Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 14:01:57 (145)

1997-10-08 14:01:57# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:01]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað ekki verið að taka neitt út fyrir sviga. Það er verið að benda á að verið er að greiða umtalsverða fjárhæð sem sparar ríkinu heilmikið þegar fram í sækir og það er gert á yfirstandandi ári án þess að tekið hafi verið tillit til þess að fjárlög voru samþykkt og þá á auðvitað að skýra það að fullu út en ekki slá fram staðhæfingum eins og hv. þm. gerði og ég þakka henni fyrir að viðurkenna það núna og draga þannig í land.

Í öðru lagi vil ég koma að feðraorlofinu. Það er auðvitað gert ráð fyrir því í fjárhag stofnananna að það geti komið til ýmissa hluta sem kosta peninga. Veikindi geta komið upp og alls kyns atvik sem eru óvænt útgjöld og stofnanir geta yfirleitt snúið sér þannig í þeim málum að þær undirbúa það og skipuleggja sína vinnu. Við höfum farið mjög vandlega í gegnum þetta, þ.e. hvaða stofnanir þetta geta helst verið, vegna þess að í sumum stofnunum eru fleiri karlmenn en kvenmenn og öfugt í öðrum stofnunum þannig að þetta hefur verið reiknað út og við þekkjum þetta vegna þess að við borgum í dag fæðingarorlof fyrir konur hjá ríkinu og það meira en gerist á almenna vinnumarkaðnum þannig að í gegnum þetta hefur verið farið og það er talið viðráðanlegt fyrir stofnanirnar. En ég skal fallast á það að ef verði einhver smitandi faraldur hjá einni stofnun þannig að stór hópur karla þurfi að taka frí í einu, þá verði að taka á því sérstaka máli, en það sjáum við ekki fyrr en við höfum einhverja reynslu af þessu.

Loksins vil ég segja að það er náttúrlega ófært að koma hingað upp og segjast hafa trú á því að einhver hafi rétt fyrir sér frekar en fjmrh. Staðreyndin er sú, virðulegi forseti, að í gær var málefnalega farið í gegnum þetta mál, lesið upp úr samþykktum Alþingis, lesið upp úr lögum um það hvernig bókfærslan á að vera og sýnt fram á að það er farið með bókfærsluna á nýja grunninum nákvæmlega eins og lög gera ráð fyrir til þess að sýna hann eins nálægt því og gert er hjá fyrirtækjunum. Þá kemur einn hv. þm. upp og segir: ,,Ég trúi þessu bara ekki. Ég trúi miklu frekar minni hlutanum.`` Ja, mikil er trú hv. þm.