Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 15:24:28 (160)

1997-10-08 15:24:28# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[15:24]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, vissulega gerðu menn sér grein fyrir því en það er spurning um hvort rétt sé að upplýsa það. Ég get þó sagt til viðbótar því sem ég hef áður sagt hér að við gerum ekki endilega ráð fyrir að hagnast á allri sölunni. Það kann svo að fara að miðað við uppsett verð í eignum ríkisins verði sölutap af sumri sölunni. Hvað varðar þetta fyrirtæki þá hygg ég að í bókum ríkisins sé það fé sem fært er í fjárlög ríkisins sem eign talið vera einn milljarður. Síðan koma auðvitað til skuldbindingar sem settar verða á fyrirtækið vegna lífeyrisskulda o.s.frv., þannig að svo kann að fara að ekki verði söluhagnaður af þessu tiltekna fyrirtæki.

Þá vík ég að svokölluðum trúarbrögðum. Það er nú einu sinni svo að við þau skilyrði sem við búum nú við í efnahagslífinu, þar sem um er að ræða viðskiptahalla og þenslu og neyslu umfram það sem kaupmáttur heimilanna segir til um, við slík skilyrði er mjög mikilvægt að efla sparnað. Eitt af því sem ríkisstjórnir um heim allan grípa til við slík efnahagsskilyrði er einmitt að selja eigur ríkisins og binda þannig fé sem annars yrði notað til einhvers konar einkaneyslu. Þetta er alþekkt fyrirbæri og með þessum hætti í raun og veru unnið gegn þenslu sem er til staðar í viðkomandi þjóðfélögum. Frá hagrænu sjónarmiði kann þannig að vera heppilegt að selja Sementsverksmiðjuna eins og sumar aðrar eignir ríkisins. Ég veit að hæstv. iðnrh. hefur átt viðtöl við forráðamenn Akranesbæjar og þeirra á milli hafa komið fram hugmyndir um það hvernig og að hvaða leyti Akurnesingar geta komið að kaupum á fyrirtækinu.