Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 14:05:25 (147)

1997-10-08 14:05:25# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:05]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það hefur komið fram hérna að hæstv. fjmrh. er býsna kokhraustur og hann telur að ríkisstjórnin hafi unnið afskaplega gott verk. Hún er býsna stolt af þessu frv. sem hér liggur fyrir til fjárlaga og ég segi, herra forseti: Það er við því að búast. Annaðhvort væri nú að ríkisstjórn tækist að notfæra sér það mikla góðæri sem ríkir núna bæði innan lands og eins erlendis. Við hljótum að sjá að hvert sem litið er, í viðskiptalöndum okkar og eins hérna heima, eru að skapast aðstæður fyrir góðæri sem er líklega meira en það sem við höfum séð á undanförnum árum.

Ég verð að segja það, herra forseti, að það er allt í lagi fyrir hæstv. fjmrh. að koma hingað og berja sér á brjóst. En það er helst til mikið sagt þegar hann nánast talar þannig að það sé eins og þær náttúrulegu sveiflur séu honum sjálfum að þakka sem til að mynda hafa valdið því að það er uppsveifla núna í nánast öllum nytjategundum Íslendinga hvort heldur litið er til þorsks, loðnu, rækju, eða síldar. Og það er meira að segja svo, herra forseti, að náttúran sjálf hefur verið svo góð við þessa ríkisstjórn að hún hefur hjálpað upp á sakirnar þegar kemur að slökum árangri hæstv. ríkisstjórnar og einkum og sér í lagi hæstv. utanrrh. í málum eins og t.d. því að skipta hinum vaxandi norsk-íslenska síldarstofni. Þar tókst ríkisstjórninni illa upp en sem betur fer sá náttúran til þess að það reyndist vera miklu meira af þessum stofni í sjónum heldur en menn áttu von á. Og það eru meira að segja sveiflur í náttúrunni í fjarlægum löndum sem hjálpa Íslendingum og þar með ríkisstjórn og auðvitað þjóðinni allri vegna þess að þessar náttúrusveiflur hafa kollvarpað veiðum á tegundum sem eru í beinni samkeppni við íslenska uppsjávarfiska og þar af leiðandi leitt til verðhækkana á þeim afurðum sem koma héðan frá Íslandi. Ég segi nú bara, herra forseti: Það væri slök ríkisstjórn sem ekki næði árangri við þessar aðstæður.

Mér kemur ekki til hugar að halda því fram að núverandi ríkisstjórn búi eingöngu að illa vinnandi ráðherrum þó auðvitað sé misjafn sauður í því fé eins og við er að búast. Ég tel, herra forseti, að ríkisstjórnin hafi gert margt gott, hún sé á ágætri leið í ríkisfjármálunum og þó að ég geti fundið að ýmsu því sem er að finna í þessu frv., eins og ég mun koma að hér á eftir, þá get ég alveg sagt að ég tel að hæstv. fjmrh. hafi staðið sig nokkuð vel í mörgum málum.

Ég held að vegna þessa góðæris sé alveg ljóst að á næstu árum mun skapast meiri auður en dæmi eru til um frá lýðveldisstofnun og það sem mun verða tekist á um á næstu árum milli andstæðra stjórnmálafylkinga er einmitt hvernig á að skipta þessum auð. Auðvitað verð ég að segja það sem jafnaðarmaður sem hefur gamlar taugar til Framsfl. að mér þykir dapurlegt að svo virðist sem Sjálfstfl. ráði algjörlega ferðinni. Í þeim málaflokki sem að mér snýr, heilbrigðismálunum, þykist ég sjá stefnuvísi inn í framtíðina sem mér líkar ekki. Það er einfaldlega þannig að þó að Framsfl. eigi að nafninu til að ráða ferðinni í heilbrigðismálunum þá er það þannig að flokkurinn nánast sem heild hefur gefist upp fyrir Sjálfstfl. Hann hefur ekki lengur tök á málaflokknum sem rekur á reiðanum að mínu viti og hann bregst ekki við þegar mér finnst Sjálfstfl. á meðvitaðan hátt hafa uppi skemmdarverk á ýmsum grunnþáttum heilbrigðiskerfisins og þá á ég fyrst og fremst við þá samhjálp sem hefur verið nánast þjóðarsátt um áratugum saman. Og hvað þýðir það, herra forseti? Það þýðir að í heilbrigðismálunum er sú stefna að koma fram sem við sjáum í fjölmiðlum þessa dagana að þeir eiga að fá bestu þjónustuna sem geta borgað fyrir hana. Þar er með öðrum orðum einkavæðing í heilbrigðismálunum. Ég held að sú stefnubreyting sem við sjáum í fjárlagafrv. þýði að Sjálfstfl., sem er búinn að ná fram sinni einkavæðingarstefnu varðandi ríkisfyrirtæki og ýmsu öðru, ætlar sér núna að reyna að takast á við heilbrigðismálin. Og því miður verð ég að segja að ég óttast það að Framsfl. muni líka láta undan síga þar eins og svo víða annars staðar.

