Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 15:50:39 (165)

1997-10-08 15:50:39# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[15:50]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér deilir auðvitað enginn um að það er lögum samkvæmt hæstv. fjmrh. sem fer með fjárlagafrv. hvers árs. Um það er ekki verið að deila. Það er hins vegar deilt um nefndarálit sérnefndar, anda þeirrar umræðu sem átti sér stað í þinginu og laut að því að ríkisstjórnin sem slík hefði ekki afskipti af fjármálum Alþingis með vísun til þingræðisreglna, sem þýðir á mæltu máli, kroppaði ekki í og breytti að eigin geðþótta þeim tillögum sem héðan kæmu. Og ef hæstv. fjmrh. er andvígur þeirri túlkun, þá er hann með öðrum orðum að ómerkja mann á borð við Sturlu Böðvarsson. Hann er að ómerkja hér nefndarálitið, þann skilning og þá lagatúlkun sem þar er að finna af hálfu sérnefndarmanna, Sturlu Böðvarssonar, Kristins H. Gunnarssonar, Jóns Kristjánssonar, Vilhjálms Egilssonar, Sighvats Björgvinssonar, Ólafs Þ. Þórðarsonar, Árna M. Mathiesens, Ágústs Einarssonar, Ísólfs Gylfa Pálmasonar, Kristínar Ástgeirsdóttur og Péturs H. Blöndals. Er þetta fólk allt að fara með fleipur, hæstv. ráðherra? Er það bara bull og þvættingur sem þetta fólk heldur fram í nefndaráliti, um lög sem örfáum dögum síðar voru samþykkt? Nei, auðvitað ekki. Og það sem meira er, efnislega er ekki hægt að fá nokkurn botn í þessi afskipti, þetta kropp fjmrh. af fjárveitingum til Alþingis. Það er einmitt fróðlegt og ég ætla að gefa honum það hér á eftir, virðulegi forseti, að bera saman annars vegar hvernig útgjaldaþróunin hefur verið á hinu háa Alþingi og hins vegar hver þróunin hefur verið á hans heimavígstöðvum, þ.e. í einstökum ráðuneytum. Þar kemur augljóslega fram að hér í þessari stofnun hefur verið gætt ýtrasta sparnaðar. En það má kannski deila um það hvort svo hafi verið á þeim vígstöðvum sem hæstv. ráðherra ber sannarlega ábyrgð á og enginn deilir um, í hinu háa ráðuneyti.