Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 19:24:15 (130)

1997-10-07 19:24:15# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., GMS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[19:24]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Það er margt jákvætt í þessu frv. til fjárlaga sem hér hefur verið lagt fram og sérstaklega eru ánægjulegar þær breytingar sem eru á framsetningu frv. og þeim gögnum sem frv. fylgja. Það er líka mjög jákvætt að stefnt er að því að reka ríkissjóð með tekjuafgangi þó að enn vanti töluvert á að tekist hafi að vinda ofan af þeirri skefjalausu útþenslu sem átt hefur sér stað hjá ríkissjóði og ríkisstofnunum á undangengnum árum og áratugum.

Ég ætla í máli mínu að fjalla einkum um þrjá þætti í sambandi við fjárlagafrv. það sem hér er til afgreiðslu. Í fyrsta lagi ætla ég að fjalla um það í hve litlum mæli góðærið hefur verið nýtt til þess sem ég kalla að vinda ofan af þessari skefjalausu þenslu sem er á yfirbyggingunni í þjóðfélaginu. Í öðru lagi ætla ég að fara nokkrum orðum um heimildar\-ákvæði í 7. gr. fjárlagafrv. og í þriðja lagi síðan að velta upp hugmyndum um nýskipan á tekjuhlið ríkissjóðs.

Yfirbyggingin, herra forseti, í þessu þjóðfélagi er of mikil og ríkisvaldið virðist gera lítið til þess að draga úr þeirri yfirbyggingu. Nýlega gaf Hagstofan út plagg sem heitir Hagskinna og þar má finna fróðlegar töflur um mannaflanotkun hjá ríki og hjá atvinnulífinu. Ef við kíkjum aðeins á þessar tölur sem þar eru birtar og berum saman árin 1980--1990, þá kemur fram að heildarvinnuaflsnotkunin hefur aukist um 18,2% í heildina en hið opinbera hefur á sama tíma tekið til sín 37% aukningu í vinnuaflsþörf. Ef skoðað er síðan tímabilið frá 1963--1990, kemur enn þá sorglegri mynd fram því að þar kemur í ljós að hlutfallsleg skipting vinnuaflsnotkunar er þannig að fyrirtækin hafa lækkað úr tæpum 90% í 77%, en hjá hinu opinbera hefur vinnuaflsnotkun aukist úr 9,5% í 18,2 og þetta, herra forseti, er of mikil aukning hjá lítilli þjóð sem á fullt í fangi með að standa undir þeirri yfirbyggingu sem nauðsynleg er í þjóðfélaginu. Þetta er einfaldlega of mikið.

Ef við síðan skoðum breytingar á samneyslu og einkaneyslu frá árinu 1980 í þeim gögnum sem lögð hafa verið fram með þessu fjárlagafrv., þá má sjá á fróðlegu línuriti sem fylgir með þessu frv. að frá árinu 1980--1998 hefur samneyslan í þjóðfélaginu aukist um 100% á sama tíma og einkaneyslan hefur aukist um 55% og fjárfestingin í þjóðfélaginu aðeins um 20%.

Ég hef að vísu hlustað, herra forseti, í dag á fjölmarga hv. þm. tala um hvernig vegið sé með þessu frv. að hinum og þessum velferðarmálum. Nú er það ekki svo að þessi eiginlegu velferðarmál séu vandamálið. Vandamálið er sú fita sem alls staðar hvílir utan á þessari yfirbyggingu okkar.

Samneyslan á Íslandi er 21% af landsframleiðslu sem er langt yfir OECD-meðaltalinu þar sem samneyslan er 16% og aukning samneyslunnar eins og henni er spáð núna er langt umfram þá aukningu sem spáð er í helstu viðskiptalöndum okkar. Þjóðhagsforsendur frv. sem við erum að fjalla um gera ráð fyrir því að samneyslan aukist langt umfram einkaneysluna á næsta ári. Magnbreyting samneyslu milli áranna 1997 og 1998 er áætluð 5% en samsvarandi spá fyrir aukningu einkaneyslu er einungis 3%. Og ég furða mig á því hvernig menn ætla að fara að því, ef svo heldur áfram sem horfir, að fjármagna þessa gífurlegu aukningu á mannaflaþörf hjá hinu opinbera og þeirri samneyslu sem hið opinbera er komið út í.