Ég og minn flokkur og mín skoðanasystkini erum þeirrar skoðunar flestöll að einkavæðing sé ágæt. Ég er þeirrar skoðunar, og það hefur komið fram ítrekað í þessum ræðustól, að það sé í lagi að einkavæða ríkisfyrirtæki eins og banka og ýmislegt annað. En ég dreg línuna við heilbrigðiskerfið og jafnaðarmenn munu aldrei fallast á einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Það vita hins vegar allir að stór hluti Sjálfstfl. a.m.k. hefur það að leiðarljósi að reyna að knýja fram einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni. Það er mín skoðun að Sjálfstfl. sé meðvitað að nota fjmrn. til þess að grafa undan opinberum rekstri í heilbrigðiskerfinu til þess að ryðja brautina fyrir einkavæðingu. Það birtist t.d. í því að stóru sjúkrahúsin eru svo hart keyrð að þau geta ekki greitt starfsfólki sínu þau laun sem þarf til þess að halda þeim í starfi. Eina leiðin er að leyfa þeim að starfa samhliða á einkastofum úti í bæ og þar er auðvitað fyrsti vísirinn að einkavæðingu heilbrigðiskerfisins kominn fram. Ég held að ef menn mundu líta yfir sviðið og skoða þetta þá kæmi fram að enginn geiri heilbrigðiskerfisins hefur þanist jafnhratt út hlutfallslega á undanförnum árum og einmitt einkastofur af þessu tagi. Þarna er sem sagt kominn vísir að einkavæðingu þar sem þeir fá bestu þjónustuna og fljótustu sem geta veifað buddunni. Þetta er því miður það framtíðarland sem ég óttast að Sjálfstfl. eða hluti hans sé að reyna að stefna að. Framsfl. horfir ráðþrota á þetta gerast og hann verður að sæta þeirri dapurlegu niðurlægingu að vera notaður sem múrbrjótur til þess að brjóta fyrstu skörðin í það félagslega heilbrigðiskerfi sem við höfum öll verið tiltölulega sátt við.

Deilan við sérfræðingana er enn eitt skarðið í þennan múr. Því lengur sem ríkisstjórnin lætur það mál dankast, því lengra feta menn sig að einkavæðingunni þar sem fjármagnið ræður för. Við sjáum í blöðunum í dag að verið er að reifa hugmyndir um einkaspíala, hugmyndir sem spretta beinlínis upp úr þessari þróun. Ég tel, herra forseti, að þessi þróun sé að birtast núna í fyrsta skipti á tiltölulega nakinn hátt í fjárlagafrv. Ég minnist þess ekki að það hafi komið fram í svipuðum dúr áður. Það sem mér finnst nefnilega vera sögulegast við þetta fjárlagafrv. er að þar er í fyrsta skipti ýjað að því að einkavæðingin bíði handan við hornið og þetta kemur fram bæði í kaflanum um Ríkisspítalana og eins Sjúkrahús Reykjavíkur. Í kaflanum um Ríkisspítalana er til að mynda fjallað um enn frekari sparnaðaráform og þar er einfaldlega sagt berum orðum að þeim eigi að ná fram m.a. með útboðum á rekstrarvörum sem í sjálfu sér er ekkert hægt að kvarta undan. En það er jafnframt talað um að það eigi að bjóða út aðra rekstrarþætti. Og ég spyr: Hvaða aðrir rekstrarþættir eru þetta? Það er eðlilegt að ég spyrji vegna þess að það kemur ekki fram í frv. Á kannski að fara að bjóða út aðgerðir á sjúklingum til einkastofa, til einkalækna og hvað þýðir þetta? Þýðir þetta kannski að þeir séu að ná sínu fram, þingmenn Sjálfstfl. sem lýstu því yfir í fyrra í þinginu og í fjölmiðlum líka að besta ráðið til þess að eyða biðlistunum væri að leyfa mönnum að kaupa sér forgang, væri að leyfa þeim sem væru ríkir að kaupa sér aðgerðir á undan hinum. Á kannski að fara að bjóða út biðlistana?

