Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 18:06:45 (115)

1997-10-07 18:06:45# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[18:06]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um viðskiptahallann. Það sem ég sagði í ræðu minni var að það er 20 milljarða halli í ár, 20 milljarða halli á næsta ári og að ég minntist þess ekki að hafa séð slíkan samfelldan halla tvö ár í röð. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra, að það hafa komið ár þegar meiri halli hefur verið en það hefur ekki gerst svo að ég sjái í fljótu bragði að það hafi verið tvö ár í röð. Þetta skiptir kannski ekki höfuðmáli en alla vega ætti það að vera skýrt að hér er verið að tala um 40 milljarða halla á tveimur árum hjá ríkisstjórn sem mærir góðærið. (Fjmrh.: Fimm, sex ár í röð ...)

Varðandi það sem hann nefndi hér um Þjóðvaka eða hvað við ætluðum að læra af Tony Blair, þá ætti hæstv. ráðherra að vita það ósköp vel að Þjóðvaki hefur gert um það samþykkt sem hann mun leggja fyrir sinn landsfund að hann muni ekki bjóða fram sérstaklega í næstu kosningum heldur vera aðili að því sameiginlega framboði sem nú er verið að vinna að á þessum væng stjórnmálanna. Og þegar ég tala um það að við mundum geta sigrað eins og Tony Blair sigraði í Bretlandi, þá er það byggt á þeirri sannfæringu minni að sameinað framboð okkar í stjórnarandstöðunni við næstu alþingiskosningar muni leiða til slíks sigurs. Það liggur hins vegar ekki fyrir af hálfu allra stjórnarandstöðuflokkanna hvort af þessu verður. Þjóðvaki hefur gert upp sinn hug. Alþfl. hefur gert það að langmestu leyti, gerði það á flokksþingi síðast. Ýmsir innan Alþb. styðja þessa hugmyndafræði. Þetta verður rætt nánar á fundum þar í nóvember. Sömuleiðis hjá Kvennalista. Ég er sannfærður um það að þetta verður að veruleika og við náum að sigra hæstv. fjmrh. í næstu kosningum. En hann á að vita það að Þjóðvaki sem slíkur var nauðsynlegur í þessum ferli og ég er sannfærður um að ef þetta tekst, og ég tel yfirgnæfandi líkur á að það verði, þá hefði ekki gerst ef Þjóðvaki hefði ekki boðið fram með þeim hætti sem hann gerði síðast. Það er mín skoðun, það er mitt mat á pólitískri stöðu og ég held að hæstv. ráðherrar ættu ekki að hlæja að því sem mun gerast í næstu kosningum.