Ef við skoðum þjóðhagsáætlun fyrir næsta ár þá eru þar birtar fróðlegar upplýsingar um verðvísitölu, bæði einkaneyslu, samneyslu og landsframleiðslunnar. Frá árinu 1990 til ársins 1996 jókst verg landsframleiðsla um 22% á sama tíma og samneyslan jókst um 29%. En það versta er kannski að þetta er verðvísitala sem sýnir okkur að hið opinbera hefur verið mjög lítið á varðbergi fyrir því hvað sú þjónusta kostaði sem það var að kaupa fyrir peninga skattgreiðenda. Það er e.t.v. það erfiðasta í þessu ef menn eru sofandi fyrir því að þeir eru að fara með peninga sem aðrir hafa lagt mikið á sig við að afla og skilað til ríkissjóðs.

[19:30]

Spurningin er hvernig eigi að ná þessu niður. Útgöld fjárlagafrv. skiptast í stórum dráttum í fjóra stóra liði, rekstrargjöld eru um 36% af heildargjöldum ríkissjóðs, tilfærslur eru um 40%, vextir um 13% og síðan stofnkostnaður og viðhald um 11%.

Af rekstrargjöldum upp á 36% af heildarniðurstöðu fjárlaga eru laun 80%. Laun hjá hinu opinbera eru þannig 29% af niðurstöðutölu fjárlaga. Einfaldasta leiðin að mínu mati til þess að ná sparnaði hjá ríkissjóði og auka framleiðni hjá hinu opinbera er sú að flytja störf frá ríkisstofnunum til atvinnulífsins.

Fyrir tveimur árum áttu þingmenn úr öllum flokkum þess kost að fara til Noregs og Danmerkur og kynna sér þá breytingu sem þar hafði orðið á póst- og símafyrirtækjum í báðum þessum löndum. Í Noregi var okkur sagt að eftir að símafyrirtækinu þar var breytt í hlutafélag var hægt samfara því að auka þjónustuna að fækka störfum um 33%. Í Danmörku var hægt samfara aukinni þjónustu að fækka störfum um 35%. Þetta er harður dómur yfir norskum og dönskum opinberum starfsmönnum og ég vona að þetta eigi ekki við á Íslandi. En ég efa ekki að í heildina mætti án þess að þjónustustigið minnkaði færa um 15% af störfum úr opinbera geiranum yfir í einkareksturinn.

Við vitum öll að við komumst ekki hjá því að taka á og laga launakerfi ýmissa opinberra hópa. Við vitum að læknar, sérstaklega ungir læknar, eru ekki of sælir af sínum launum og heilsugæslan í heild er ekki hátt launuð. Það kann vel að vera að til þess að hægt sé að gera það sem nauðsynlegt er til þess að halda fólki með alþjóðlega menntun sem getur raunar farið hvert sem er til vinnu, þurfi að ná enn þá meiri samdrætti í opinberum störfum svo að hægt sé að ná fram þeim sparnaði sem megi nota til þess að lyfta þeim hópum í launum sem eru verst settir hjá hinu opinbera.

Í fjárlagafrv. er að finna töflur um fjölda ársverka hjá hinu opinbera. Árið 1996 er sagt að ársverkin hafi verið 16.106 störf samkvæmt samræmdum reiknistuðli sem fjmrn., ríkisbókhald og Ríkisendurskoðun hafi komið sér saman um. Fróðlegt væri að fá að vita hve mörg nöfn eru á launaskrá en ekki bara sem samræmdur staðall ríkisbókhalds, fjmrn. og Ríkisendurskoðunar. Í frv. kemur einnig fram stöðug aukning á starfsmannafjölda hjá hinu opinbera. Breytingin milli 1995 og 1996 var 2,6% og fá ráðuneyti, fáir hæstv. ráðherrar hafa nýtt sér þá tækni sem fylgir tölvuvinnslu til þess að fækka í ráðuneytum sínum. Ég held að ég muni það rétt að einungis í sjútvrn. hafi orðið fækkun. Það er ekki nógu gott ef ekki er hægt að nýta þá tækni sem þjóðfélagið býr yfir til þess að færa störf frá hinu opinbera yfir í framleiðslugeira þjóðfélagsins.

