Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 15:52:52 (166)

1997-10-08 15:52:52# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[15:52]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeir sem hafa starfað hér á Alþingi lengur en hv. þingmaður, og ég er einn þeirra sem hef starfað hér um 20 ára skeið, vita að starfsemi Alþingis hefur gjörbreyst á undanförnum áratugum og starfið hefur orðið mun dýrara en áður. Það liggur í hlutarins eðli.

Við höfum á undanförnum árum verið að byggja upp húseignir hér í kring og þingið hefur sjálft ákveðið þær fjárveitingar. Það er þingið sem löggjafarstofnun sem hefur gert það, enda hefur þingið síðasta orðið í þessum málum.

Ég staðhæfi að fjármunir sem hafa farið til Alþingis og stofnana Alþingis eins og Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis hafa verið ærnir og síst hefur Alþingi sjálft ákveðið að það væru minni fjármunir sem væri varið til þessarar stofnunar heldur en annarra stofnana ríkisins. Ég ætla bara að segja það hér og nú, og það stendur, að það er fyllilega farið að lögum í þessu fjárlagafrv. Hvergi í lögum um fjárreiður ríkisins er fjmrh. skyldaður til þess að taka upp í fjárlagafrv. tillögur frá einni stofnun frekar en annarri og gildir það sama um forsetaembættið, Hæstarétt og Alþingi Íslendinga sem forsætisnefndin stýrir. Það breytir hins vegar ekki því, og það er aðalatriði málsins, að það er tvennt sem menn þurfa að hafa í huga: Það er ráðherra sem fer með ábyrgð á því hvað er í frumvörpum og það er Alþingi sem hefur síðasta orðið sem fjárveitingavald um hvert fjármunirnir fara. Þetta eru þau atriði sem skipta öllu máli og vona ég að menn geti orðið sammála um það.

Ég vil aðeins bæta því við að síðustu að það er auðvitað sjálfsagt og hlýtur að koma að því að menn ræði breytingar á þessum háttum og þá kannski í þá átt sem hefur verið að gerast í nálægum löndum, þ.e. að takmarka breytingarétt alþingismanna. Þegar slíkt gerist, eins og hefur gerst í nágrannalöndunum, er auðvitað eðlilegt að menn verji hugmyndir sem koma frá þingunum og stjórnum þeirra til þess að tryggja að framkvæmdarvaldið gangi ekki á rétt þingsins.