Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 18:09:25 (116)

1997-10-07 18:09:25# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[18:09]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er rétt að byrja á því að upplýsa að ég ætla ekki að blanda mér í deilur tveggja síðustu ræðumanna um það hvor eigi meiri eða minni hlutabréf í Tony Blair. Ég læt mér það í sjálfu sér í léttu rúmi liggja hvor reynir að eigna sér meira eða minna í honum, Friðrik Sophusson eða Ágúst Einarsson, hæstv. ráðherra og hv. þm. (Fjmrh.: En ætlarðu ekki að tala um sameininguna?) Það er margt ágætt í prógramminu hjá Blair og þeim í Verkamannaflokknum breska en það er líka ýmislegt annað þar á ferðinni sem ég er ekki hrifinn af. Ég taldi það t.d. ekki vera mikinn sigur fyrir jafnaðarstefnuna sem upp úr pokanum kom þegar Tony Blair fór að undirbúa sitt flokksþing að troða á þúsund punda skólagjöldum í Bretlandi, en slík mun staða hans vera um þessar mundir að hann fékk það nokkurn veginn möglunarlaust í gegnum breska Verkamannaflokkinn og hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar. Ég er jafnmikill andstæðingur skólagjalda nú eins og ég hef áður verið og barðist m.a. gegn þeim þegar fyrri ríkisstjórn lagði þau á.

Herra forseti. Það er mikið talað um góðærið. Góðærið hófst 1994 og þá varð veruleg efnisleg breyting til hins betra á Íslandi vegna þess að þá gekk í garð raunverulegt framleiðsluverðmætasköpunargóðæri, þ.e. verðmæti sjávarvöruframleiðslunnar, sem fyrst og fremst var þarna á ferðinni, jukust verulega að raungildi og það var þá, eins og jafnan áður, sjávarútvegurinn sem lyfti okkur af stað upp úr öldudalnum. Það voru miklar úthafsveiðar og mikið framleiðsluverðmæti úr ýmsum greinum sjávarútvegs sem fyrst og fremst komu hjólunum af stað á nýjan leik.

Hins vegar hefur orðið þróun í þessu ferli, þó að mælst hafi hagvöxtur öll árin síðan og geri enn, sem er að ýmsu leyti áhyggjuefni vegna þess að í ferlinu á árunum 1995--1997 hefur þetta framleiðsluverðmætasköpunargóðæri sem þannig hófst að miklu leyti þróast yfir í eyðslugóðæri. Það er aukin einkaneysla og það er erlend skuldasöfnun og það er viðskiptahalli sem núna knýja aflvél efnahagslífsins áfram að verulegu leyti og það er því miður ekki nema að hluta til rétt sem hæstv. fjmrh. sagði að viðskiptahallann megi rekja að mestu leyti til fjárfestinga. Það á að nokkru leyti við en á móti hafa líka komið sölur á verðmætum hlutum út úr landinu eins og flugvélum þannig að þegar það er gert upp, þá er það ekki nema að hluta til sem auknar fjárfestingar eru þarna á ferðinni. Það er því miður á nýjan leik eyðsla um efni fram sem að verulegu leyti knýr áfram mótorinn, góðærið og af því hefur hæstv. fjmrh. tekjur og við aðstæður af þeim toga er auðvelt að reka ríkissjóð með góðum árangri eins og kunnugt er.

Ef við lítum síðan á framhaldið þá er líka ástæða til að hafa þar áhyggjur af vissum þáttum. Einkaneysla og fjárfestingar standa undir hagvextinum nú og að einhverju leyti á næsta ári. Í hagvaxtarspám Þjóðhagsstofnunar er síðan gert ráð fyrir að við taki framleiðsla úr þeirri auknu stóriðju sem nú er verið að efna til. Og í kjölfar þess frá og með árinu 2000 eða 2001, hvað á þá að drífa fram hagvöxtinn, herra forseti? Jú, aukinn þorskur, meiri verðmæti úr sjávarútveginum á nýjan leik. Og ég segi: Guð láti gott á vita, en það er ekki í hendi frekar en að þessar forsendur séu að öllu leyti jafntraustar og ýmsir vilja vera láta um þessar mundir. Ég óttast að menn séu hér að leggja upp í að gera svipuð mistök, viljandi eða óviljandi og gerð voru á árunum 1986 og 1987 þegar ríkisstjórn talaði mikið um góðæri og allt væri í himnalagi og það var kosið í því andrúmslofti að við værum stödd í miklu góðæri. En hvernig var ástandið hálfu ári eða ári síðar? Jú, það var þannig að það var allt komið í kaldakol. Þá snerist góðærið á innan við einu ári upp í einhverja verstu kreppu sem við höfum gengið í gegnum á síðari áratugum. Og af hverju? Af því að menn vanmátu aðstæðurnar herfilega, keyrðu áfram í tómri vitleysu á árunum 1986 og 1987. Við skulum reyna að forðast að gera aftur sambærileg mistök. Það er ekki ástæða til þess að hafa í sjálfu sér áhyggjur af því með sama hætti akkúrat nú, en ég verð að segja, herra forseti, að það fer nokkur hrollur um mig þegar þessi sjálfbirgingslegi yfirlætistónn kemur fram hjá mönnum eins og hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. um að nú sé bara allt teppalagt og í góðu lagi langt inn á næstu öld. Það er því miður ekki endilega sjálfgefið, herra forseti. Þar getur margt komið til.