Þessi einkavæðingarstefna kemur fram enn naktari þegar komið er að kaflanum um Sjúkrahús Reykjavíkur. Þar segir fjmrh. einfaldlega og væntanlega með góðu samþykki hæstv. heilbrrh. að það eigi ekki aðeins að bjóða út rekstrarvörur heldur líka þjónustu. Hvað þýðir þetta, herra forseti? Þarna stendur, með leyfi herra forseta:

,,Til að ná áformum um rekstrarsparnað er gert ráð fyrir auknum útboðum á rekstrarvörum og þjónustu ...``

Ég hef aldrei séð þetta fyrr í fjárlagafrv. og ástæðan er einföld. Þetta er í fyrsta skipti sem ríkisstjórn á Íslandi boðar upphaf einkavæðingar á þennan hátt. Og hvernig stendur á því að Sjálfstfl. leyfir sér þetta? Vegna þess auðvitað að hann er búinn að þjarma að garminum honum Katli. Hann er búinn að hafa Framsfl. undir í þessu máli.

Maður spyr auðvitað, herra forseti: Er þetta hlutdeildin sem gamla fólkið á að fá í góðærinu? Á maður að óska þjóðinni til hamingju með þessa ríkisstjórn? Á maður að óska henni til hamingju með að nú glittir í fyrsta vísinn að einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu? Það er kannski einn flokkur manna eða hópur sem er eðlilegt að óska til hamingju og það er Hannes Hólmsteinn og þeir frjálshyggjupostular sem að sjálfsögðu hafa boðað óhefta einkavæðingu og markaðsvæðingu hvar sem er. En ég segi það, herra forseti: Við heilbrigðiskerfið drögum við jafnaðarmenn línuna.

[14:15]

Glansmyndin sem er dregin upp í þessu plaggi á víða við rök að styðjast. Ástandið er gott. Á mörgum sviðum er það mjög gott. Ég verð hins vegar að segja, herra forseti, að þegar kemur að kaflanum um heilbrigðismálin þá breytist glansmyndin í pótemkintjöld. Ef maður skoðar grannt heilbrigðiskaflann kemur fram að fyrst koma brestir í glansmyndina og að lokum hrynur hún öll. Ég fullyrði, herra forseti, að myndin sem er dregin upp til að mynda af stóru spítölunum er röng, hún er úr öllum takti við raunveruleikann og ég fullyrði, herra forseti, að fjárlagafrv. er hrein fölsun þegar kemur að stöðu stóru sjúkrahúsanna. Og ég ætla að leyfa mér herra forseti, að nota þennan tíma sem ég á eftir til þess að taka dæmi af þeim spítala sem mér stendur næst, sem er nátengdastur því kjördæmi sem ég er fyrir, þ.e. Sjúkrahúsi Reykjavíkur.

Þegar maður les þann kafla, finnst manni ástandið vera harla gott og að búið sé að ná góðum árangri vegna þess að það er ekki hægt að sjá þegar maður les kaflann að nokkur vandamál séu uppi þegar kemur t.d. að því ágæta sjúkrahúsi. Þar er dregin upp glansmynd sem á við engin rök að styðjast. Þar kemur hvergi fram að fjármagnið sem spítalinn fær dugar hvergi nærri til að halda úti rekstrinum og ekki er minnst einu orði á þá staðreynd að spítalinn er í bókstaflegum skilningi að grotna niður og það er ekkert gert til þess að hægt sé að standa undir eðlilegu og nauðsynlegu viðhaldi.

Við skulum aðeins líta á þær tölur sem mér hefur með ærnu erfiði tekist að brjóta fram úr þessu flókna fjárlagafrv. Það kemur t.d. fram um þennan spítala að frv. gerir ráð fyrir 5.168 millj. til rekstrar. Ef tillögur spítalans sjálfs vegna ársins 1998, sem eru byggðar á grundvelli allra þeirra þjösnalegu sparnaðarákvarðana sem hæstv. heilbrrh. er búinn að taka, eru framreiknaðar á verðlag frv. kemur í ljós að rekstrarkostnaður samkvæmt þeim er 5.537 millj. kr. Þarna er með öðrum orðum strax komin fjárvöntun upp á 400 millj. kr. Við skulum ekki heldur gleyma því að á þessu ári þurfti 203 millj. í viðbótarfjárveitingu og dugði þó hvergi nærri, bara til þess að spítalinn gæti haldið áfram að starfa. Ef þessa upphæð þurfti á síðasta ári, hverjum dettur í hug að hana þurfi ekki líka á næsta ári miðað við hvernig þegar er búið að naga spítalann inn að beini? Það er ekki gert neitt ráð fyrir þessari upphæð í frv. og þar með er þegar orðið ljóst bara út af þessu sem er óskylt fyrra atriðinu að endarnir ná ekki saman. Það má líka geta þess, herra forseti, að samkvæmt mati endurskoðanda sjúkrahússins fyrr á þessu ári er líka ljóst að óbætt fjárvöntun vegna ársins 1996 og fyrri ára er liðlega 180 millj. kr. Nú veit ég það að hæstv. ráðherrar munu kannski koma á eftir og vísa til enn frekari aðhaldsaðgerða sem hafa verið staðfestar í samkomulagi ráðuneytanna tveggja og Reykjavíkurborgar. Það er að sjálfsögðu fráleitt. Í fyrsta lagi liggur ekkert fyrir um það hvernig þeim sparnaði á að ná fram og það er alveg ljóst að hlutur Sjúkrahúss Reykjavíkur mun hvergi nærri duga upp í þetta gat. En þar fyrir utan hefur stjórn Sjúkrahúss Reykjavíkur gert sterka fyrirvara um að það sé ekki hægt að ná frekari sparnaði án þess að skerða lífsnauðsynlega þjónustu. Og hver er það svo, herra forseti, sem á að borga þennan mismun?

