Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 18:33:06 (119)

1997-10-07 18:33:06# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[18:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir að staðfesta það að þarna er um niðurskurð að ræða til framkvæmda og stofnkostnaðar í framhaldsskólunum. Það er auðvitað athyglisverð niðurstaða þó að hægt sé að koma með skýringar af því tagi að lokið hafi verið einhverjum áföngum. Þá spyr maður auðvitað á móti: Eru ekki margir aðrir sem bíða og þarf að ráðast í? Er það verkefnaleysi í framhaldsskólum landsins sem veldur því að hæstv. menntmrh. sættir sig við minni fjárveitingar til síns málaflokks á þessu sviði í miðju góðærinu? Ég vil frekar kalla það metnaðarleysi en að trúa hinu að um verkefnaleysi sé að ræða og skortur sé á brýnum verkefnum í framhaldsskólum landsins. Það vitum við auðvitað öll að svo er ekki.

Ég læt mér hins vegar mjög í léttu rúmi liggja þó hæstv. menntmrh. bregði mér um skilningsleysi. Það má hvaða sæmilega læs og þokkalega gefinn einstaklingur sem er að reyna að lesa þessar síður, 329--331, komast að öllum sannleika um hver hagur hvers einstaks framhaldsskóla verður við þær aðstæður þar sem m.a. er vísað í ógerða samninga, þar sem m.a. er vísað í það að finna eigi út einhverjar form\-úlur sem valda því að fjárveitingar til skóla ráðast ekki af nemendafjölda á kennsluárinu. Nei, þær ráðast af því hve margir þreyta próf. Með öðrum orðum, ef óvenjumargir heltast úr lestinni, þá á væntanlega að refsa þeim skólum í því formi að þeir fái aðeins fjárveitingar sem nemur þeim fjölda sem tekur próf en ekki þeim fjölda sem reynt var að kenna viðkomandi vetur. Það liggur í hlutarins eðli að útkoma skólanna getur orðið mjög mismunandi við þessar aðstæður. Ég tel að hér séu pólitísk grundvallaratriði á ferð sem þörf sé fyrir að ræða og ég mótmæli því að þetta sé útskýrt þannig á síðum greinargerðar fjárlagafrv., jafnvel þó hæstv. menntmrh. kunni að hafa samið það sjálfur, að það sé auðvelt að átta sig á því hvað þarna er að gerast.

Þarna eru t.d. mjög vandasöm mál sem lúta að sérstökum aðstæðum minni skóla, sem lúta að dýrari kennslu í verknámi og öðru slíku. Það er fjarri öllu lagi að frá því sé gengið þannig hér að glöggt sé hvað eigi að gerast. Ég endurtek að þarna er m.a. vísað í ógerða samninga og það hlýtur að vera veruleg óvissa um það hvernig þeir hlutir útleiðast.