Það eru líka ýmis önnur hættumerki fyrir utan þessi, ytri efnahagslegar aðstæður og skilyrði sem ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af. Inn í þetta koma hlutir eins og óheyrilega langur vinnutími á Íslandi. Inn í þetta koma hlutir eins og lægsta tímakaup í norðanverðri Evrópu sem við sitjum föst í og miðar sáralítið að komast út úr, vinnuþrælkunarláglaunagildrunni sem íslenskt efnahagslíf er fast í. Og samt erum við að keyra þetta á viðskiptahalla sem verður á bilinu 35--40 milljarðar á þessu ári og hinu næsta.

Ég held líka að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af ýmsum tækjum sem hæstv. ríkisstjórn er að beita í efnahagsstjórn sinni um þessar mundir. Ég held t.d. að það sé vitlaust að lækka skatta á hátekjufólki eða af hagnaði fyrirtækja um þessar mundir. Af hverju? Af því að við þurfum á þessum tekjum að halda til að gera úrbætur í velferðarkerfinu og við ættum þá frekar að nota þær til að greiða hraðar niður skuldir en ella við þær aðstæður sem nú eru. Því að ef við getum það ekki í góðærinu svo að neinu nemur, hvenær ætlum við þá að gera það? Hér hefur komið rækilega fram í málflutningi manna á undan mér að árangurinn á því sviði er miklu minni en hæstv. fjmrh. er að reyna að gefa í skyn.

[18:15]

Ef litið er á atvinnuvegina þá er líka áhyggjuefni þar, eða hefur enginn af því áhyggjur nema þá ræðumaður, að frystingin í landinu er rekin með 13% tapi um þessar mundir? Vita menn ekki að stórkostleg hætta er á því að leifarnar af landvinnslu, liggur mér við að segja, leggist af á næstu mánuðum og missirum ef ekki tekst með einhverjum hætti að ráða bót á þeim gríðarlega tekjuskiptingarvanda sem er innan sjávarútvegsins? Meðaltalið í kringum núllið er alveg skólabókardæmi um mann sem stendur með annan fótinn í fötu fullri af sjóðandi vatni og hinn fótinn í fötu með ísvatni og hefur það að meðaltali gott en ástandið er ekki þannig í raun. Það er mjög góð afkoma í einstökum afmörkuðum greinum sjávarútvegsins en að sama skapi er grundvöllurinn t.d. fyrir útgerð hefðbundinna ísfiskveiðiskipa og hefðbundinnar frystingar í landi gersamlega horfinn.

Ég var á Austfjörðum um daginn og heimsótti þar fyrirtæki, eitt af þeim sem enn eru að reyna að gera út tiltölulega hefðbundið munstur, einn ísfisktogara sem landar vikulega inn í frystihús. Þar er búið að færa saman veiðiheimildir af tveimur skipum og reyna að hagræða eins og kostur er og allt gert að mínu mati nokkurn veginn eins vel og hægt er að gera ráð fyrir að hægt sé að gera í því munstri, þ.e. hefðbundnu frystihúsi sem heldur uppi vinnu í einu sjávarplássi og með rekstri ísfiskveiðiskips, og tapið er fleiri tugir milljarða --- fleiri tugir milljóna. Ég sá að fjmrh. tók fyrir hjartað. Hann vaknar aðeins til lífsins enn þá þegar hann heyrir svona háar tölur en milljónirnar eru hættar að hreyfa við honum. Það þarf milljarða til þess að hæstv. fjmrh. kippist við. En ég spyr: Hvað hafa menn hugsað sér gagnvart þessu? Ætla menn bara að láta sem ekkert sé? Það mætti líka spyrja hvaðan þetta fyrirtæki ætti að taka fjármuni til þess að borga auðlindaskatt.