Ég minnist fyrir um tveimur árum úrskurðar Kjaradóms um laun nokkurra ríkisforstjóra þar sem talin var ástæða til þess að hækka launin vegna þess að þeir nytu einungis fjögurra ára starfsöryggis. Ég þekkti einn þeirra ágætu manna sem þar voru tilnefndir og vissi hvaðan hann kom áður því að ég hafði haft með starf hans þar að gera. Í fyrra starfinu sem hann kom úr áður en hann fór til ríkisins hafði maðurinn ekki meira starfsöryggi en svo að það hefði verið hægt að segja honum upp með klukkutíma fyrirvara og biðja hann að taka pokann sinn. En af því að hann var kominn til þess opinbera og aðeins með fjögurra ára starfsöryggi þurfti að hækka launin hans umfram það sem hinn almenni vinnumarkaður var að greiða. Þetta er ekki nógu gott.

Alþjóðabankinn í Washington, sem hefur verið nefndur í umræðunum áður, er með það vandamál að hlaðist hefur utan á hann starfsfólk eins og víða hjá hinu opinbera. Þeir tóku sig til nýverið og gerðu samninga við sérfræðinga sína og réðu þá sem verktaka. Þeir fá fjögurra ára rammasamning en mál þeirra eru skoðuð á þriggja mánaða fresti eftir frammistöðu og ég er sannfærður um það að framleiðni í ráðuneytunum mundi aukast með þessu kerfi.

Herra forseti. Yfir í heimildagreinar í frv. til fjárlaga. Í 7. gr. kemur margt fram í heimildum sem fróðlegt væri að fá nánari skýringu á. Í 1.3 er m.a. heimilað að fella niður eða endurgreiða toll og virðisaukaskatt af vinnuvélum sem notaðar eru við framkvæmdir við stækkun á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ég sé ekki hvernig á að vera hægt að vera með tvö kerfi í gangi í landinu, annars vegar vinnuvélar sem vinna við flugstöðina og hins vegar vinnuvélar sem byggja hús eða grafa skurði fyrir almenning í landinu, þ.e. að það þurfi að greiða gjöld af þeim vélum en ekki þeim sem byggja flugstöðina.

Í 1.4 er beðið um heimild til þess að endurgreiða Listahátíð í Reykjavík skatta og önnur opinber gjöld sem lögð eru á Listahátíð. Hver telur sig þess umkominn að meta að sú list sem fram fer á vegum Listahátíðar í Reykjavík sé meiri list eða betri list sem kalli á minni skattgreiðslu en önnur sú liststarfsemi sem fram fer í landinu?

Í 1.6 er beðið um heimild til að fella niður stimpilgjöld af skuldaskjölum Spalar vegna fjármögnunar jarðganga. Þetta er hrein mismunun miðað við aðra sem þurfa að taka lán til þess að fjármagna framkvæmdir.

Í 7.4, sem er liður undir fyrirsögninni kaup og leiga fasteigna --- og ég lýsi ánægju minni með þetta atriði --- er heimild til þess að kaupa fasteignir í nágrenni Menntaskólans í Reykjavík og taka til þess nauðsynleg lán. Í máli menntmrh. áðan kom fram að á yfirstandandi ári er varið um 60 millj. kr. til þess að endurbæta húsnæði í eigu þessa merka skóla og þá er væntanlega horft til þess húsnæðis sem ágætur einstaklingur í Reykjavík, Davíð S. Jónsson, gaf skólanum í tilefni af 150 ára afmæli skólans. Ég held að ríkisvaldið hafi ekki séð sér fært að láta neitt af mörkum renna þá í tilefni af afmælinu en þessi einstaklingur gaf hins vegar stóra húseign sem þarf að koma í notkun.

Í 8.11 er beðið um heimild til þess að ríkið geti tekið þátt í að stofna hlutafélag um rekstur verðbréfamiðstöðvar á Íslandi. Ég hélt að við værum á leið út úr því að ríkið sé að fara í nýjan atvinnurekstur en eitthvað hefur skolast til hér.

Í 8.14 er heimild um að ráðstafa aukinni sektarinnheimtu lögreglustjórans í Reykjavík til rekstrar embættisins og ég sé fyrir mér að með þessum hætti er lögreglumönnum sigað á almenning. Fyrir minnstu yfirsjónir verður sektað svo að hægt verði að greiða kostnaðinn við að reka embættið. Þetta er ekki til eftirbreytni.

