Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 14:31:59 (150)

1997-10-08 14:31:59# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:31]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði hv. þm. líka að því hvort hann hefði verið á móti ferliverkunum á sínum tíma og ég spurði hv. þm. að því hvort hann hefði verið á móti þeirri einkavæðingu sem varð í röntgengreiningu þegar hann sjálfur var ráðherra. En síðan skal ég ekki nefna einu orði meira hvað varðar hv. þm. Sighvat Björgvinsson ef það er einhver ofnæmisvaldur hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni.

En hvernig nýtum við góðærið? Við skulum skoða það. Hvað ætlum við að gera á næsta ári? Við ætlum að fjölga hjúkrunarrýmum. Við ætlum að leggja 300 millj. kr. í það og það mun létta á stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík. Við ætlum að opna líknardeild og ætlum 30 millj. kr. til þess. Það mun líka létta á stóru sjúkrahúsunum á Reykjavíkursvæðinu. Við erum að hefja byggingu barnaspítala og það mun létta mjög á stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík og verða meira rými fyrir aðra starfsemi. Þetta eru örfá dæmi.

Ný hjartarannsóknadeild verður opnuð innan tíðar og af því að hv. þm. kom áðan inn á biðlista þá væri það hollt fyrir hv. þm. að líta á það hvað biðlistar hafa minnkað í bæklunaraðgerðum. Við stóðum frammi fyrir því fyrir ári að bið eftir hryggaðgerð var næstum tvö ár. Við erum búin að koma þessum biðlistum niður með því að fjölga stórlega aðgerðum. Gerðar hafa verið 178 aðgerðir bara það sem af er þessu ári. Fyrir tveim árum voru gerðar 30--40 slíkar aðgerðir. Og það sama er að segja um liðskiptaaðgerðir. Við höfum tekið kúfinn af þeim aðgerðum og sama má segja um hjartaaðgerðir. Þegar nýja hjartarannsóknadeildin opnar léttir það mjög á þannig að í góðærinu höfum við víða náð árangri og ég vona að stjórnarandstaðan loki ekki augunum fyrir því því að það gera starfsmenn sjúkrahúsanna ekki.