Nei, herra forseti. Það er því miður ekki þannig að innstæður séu að öllu leyti fyrir þessu sjálfbirgingslega tali, sérstaklega ekki þegar menn framreikna bjartsýnar forsendur langt inn í framtíðinni. Vonandi verður árferðið áfram gott og vonandi tekst okkur að glíma vel við þá hluti sem blasa við og þarf að taka á en ekkert er sjálfgefið í þeim efnum og reynslan sýnir að dramb er falli næst, líka í þessum efnum. Ef menn verða of öruggir með sig er hættan mest á því að menn fari að gera mistök. Þetta ætla ég, herra forseti, að láta duga um almennar forsendur og snúa mér að því að ræða nokkra þætti sérstaklega og ég fagna því að hér eru viðstaddir nokkrir hæstv. ráðherrar sem ég hef m.a. óskað eftir því að yrðu við umræðuna og ætti svo sem ekki að þurfa, svo sjálfsagður hlutur sem það er að fagráðherrar séu viðstaddir en ég tek eftir því að á bekkinn vantar hæstv. samgrh. sem ég hafði óskað eftir því að yrði einnig viðstaddur. Til að greiða fyrir þingstörfunum kem ég því hér á framfæri.

(Forseti (GÁ): Forseti upplýsir að samkvæmt töflunni er hæstv. samgrh. í húsinu.)

Já, og það eru greiðar samgöngur innan hússins, herra forseti, þannig að það hlýtur þá að takast að koma honum inn í þingsalinn á næstunni.

Fyrst, herra forseti, vík ég að menntamálum og spyr hæstv. menntmrh. út í stöðu framhaldsskóla í frv. Í fyrsta lagi vekur undrun sú ákvörðun að skera verulega niður framlög til stofnkostnaðar í framhaldsskólunum. Einhver hefði haldið að nú væri þörf á hinu gagnstæða, þ.e. reyna að nota góðærið og allt talið um gildi menntunar og þá ekki síst verkmenntunar til að byggja upp í framhaldsskólunum í staðinn fyrir að skera það niður. Mikil þörf er á fjárfestingum í framhaldsskólunum, tækjakaupum, húsbyggingum og öðru slíku og niðurstaðan vekur mikla undrun.

Í öðru lagi, herra forseti, muna menn hvernig farið var með framhaldsskólana á þessu fjárlagaári í frv. hæstv. fjmrh. og þeim hlutanum sem snýr að hæstv. menntmrh. á síðasta ári þegar að framhaldsskólunum kom. Þá var ráðist alveg sérstaklega á nokkra af minnstu framhaldsskólunum í landinu og notað það sem ég kalla þumalskrúfuaðferðina. Mikill og óréttlátur niðurskurður var settur á menn og síðan búinn til einhver dúsupottur sem menn gátu fengið að hluta til úr til baka ef þeir væru þægir og gerðu það sem ráðherrann ætlaðist til. Það var þessi ógeðfellda aðferð að koma fyrst með groddalegan niðurskurð og koma svo með smápeninga til baka ef menn verða góðir og mögla ekki of mikið. Og ég spyr, herra forseti: Hvar standa þessi mál? Hvað á að lesa út úr skrýtna textanum á bls. 329, 330 og 331 um framhaldsskólana sem satt best að segja gerði mér ekki mikið gagn þó að ég færi í gegnum hann. Það er einhver latína eða hebreska um nýjar aðferðir til að finna út fjárveitingar til skólanna og án þess að það sé mjög skýrt hvað kemur í hlut hvers og eins eða hvernig þetta komi út. Í ljósi reynslunnar, herra forseti, óttast ég um hag minni skólanna á landsbyggðinni, framhaldsnámsins á landsbyggðinni og stöðu verkmenntunar. Því miður hefur reynst ástæða til að hafa áhyggjur af þeim þáttum og gaman væri að hæstv. menntmrh. kæmi og gerði aðeins grein fyrir sínum hlut í þessum efnum.

