Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 15:01:35 (155)

1997-10-08 15:01:35# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[15:01]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði nú ekkert sérstaklega hugsað mér að ræða nákvæmlega hvað stendur í svokölluðum vasafjárlögum. En það er allt í lagi og ég þakka hv. þm. fyrir að vekja svona duglega athygli á þessari vasabrotsútgáfu sem verður send út víða og ég held að komi að ágætu gagni því það er að finna margar ágætar upplýsingar í þessu litla riti sem er handhægt fyrir fólk að hafa með sér og stinga í vasann t.d. á fundum sem haldnir eru úti á landsbyggðinni þegar fjárlög ríkisins og efnahagsmál eru til umræðu.

Það er almennt viðurkennt og hefur smám saman verið að ljúkast upp fyrir mönnum að svokallaðar sértækar aðgerðir eru oft til þess fallnar að draga úr eðlilegri þróun atvinnulífs á viðkomandi stöðum. Þetta þekkjum við ekki einungis hér á landi. Þetta er þekkt víða um heim. Það er sérstaklega um þetta fjallað á vegum alþjóðastofnana. Evrópusambandið hefur látið þessi mál til sín taka þótt að í ýmsu hafi kannski Evrópusambandið einnig beitt mjög sértækum aðgerðum, ekki síst í byggðamálum. Með því sem þarna stendur er verið að koma til skila ákveðnum viðhorfum sem ég held að menn skilji almennt á þann veg að það sé betur fallið til að efla eðlilega byggðaþróun í landinu að beita svokölluðum almennum aðgerðum, síður sértækum, vegna þess að það er ætíð hætta á því að svokallaðar sértækar aðgerðir hverfi eins og dögg fyrir sólu þegar minnst varir. Það sé þess vegna æskilegra að byggðarlög og fólk í landinu búist við því þegar til framtíðar er horft að það búi við almennar reglur en ekki sértækar. Ég get ekki fallist á að fjárveitingar til Menntaskólans í Reykjavík sem eru vegna brunahættu annars vegar og vegna þess að verið er að taka í notkun ákveðið hús þar, teljist sértæk aðgerð í þeim skilningi. Þetta er fjárframlag til einnar framkvæmdar sem er vel skýrð. Það er allt annað sem ég tel að felist í hugtakinu sértæk aðgerð.

Ég skal líka fallast á það með hv. þm. að sjálfsagt komumst við aldrei hjá því að grípa til einhverra sértækra aðgerða. Það sem verið er að segja er að almennt talað eigum við að beita almennum aðgerðum, það sé hollara fyrir okkur, það sé það sem til framtíðar horft gefur okkur meira í aðra hönd, en forðast hins vegar sértæku aðgerðirnar. Þetta er svona almenn yfirlýsing sem ég held að hafi gildi, ekki einungis hér á landi heldur alls staðar annars staðar.