Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 13:59:15 (144)

1997-10-08 13:59:15# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[13:59]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi fæðingarorlofið. Það er náttúrlega mjög billegt að setja fram að það eigi að opna hér fyrir fæðingarorlof feðra, að þeir fái tveggja vikna fæðingarorlof og síðan er ekki gert ráð fyrir því hjá stofnununum. Stofnanirnar eiga að taka þetta af þeim fjármunum sem þær hafa. En ef stofnanirnar standa nú frammi fyrir því að eiga ekki fyrir þessu, hvernig verður því þá mætt? Það er alveg ljóst að þetta kostar töluverða fjármuni. Mér kæmi ekki á óvart þó að þetta kostaði einhverja tugi milljóna króna á ári ef, sem ég er sannfærð um, að feður hjá hinu opinbera munu nýta sér þetta. Ég er alveg sannfærð um það. Og það er mjög billegt að sleppa frá því með því að segja bara: ,,Stofnanirnar eiga að sjá um það``, án þess að gert sé ráð fyrir þessu á fjárlögum. Það er ekki einu sinni gert ráð fyrir einhverjum pósti hjá fjmrn. sem hægt væri að sækja í af opinberum stofnunum ef þær þyrftu á fjármagni að halda til þess að feður gætu farið í fæðingarorlof. Mér finnst því ráðherrann reyna að sleppa mjög billega frá þessu vegna þess að það er ljóst að þetta kostar fé og það er greinilega ástæðan fyrir því að ekki hefur verið farið út í þetta fyrr. Ef þetta kostar ekki neitt og stofnanirnar hefðu bara getað tekið þetta á sig án þess að það íþyngi neitt verulega rekstrinum, þá hljótum við að hafa farið miklu fyrr út í það að tryggja fæðingarorlof feðra.

Varðandi 7 milljarða gatið þá hef ég tilhneigingu til þess að trúa miklu betur því sem stjórnarandstaðan hefur sett fram í því efni, sérstaklega þegar ég skoða fjárlögin hjá hæstv. ráðherra sem mér sýnist vera ýmis talnaleikur með, m.a. í sambandi við þessar lífeyrisskuldbindingar. Mér fannst stjórnarandstæðingar í fjárln. setja fram sitt mál mjög skýrt og greinilega og ég er alveg sannfærð um það að hér á þessum degi munu þeir gera það áfram. Ég hef enga ástæðu til þess að ætla að stjórnarandstaðan fari með rangt mál í því efni. Mér finnst koma mjög skýrt fram í þessu frv. til fjáraukalaga að ef skoðuð er innlausn á þessum vöxtum, þá erum við að tala um halla á fjárlögum og það er ekki hægt að setja þetta út fyrir einhvern sviga eins og ráðherrann vill gera.