Síðan, herra forseti, langar mig aðeins að víkja að fjmrh. og útkomu hans í fjárlagafrv. því að sjaldan er rætt við hæstv. fjmrh. eins og einn af fagráðherrunum en það er hæstv. fjmrh. auðvitað á vissan hátt því að hann á hér líka ráðuneyti undir í frv. Það er nokkuð sérstakt sem snýr að hæstv. fjmrh. í þessum efnum. Hæstv. fjmrh. verður fyrir miklum hremmingum og áfalli. Í liðnum 995, Skýrsluvélakostnaður, verður hæstv. fjmrh. fyrir stórkostlegu áfalli. Þar rjúka upp hjá honum útgjöldin. En hann hefur haft góð sambönd í fjárlagagerðinni og fengið bætt við fjárveitingum sem þessum aukna kostnaði nemur. Hvað halda menn að komi svona heiftarlega aftan að hæstv. fjmrh. og einkavæðingarmálaráðherra? Jú, það er einkavæðingin. Hún reynist svona dýr að skýrsluvélakostnaður ríkisins rýkur upp úr öllu valdi við það að einkavæða. Af hverju? Jú, af því að menn seldu Skýrsluvélar ríkisins sem þeir áttu á móti borginni, gerðu það að háeffi og hvað gerist? Þeir rjúka til og hækka taxtann. Þannig virðist vera staðið að þessum breytingum af hálfu eigandans sem verður síðan að kaupa þjónustuna af hinu einkavædda barni sínu að þeir eru ofurseldir taxtahækkunum hins einkavædda fyrirtækis og geta ekkert annað en bara hækkað útgjöldin í fjárlögunum eins og hinu nýja apparati þóknast. Það er skýrt á bls. 393 að þarna verði mikill kostnaður, fjárlagaliðurinn hækkar um 60 millj. kr. milli ára m.a. vegna 15--20% hækkunar á töxtum Skýrr. Þetta er stafað S-k-ý-r-r-h-f. Skýrr hf. hækkar taxta sína ganske pent um 15--20% í kjölfar einkavæðingar og fjmrh. borgar. Þetta er svo hagræðingin og einkavæðingin og þessi góði fíni rekstur sem ævinlega tekur við og tekur öllu fram sem áður var í eigu ríkisins.

Þetta er heldur spaugileg ef ekki snautleg niðurstaða, herra forseti, sem hæstv. fjmrh. stendur þarna frammi fyrir og verður gaman að heyra útskýringarnar þegar fyrrum frammámaður í stuttbuxnadeild íhaldsins, hæstv. núv. fjmrh. Friðrik Sophusson útskýrir þessa hagræðingu einkavæðingarinnar fyrir okkur í skýrsluvélahaldinu. (Gripið fram í: Var þetta ekki báknið burt?) Þetta var báknið burt, jú, jú, jú, jú. En ég spyr að lokum í alvöru: Er það virkilega svo að þessar einkavæddu stofnanir hafi bara veiðileyfi á ríkið, þær fái bara í heimanmund veiðileyfi á ríkið og geti hækkað gjaldskrár sínar eins og þeim sýnist eða gengið þannig frá þessu? Það er þá meiri snilldin. Það ætti að ausa meiri peningum í einkavæðingarnefndina og láta hana halda fleiri fínar ráðstefnur, taka Perluna oftar á leigu. Það mundi þá sennilega spara enn þá meira.

Herra forseti. Um heilbrigðismálin væri margt hægt að segja. Ég vil sérstaklega óska eftir því að hæstv. heilbrrh. fari yfir stöðu sjúkrastofnana á landsbyggðinni. Ég óska eftir ítarlegri upplýsingum en fram hafa komið um hvar niðurskurðurinn er á vegi staddur. Hvernig koma þessar stofnanir út sem áttu að taka á sig keðjuniðurskurð ár eftir ár? Ég sé t.d. mér til mikilla vonbrigða að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, sem talið hefur verið til fyrirmyndar um rekstur, fær minni hækkanir en þær stóru sjúkrastofnanir sem á undanförnum árum hafa keyrt langt fram úr. Er verið að refsa Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri sérstaklega fyrir það að það hefur a.m.k. allt fram á þetta ár sýnt sérstaka ráðdeildarsemi í rekstri? Nú hefur að vísu niðurskurðurinn hér og biðlistarnir leitt til þess að álag hefur flust yfir á Fjórðungssjúkrahúsið sem hefur valdið þar meiri útgjöldum og þá vekur náttúrlega enn þá meiri furðu að stofnunin skuli fá meiri hækkanir en aðrir. Það sýnist mér koma út úr töflu á bls. 388. Fleira af þessu tagi mætti taka undir þessum heilbrigðismálalið en í ljósi þess að sá málaflokkur mun koma til ítarlegrar umfjöllunar á næstu dögum í þinginu vegna utandagskrárumræðu sem við þingmenn Alþb. og óháðra höfðum beðið um geymi ég það tímans vegna þangað til að fara ítarlegar yfir það.

