Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 18:30:26 (118)

1997-10-07 18:30:26# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[18:30]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði spurninga varðandi stofnkostnað til framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að 477 millj. kr. fari til framkvæmda við framhaldsskólana vegna stofnkostnaðar á næsta ári sem er 54 millj. kr. lækkun frá þessu ári sem að mestu má rekja til þess að lokið er við verkefni. Rétt er að geta þess að byggðir hafa verið skólar upp á tæplega 18.000 m2 og teknir í notkun á höfuðborgarsvæðinu á síðustu missirum. Það eru slík verkefni sem menn eru að binda enda á og þess vegna minnkar fjárveitingin í samræmi við það.

Hvað varðar þennan lið á fjárlögunum þá er rétt að geta þess að honum hefur verið skipt í tvennt frá því sem var áður því stofnaður hefur verið nýr liður sem heitir Fasteignir framhaldsskóla þar sem tekið er á viðhaldsmálum framhaldsskólanna. Undir þann lið falla nú 210 millj. kr. sem er 36 millj. kr. hækkun frá því í ár. Samtals er því um að ræða aðeins meiri fjárveitingu til þessara beggja liða þegar upp er staðið, þ.e. viðhaldsliðarins og stofnkostnaðarliðarins, en er í fjárlögum yfirstandandi árs. Ég tel því að hv. þm. hafi yfirsést þessi breyting á færslu í fjárlögum og yfirsést að nýr fjárlagaliður hafi verið stofnaður sem tekur á viðhaldsmálunum. Áður var þetta einn liður þ.e. Stofnkostnaður og viðhald.

Varðandi það sem hv. þm. sagðist ekki skilja og kemur fram á síðum fjárlagafrv. og greinargerð þess að ef hann hefur lesið það með sömu athygli og hann las liðinn um stofnkostnaðinn, þá er ekki furða þó hann átti sig ekki á því hvað hér er um að ræða. Það er unnið að því að semja við framhaldsskólana á þeim forsendum sem þarna er lýst og menn frá menntmrn. eru einmitt núna á ferðalagi um landið til þess að ganga frá slíkum samningum og það mun allt liggja fyrir. Þingmenn munu geta séð hvernig á málum er tekið og á hvaða forsendum það er gert. Þessum forsendum er lýst mjög nákvæmlega í frv. og vænti ég þess, ef menn lesa frv. og greinargerðina, að þeir skynji inn á hvaða braut verið er að fara. Um reiknilíkanið sem notað er hefur náðst gott samkomulag á milli ráðuneytisins, skólamanna og þeirra sem að skólastarfinu koma.