Ég staldra við eina setningu í fjárlagafrv. Í kaflanum á bls. 379 þar sem verið er að vísa til samkomulagsins við Reykjavíkurborg segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Með umræddu samkomulagi er litið svo á að það sé alfarið á ábyrgð eigenda og stjórnenda sjúkrahúsanna að tryggja að þau verði rekin innan marka áætlana.``

Ég ætla ekki að spyrja hæstv. fjmrh., ég ætla að spyrja hæstv. heilbrrh.: Hvað þýðir þessi setning? Þessi setning sem forsvarsmenn Reykjavíkurborgar börðust við að koma út úr samkomulaginu og tókst það, m.a. fyrir atbeina hæstv. heilbrrh.? Hvers vegna er þessi setning komin inn í fjárlagafrv., væntanlega þá með samþykki hæstv. heilbrrh.? Þýðir þetta að spítalinn verður settur yfir á ábyrgð Reykjavíkurborgar? Ég spyr fyrir hönd minna kjósenda.

Það er líka nauðsynlegt þegar við dveljum við þennan spítala að geta þess að hæstv. heilbrrh. hefur sjálf fengið menn til þess að leggja mat á það hvernig hann stendur sig. Hún lét gera skýrslu á vegum verkfræðistofunnar VSÓ, fína skýrslu með fullt af hugmyndum sem er sjálfsagt að taka til mjög jákvæðrar umfjöllunar. Þar er gerður samanburður á sex erlendum sjúkrahúsum og tveimur innlendum, annað er Sjúkrahús Reykjavíkur. Og hvað kemur í ljós? Þegar langlegudeildirnar eru teknar frá, er ekkert sjúkrahúsanna með jafnfáa legudaga á hvern sjúkling. Með öðrum orðum: Sjúkrahús Reykjavíkur er með mesta framleiðni af innlendu sjúkrahúsunum og þeim sex viðmiðunarspítölum sem eru teknir. Hérna er spítali sem hefur staðið sig vel, sem er búinn að hagræða, sem er búinn að sýna aðhald, með starfsfólk sem er undir óbærilegu álagi og það er enn komið og sagt: ,,Það á að spara meira.`` Ég spyr, herra forseti: Er þetta glansmyndin? Þetta er nefnilega glansmyndin. Þegar kemur að heilbrigðiskaflanum, þá er þetta glansmyndin. Hún er pótemkintjöld. Hún hefur enga innstæðu. Það er auðvitað hægt að standa hér og hrósa sér og segja: ,,Staðan er góð.`` En vandanum er öllum sópað undir teppið, herra forseti.

Á þeim árum þegar staðan var verulega slæm, þegar þorskstofninn hrundi, þegar árferðið var slæmt, var eðlilegt að menn reyndu að spara t.d. á hlutum eins og viðhaldi. En núna ríkir góðæri. Nú berja menn sér á brjóst og segja: ,,Það ríkir góðæri.`` Er þá ekki kominn tími til þess að gera við sjúkrahús sem í bókstaflegum skilningi er að molna.

Herra forseti. Samkvæmt úttektum sem hafa verið gerðar á viðhaldsþörfum Sjúkrahúss Reykjavíkur vantar ekki 200 millj. og ekki 400 og ekki 800 heldur vantar einn milljarð kr. til þess að standa undir eðlilegu meiri háttar viðhaldi. Nú vill svo til, herra forseti, að það eru farin að hrynja múrbrot úr spítalanum í Fossvogi. Gjörgæsludeildin sem er þegar allt of lítil heldur ekki vatni og vindum. Það er beðið um 400 millj. Það er vísað til þess að samkvæmt úttektum verkfræðistofa rýrna þessi verðmæti, a.m.k. hluti þeirra, t.d. eykst kostnaður vegna utanhússviðgerða á hverju ári um 3--5% ef ekkert er að gert og þeir biðja um 400 millj. í miðju góðærinu. Og hvað fá þeir? 46.