Ég lýsi sérstökum vonbrigðum, herra forseti, með fjárlagaliðinn 390, þ.e. Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Auðvitað er ömurlegt að sjá í öllu góðærinu sem menn belgja sig út yfir að tækifærið skuli notað og framlög Íslendinga til þróunaraðstoðar lækkuð hlutfallslega. Það er augljóst mál. Ef lagðir eru saman liðirnir Þróunarsamvinnustofnun, þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi og alþjóðastofnanir og í ljósi vaxandi þjóðartekna á landsframleiðslu erum við hlutfallslega á niðurleið hvað varðar framlög til þróunarsamvinnu og það er snautleg niðurstaða hjá þessari --- hvað sagði forsrh., fjórðu ríkustu eða sjöttu ríkustu þjóð í heimi? Var það ekki? (Gripið fram í.) já, hún var alla vega mjög rík þegar forsrh. var að guma af góðærinu í stefnuumræðu um daginn. En hún er ekki svona rík þegar kemur að því að setja niður framlög okkar til fátækustu þjóða heimsins undir liðnum þróunarsamvinnu. Ég lýsi vonbrigðum og skömm minni á þessum lið, herra forseti. Það hefur lengi verið mér hneykslunarefni og gert það að verkum að maður hefur átt erfitt með sig sem Íslendingur að standa frammi fyrir þessari snautlegu frammistöðu okkur á þessu sviði.

Og þá, herra forseti, að samgöngumálunum úr því að svo vel ber í veiði ef svo má að orði komast að hæstv. samgrh. er kominn í salinn. Það er aldeilis góðærið hjá hæstv. samgrh. Herra forseti. Þeir sem bera samgöngumálin fyrir brjósti voru mjög spennir að sjá hvað kæmi í hlut hæstv. samgrh. af góðærinu og að þessi brýni málaflokkur mundi aldeilis njóta þess að tekjur ríkissjóðs færu vaxandi og ekki síst að tekjur Vegasjóðs, markaðar tekjur Vegagerðarinnar fara mjög vaxandi. En hver er niðurstaðan? Niðurskurður. Niðurskurður og aukinn þjófnaður á tekjum Vegasjóðs í ríkissjóð. Það er niðurstaðan. Hæstv. samgrh. lagði fram hálfa vegáætlun í fyrra, braut blað í sögunni og lagði fram hálfa vegáætlun, tvö ár í staðinn fyrir fjögur. Og hún var niðurskurðarvegáætlun. Árið 1998 var þar niðurskorið. En það var ekki nóg því að nú stendur í greinargerð fjárlagafrv. að enn verði að taka upp vegáætlun. Af hverju? Af því að fjárlagafrv. gerir ráð fyrir minni fjárveitingum í góðærinu en hin niðurskorna vegáætlun gerði síðasta vetur. Þar munar 166 millj. kr. sem er beinn niðurskurður á framkvæmdum frá því sem vegáætlunin hálfa gerði ráð fyrir en það sem verra er, ríkissjóður ætlar að hirða allan tekjuaukann sem hinir mörkuðu tekjustofnar gefa. Þar fara 250 millj. meira í Vegasjóð en gerði á þessu ári eða 1064 millj. í staðinn fyrir 806 og átti þó talan að lækka á næsta ári. (Samgrh.: Það er nú gott að vera aflögufær.) Hún átti að lækka, hæstv. samgrh. --- er hæstv. samgrh. svona ríkur? Er það meinið? Að hann var svona bólginn af peningum að hann kom þeim ekki fyrir í vegunum og labbaði til vinar síns Friðriks Sophussonar og sagði: Hérna, Frikki, þú mátt fá meira. Var það svona sem þetta gerðist, herra forseti? Það eru athyglisverðar upplýsingar. Hæstv. samgrh. hafði ekki áhuga á meiri peningum í vegina, hann taldi sig svo ríkan.

Niðurstaðan er þarna náttúrlega alveg hörmuleg. Í raun og veru vantar 580 millj. upp á að Vegasjóður fái til framkvæmda það sem vegáætlunin í fyrra gerði ráð fyrir og sem tekjuaukinn vegna meiri bensínsölu og aukins þungaskatts hefði átt að gefa honum. Það er niðurstaðan. Hæstv. samgrh. hefur látið skera sig niður um næstum 600 millj. í viðbót í góðærinu. Það er nú meiri frammistaðan. (ÖJ: Það er afgangurinn af ríkissjóði.) Það er rúmlega afgangurinn af ríkissjóði samkvæmt nýju aðferðinni.

Svipaða sögu, herra forseti. mætti segja um flugmálin ef tíminn leyfði en það gerir hann víst ekki þannig að ég verð að láta þetta nægja að sinni.