Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 15:48:35 (164)

1997-10-08 15:48:35# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[15:48]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna síðustu orða hv. þingmanns þá er það misskilningur af hans hálfu að halda því fram að hér séu brotin lög. Það er farið með fjárreiður Alþingis samkvæmt lögum og það er að sjálfsögðu einungis fjmrh. sem gagnvart stjórnarskrá íslenska lýðveldisins ber ábyrgð á framlagningu frv. Það skiptir engu máli hvaða ræður hv. þingmenn flytja, hvort sem þeir eru framsögumenn í málum eða flytjendur greinargerða, slíkar greinargerðir og slíkar framsöguræður breyta ekki lögum. Fjárreiðufrv. var flutt af fjmrh. Hann og fulltrúar hans sömdu við nefndina sem fékk málið til meðferðar um endanlegan texta og það er alveg ljóst að það getur enginn tekið frá fjmrh. ábyrgðina á flutningi frv.

Það liggur svo hins vegar alveg ljóst fyrir að hér eftir sem hingað til, svo að ég noti nú þekkt hugtak sem ég hef notað dálítið á undanförnum dögum, þá ræðir auðvitað Alþingi niðurstöðuna. Alþingi getur breytt frv. og það er að sjálfsögðu farið að tillögum Alþingis í öllum megindráttum þó að það sé ekki að öllu leyti, enda hefur Alþingi sem löggjafarstofnun síðasta orðið í þessum málum. Það er ekki skylda og getur aldrei orðið skylda nema beinlínis sé kveðið á um það í lögum að fjmrh. taki upp tillögur forsætisnefndarinnar og geri þær að sínum því að forsætisnefndin ber enga ábyrgð á því sem er í frv. heldur einungis fjmrh. Og það liggur svo auðvitað í augum uppi að það getur engin framsöguræða eða greinargerð breytt gildandi lögum eða stjórnarskrá.