Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 19:47:18 (132)

1997-10-07 19:47:18# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[19:47]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þm. Ögmundur Jónasson hefði verið í salnum í upphafi máls míns þá hefði hann tekið eftir að ég tók sérstaklega fram að það væri yfirbyggingin í þjóðfélaginu sem væri að sliga það, ekki það sem varið væri til velferðarmála í þjóðfélaginu. Ég tók einnig sérstaklega fram að laga þyrfti kjör heilbrigðisstétta. En ég veit, herra forseti, að þingmaðurinn var ekki í salnum í upphafi máls míns þannig að ég vildi koma þessu að.

Um að hlutur samneyslunnar sé meiri í nágrannaríkjunum, þá er það rétt. Hún er meiri á Norðurlöndunum en hins vegar er hún í OECD-ríkjunum í heild um 16% en 21% á Íslandi og þó hægt sé að segja að hún sé hærri í Danmörku og Svíþjóð þá tel ég að það eigi ekki að vera þau lönd sem við eigum helst að sækja til til að meta hvort við erum á réttri leið eða ekki.