Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 18:37:55 (121)

1997-10-07 18:37:55# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[18:37]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú litlu nær varðandi framkvæmdirnar þó að hæstv. ráðherra vísi í töflu þar sem fram kemur hvaða einstaka framkvæmdir eru á dagskrá. Við vorum að ræða um heildarfjárveitingar í þennan málaflokk og það liggur fyrir að um niðurskurð er að ræða. Það var þá helst að rök kæmu fram fyrir þeim niðurskurði í orðum hæstv. menntmrh. að hann hefði verið svo duglegur við að vígja nýja skóla og hefði verið svo víða við það undanfarið ár að hann væri kannski orðinn þreyttur og treysti sér ekki í öll þau ferðalög á næstunni. Þess vegna hafi hann fallist á minni fjárveitingar. Ég veit ekki hvort skilja átti þennan útúrdúr hans um allar vígslurnar þannig.

Hins vegar hvað varðar rekstrarlíkanið þá á að sjálfsögðu eftir að koma betur í ljós hvað hér er eiginlega á ferðinni. Ég veit ekki hvað skólamenn almennt segja um það. Þeir eru sjálfsagt ekki langt komnir í því að skoða þessa nýbreytni. En þetta verkar nokkuð sérkennilega á mig satt best að segja, herra forseti. Þarna á að halda eftir umtalsverðum fjármunum, allt að 4% stendur hér, sem menntmrh. ætlar að halda eftir hjá sér af lögbundnum fjárveitingum samkvæmt fjárlagafrv. til hvers skóla. Síðan á að þrúkka eitthvað um það við skólana í einhvers konar uppgjöri í lokin hvað þeir fá af þessum 4% eða ekki eftir því hvert brottfall nemenda hefur verið o.s.frv. Mér sýnist að hér sé farið út á nokkuð umdeilanlega braut svo að ekki sé meira sagt. Því verður ekki að horfa til þess hvaða kostnað skólarnir leggja í við að kenna þeim nemendafjölda sem er við nám yfir veturinn en ekki bara því hverjir taka próf? Þetta er kannski einhver ný akkorðshugsun sem á að innleiða í skólakerfið, að setja pressu á að reynt verði að drífa alla í próf hvort sem þeir eru undir það búnir eða ekki til að fá út á þá krónur. Væntanlega hefur það áhrif í þá veru í skólunum. Ég lýsi öllum fyrirvara með að ganga inn á þessar formúlur og er litlu nær hvað varðar þá stöðu sem t.d. minni skólar og verknámsskólar hafa búið við og urðu óþægilega fyrir barðinu á niðurskurðarhnífnum á síðasta ári eins og kunnugt er.