Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 14:59:56 (154)

1997-10-08 14:59:56# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:59]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. svör hans. Þetta hlýtur að upplýsast betur og þá væntanlega þegar hæstv. samgrh. verður viðstaddur og getur útskýrt fyrir okkur hvað þarna um ræðir.

En ég spurði um fleira, herra forseti. Ég spurði líka um vasafjárlög ráðherrans, ekki síst út í opnuna um landsbyggðina og gróskuna í efnahagslífinu, þar sem verið er að vara við sértæku aðgerðunum. Síðan eru taldar upp nokkrar aðgerðir sem mér þætti fróðlegt að vita af hverju eru þá taldar upp á þessari varúðaropnu í vasafjárlögum ráðherrans. Það er nefnilega svo að maður fær það vonda bragð í munninn þegar maður les þetta að menn séu svona eins og að reyna að afsaka ákveðna hluti með þessari opnu og nánast að segja: Allar sértækar aðgerðir eru fyrir landsbyggðina. Þær eru vondar. Það sem við gerum í Reykjavík er ekki sértækt. Það er í lagi, það er gott. En samt er tínt til eitthvað þarna á opnuna. Mér finnst þetta vond uppsetning, herra forseti, og þess vegna er ég að vekja athygli á henni. Ég vil gjarnan fá að heyra hvaða skoðun hæstv. fjmrh. hefur á þessari uppsetningu og hvort þetta var að hans ósk sem málum var stillt svona upp.