Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 18:53:05 (124)

1997-10-07 18:53:05# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[18:53]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Það þurfti sennilega ekki mikla spámenn til að sjá fyrir um efnisinnihald ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að hann mundi leggja til frekari skatta. Vegna þess að komandi kynslóðir eiga að greiða meiri skatta, þá er svarið að láta núverandi kynslóð greiða enn þá meiri skatta. En staðreyndin er hins vegar sú að skattbyrðin er orðin of mikil, hún er orðin það mikil að hún er farin að draga úr verðmætasköpuninni og þess vegna þurfum við frekar en hitt að skapa þannig aðstæður í ríkisfjármálunum að við getum ýtt undir frekari verðmætasköpun með því að lækka skatta í framtíðinni og þannig munum við með auknum hagvexti hjálpa til við að greiða skuldir framtíðarinnar.

Ég er hins vegar sammála honum um að við þurfum að auka sparnað. En ég held að því miður sé það frv., sem fram kom á sl. þingi og hefur verið til umræðu í fjölmiðlum að undanförnu, ekki til þess fallið sérstaklega að auka sparnað því að það frv. er í heljargreipum lífeyrissjóðanna sem verkalýðsfélögin og atvinnurekendur reka og stjórna, hinna svokölluðu þvingunarsjóða þar sem fólk er neytt til þess að greiða fjármuni inn í gjaldþrota sjóði, fjármuni sem það mun aldrei sjá aftur. Því miður er þetta enn þá staðreynd. Leiðin til þess að auka sparnaðinn er að auka frjálsræðið í lífeyrissjóðsmálunum, leyfa fólki að velja um sjóði og velja um sparnaðarform. Önnur leið til þess að auka sparnaðinn er að auka fjölbreytni þeirra verðbréfa sem eru á markaðnum og standa fólki til boða, t.d. með því að halda áfram einkavæðingunni þannig að fólki gefist kostur á því, frekar en að eiga hlut í ríkisbanka í gegnum aðild sína að ríkissjóði, að það geti átt beina eignaraðild að bönkunum með því að eiga hlutabréf í Landsbankanum hf. eða Búnaðarbankanum hf. eða Fjárfestingarbankanum hf.