Herra forseti. Tíminn líður og enn á eftir að fjalla um tekjuhlið fjárlaganna. Íslenska tekjuskattskerfið er þannig úr garði gert að það er það kerfi í heiminum þar sem langmest er um endurgreiðslur út úr kerfinu aftur. Mér er sagt í fjmrn. að það sé ekkert annað kerfi í heiminum þar sem eins mikið rennur út úr álagningunni aftur eins og í því íslenska.

Fjöldi framteljenda á árinu 1995 var um 200 þúsund. Af þeim fengu 40 þúsund endurgreitt út úr skattkerfinu. 90 þúsund af þessum 200 þúsundum voru skattlausir en fjöldi þeirra sem greiddu skatt var 70 þúsund. Í skýrslu fjmrh. um skilabréf jaðarskattanefndar er að finna fróðlegar upplýsingar um hvernig þetta skiptist hjá framteljendum og þar má sjá að rúmlega fjórðungur hjóna á aldrinum 31--40 ára, eða 26,6%, greiðir hvorki tekjuskatt né útsvar og 23% hjóna á aldrinum 41--50 ára greiða heldur ekki tekjuskatt eða útsvar, þetta er sá hópur í þjóðfélaginu sem ætti að halda uppi samneyslunni, en greiðir ekki neinn tekjuskatt eða eignarskatt. Það kerfi sem er þannig að fjórðungur þeirra sem eru á besta aldri og með mesta starfsorkuna kemst hjá því að greiða nokkuð eða taka þátt í samneyslunni er algalið.

Á yfirstandandi ári er það svo að af brúttóálagningu upp á 118 milljarða þegar búið er að draga frá allan frádrátt, þar með talið persónuafslátt, standa aðeins eftir 16,3 milljarðar sem ganga til ríkissjóðs eða 5,8% af þeim tæplega 42% sem við lögðum upp með. Því er það sem ég tel að mun vitlegra væri að við endurskoðuðum skattkerfið með það í huga að fleiri taki þátt í að greiða til samfélagsins. Við lækkum prósentuna niður í 5,8% eins og er nettóniðurstaðan fyrir yfirstandandi ár, höfum einn flatan tekjuskatt. Ef mönnum líður betur með það má þess vegna hafa 100% hærri skatta á hátekjufólk og fara með skattinn í 12%. Ég held að með slíku kerfi mundum við hætta að greiða niður laun eins og nú er. Við greiðum niður laun fyrir útgerðina í landinu, við greiðum niður laun hjá barnafólki, húsbyggjendum og sennilega á skattkerfi okkar drjúgan þátt í því hvað krónutala launa er oft sorglega lág hjá mörgum stéttum. Ég held að skattkerfið eigi kannski stærstan þátt í því.

Við stöndum frammi fyrir breytingu á aldursskiptingu þjóðarinnar á komandi áratugum. Ef við ætlum að viðhalda góðu heilbrigðiskerfi, sem ég veit að við viljum öll, þá er spurningin hvort við þurfum ekki að huga að því hvernig við ætlum að fjármagna það. Ég held að við ættum að skoða það að fara í einhvers konar uppsöfnunarkerfi í heilbrigðiskerfinu þannig að þeir sem eru á besta aldri í dag en verða notendur eftir 30 ár séu að einhverju leyti að leggja fyrir til þess tíma þegar kemur að því að þeir sem stórir hópar ellilífeyrisþega þurfa að nota heilbrigðiskerfið. Ég held að við getum ekki endalaust ætlast til þess að sá kynslóðasáttmáli gildi, sem verið hefur reyndar í gildi um árhundruð, að þeir yngri sjái fyrir þeim eldri. Þegar við sem erum nú á besta aldri verðum komin á eftirlaunaaldurinn verða færri og færri sem vinna fyrir samfélaginu eins og þetta lítur út hjá okkur í dag. Við sjáum það fyrir. Ég held að það væri til bóta ef við hefðum borið auðnu til þess í dag að þeir sem eru á besta aldri leggi fyrir hjá samfélaginu til þess að mæta þeim kostnaði sem verður samfara því að annast um okkur þegar að því kemur að við getum ekki sjálf unnið fyrir okkur eða séð okkur farborða.