma vel til álita að velta því fyrir sér að tekjur einstaklinga verði skattstofn sveitarfélaga en ekki ríkisins. Það verður einhvern veginn að komast út úr þessu kerfi þar sem jaðartengingin er að drepa alla framtakssemi og launabaráttu venjulegs fólks.

Við erum með ýmsa þætti í fjárlagafrv. sem kalla á kerfisbreytingar. Við erum með fákeppni og spillt fjármálakerfi. Það er ekki tekið á því. Við erum með of lítinn útflutning sem aflvél í hagvexti. Það er ekkert tekið á því. Við erum með miðstýringu og kannski að mörgu leyti staðnað fyrirkomulag á vinnumarkaði. Það er ekkert tekið á því, ekki heldur stærsti vinnuveitandi landsins. Það er ýmislegt í þessu sem þyrfti að kalla til nýrra hugmynda.

En mér finnst vera verst, herra forseti, í þessu fjárlagafrv. að það er ekki sniðið að þörfum fólksins. Það er ekki sniðið að þörfum eldri borgara. Það er ekki sniðið að þörfum unga fólksins sem vill sækja sér menntun til að geta orðið samkeppnishæft á næstu öld. Það er ekki sniðið að þörfum sjúklinga eða þeirra sem minna mega sín í þessu þjóðfélagi. Það gengur eins og rauður þráður, herra forseti, í gegnum þetta frv. að það er gengið á hlut þessa fólks. En síðan er þeim hlíft sem betur mega sín eins og við sjáum á skattlagningu fyrirtækjanna og sjáum á tekjustofni í fjárlagafrv. upp á 1 milljarð sem er fjármagnstekjuskatturinn. Hann er það eina sem fjármagnseigendur hafa að leggja í næsta fjárlagafrv., þ.e. skatt upp á tæpan milljarð. Þetta sýnir, herra forseti, forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar betur en margt annað.