Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 18:04:26 (114)

1997-10-07 18:04:26# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[18:04]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst ætla ég að skýra það að það, sem hv. þm. veit, að uppi voru andstæð sjónarmið í lífeyrissjóðamálunum og það frv. sem lagt var fram í lokin eftir að hv. nefnd hafði fjallað um frv. var auðvitað málamiðlun á milli tveggja sjónarmiða.

Í öðru lagi vil ég benda á að í þeim löndum þar sem skólagjöld eru lögð á er það gert alveg burt séð frá því hvort um er að ræða einkaskóla eða opinbera skóla. Þetta veit hv. þm.

Varðandi sölu fyrirtækja, þá heyri ég að hv. þm. er sammála því að það eigi að selja fyrirtækin og ég er sammála honum um að það eigi að standa þannig að því eins og eðlilegt getur talist. Það er ekki ágreiningur um það okkar á milli.

Ég gat ekki komið því að áðan í andsvari mínu en hefði getað gert það síðar að hv. þm. sagði að viðskiptahalli á yfirstandandi ári væri svo mikill að hann þekkti ekki annað eins. Árið 1991 var viðskiptahallinn miklu meiri. Þá var hann 4,6% af landsframleiðslu en er núna 3,4% af landsframleiðslu, miklu meiri viðskiptahalli. Og því til viðbótar þarf að taka fram að helmingurinn af viðskiptahallanum núna stafar af fjárfestingarinnflutningi fyrir atvinnufyrirtæki og orkufyrirtæki. Það er það sem gerir gæfumuninn að sá viðskiptahalli sem núna á sér stað er í stórum mæli tilkominn vegna þess að það er verið að byggja upp atvinnulífið.

Loks get ég ekki annað en brosað að því þegar hv. þm. segir að þeir ætli ekkert annað að læra af Tony Blair, kratarnir, annað en að sigra í næstu kosningum. Og hver segir þetta? Það er fulltrúi Þjóðvaka, afls fólksins í landinu. Hvaða fylgi hefur Þjóðvaki í dag, hreyfing fólksins? Fylgið er horfið þannig að það þarf eitthvað meira til að koma heldur en orð hv. þm. ef hann ætlar að sigra með þessa hreyfingu fólksins í næstu kosningum.