Herra forseti. Bara þarna, þ.e. þessar tæplega 400 millj. sem vantar upp á að reksturinn nái saman að dómi sjúkrahússtjórnendanna þegar búið er að taka tillit til allra aðhaldsgerða fyrri ára, að viðbættu því sem vantar upp á sökum fjárvöntunar fyrri ára og að samanlögðum þessum 400 millj. sem vantar vegna viðhalds, þá reiknast mér til, hæstv. heilbrrh., að við séum komin fast að milljarði. Og ég ætla að leyfa mér þann munað að sleppa því að tala um vöntun á tækjum. Spítalinn hefur á undanförnum árum notað um það bil 1% af sínu rekstrarfjármagni til þess að kaupa ný tæki. Í öllum venjulegum spítölum, m.a. þeim sem bornir voru saman við spítalana í umræddri skýrslu sem ég gat um áðan, eru það 3--5%. Þar væru aðrar 400 millj. En við skulum leyfa okkur þann munað að sleppa því. Staðan er nefnilega þannig, herra forseti, að í þessu fjárlagafrv. sem gefur þá mynd að allt sé í góðu lagi á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, er ekki meira innihald en svo að þegar maður les það og þegar maður brýtur það til mergjar, þá kemur í ljós að það vantar a.m.k. vel á annan milljarð til þess að sjúkrahúsið geti staðið undir sæmilega eðlilegum rekstri á næsta ári. Þetta, herra forseti, er glansmyndin. Er það nema von að menn leyfi sér þann munað að draga í efa þegar menn sjá þetta að allt hitt sé jafngott og þessi hæstv. ríkisstjórn vill vera láta.

Ég held, herra forseti, að nauðsynlegt sé þegar menn fá hrákasmíð eins og þessa að heilbr.- og trn. þingsins ásamt starfsfólki viðkomandi sjúkrahúss og sérfræðingum heilbrrn. setjist niður og reyni að vega og meta hver staðan er og hvað sé rétt. Hvað er rétt í þessu plaggi, herra forseti? Miðað við þetta eina dæmi sem stendur mér næst, herra forseti, þá verð ég að segja að það er ógnvekjandi að hlusta á hæstv. ráðherra halda því fram að allt sé í góðu lagi. Það er ekki allt í góðu lagi, herra forseti.

Ég verð líka að segja að það er mál til komið að heilbrrn. fari að móta einhverja stefnu í þessum málum. Það er ekki hægt að láta þá stöðu koma upp á hverju einasta ári að stjórnendur sjúkrahúsanna, eins og Sjúkrahúss Reykjavíkur, séu í blóðspreng, ekki bara við það að reyna að láta enda ná saman, heldur til þess að reyna að finna rými fyrir sjúklingana sem liggja, jafnvel sjúklingar sem eru á gjörgæsludeild, inni á salernum og á göngum. Er þetta fyrirmyndarþjóðfélagið sem við viljum stefna að? Er þetta þjóðfélag sem ber sér á brjóst og segir: ,,Það ríkir góðæri?`` Það ríkir ekki góðæri fyrir það fólk sem þarf að þola þetta, herra forseti.

Í dag er það þannig að stefnuleysið í heilbrrn. er að verða kerfinu stórkostlegur fjötur um fót. Við vitum ekki hvert stefnir og í dag liggja á skrifborði ráðherrans tvær tillögur um þróun sjúkrahúsmála sem hvor rekur sig á hinnar horn. Það liggur fyrir skýrsla VSÓ þar sem talað er um að það eigi að setja stóru spítalana undir eina sameiginlega stjórn og nokkra spítala í nágrannabyggðarlögunum líka. En á sama tíma er ráðherrann ekki búinn að kasta burt tillögum um að skipta heilbrigðisgeiranum í sérstök heilsukjördæmi þar sem verður sérstök stjórn í hverju kjördæmi og yfir þeim spítölum sem þarna eru. Það gengur náttúrlega ekki, herra forseti. Hérna er um tvær misvísandi tillögur að ræða. Það er einfaldlega kominn tími til að hæstv. ráðherra hætti að setja endalausar nefndir í málið og láta gera álit og úttektir því það er eitt sem alltaf vantar og það eru ákvarðanirnar.