Útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 16:00:23 (169)

1997-10-08 16:00:23# 122. lþ. 5.92 fundur 33#B útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[16:00]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnir Sjálfstfl. og Framsfl. hafa stundum gengið undir heitinu helmingaskiptastjórnir. Sú nafngift er engin tilviljun heldur helgast af því að einatt eru ríkisstjórnir af þessum toga merkisberar sérhagsmuna gegn almannahagsmunum. Þær gæta þess jafnan að Sjálfstfl. fái tækifæri til að skammta úr hnefa til flokksgæðinga og stórfyrirtækja sem þeim eru handgengin og Framsfl. hafði SÍS sáluga og fyrirtæki þar á bæ undir sínum verndarvæng. Og hafi einhver látið sér til hugar koma að með breyttum tímum hafi eitthvað breyst í þessum efnum, í þessum helmingaskiptum milli stjórnarflokkanna, þá er það af og frá. Kolkrabbinn og smokkfiskurinn lifa góðu lífi þegar núverandi stjórnarherrar sitja í Stjórnarráðinu.

Einkavinavæðingin er þekkt hugtak og fjölmörg dæmi tiltæk þar sem sérvinum framsóknaríhaldsins eru seld ríkisfyrirtæki á slikk. Ekki er öll sagan sögð í þeim efnum. Menn bíða spenntir sölunnar á hlutafé ríkisins í bönkunum í því sambandi og það verður einnig fylgst með Aðalverktakasölunni og síðan vafalaust Pósti og síma þegar þar að kemur. Þá mun ríkisstjórnin vafalaust enn á ný sýna sitt rétta andlit í sérhagsmunagæslunni.

En nýjasta dæmið í þessum efnum er aðeins nokkurra daga gamalt eða frá 30. september og nú eru notaðar nýjar aðferðir til að koma ,,réttum aðilum`` að kjötkötlunum. Nú dugir ekkert minna en að fjarstýra sérstökum sérfræðingum ríkisvaldsins í útboðsgerð og útboðsskilgreiningu, nefnilega Ríkiskaupum. Ég er hér að ræða þá óútskýrðu gjörð að ganga fram hjá gildum tilboðum í húsnæði undir veitingarekstur í Leifsstöð. Þar var hafnað hæstu tilboðum frá traustum og áreiðanlegum aðilum og þau einfaldlega dæmd ógild en þess í stað tekið þriðja hæsta tilboði frá Flugleiðum.

Atlanta flugeldhús, dótturfyrirtæki Atlanta flugfélagsins, sem átti næsthæsta tilboð var dæmt óhæft vegna reynsluleysis í veitingarekstri. Fyrir þá sem ekki vita það er Atlanta fyrirtækið með 16 flugvélar í rekstri, 700 starfsmenn á launaskrá og veltu á síðasta ári upp á tæpa 6 milljarða kr. Þetta fyrirtæki, sem er með þeim öflugustu á íslenskum atvinnumarkaði, var dæmt ógilt og ekki hæft til að selja gestum og gangandi léttar veitingar á Keflavíkurflugvelli vegna þess að það hefði ekki reynslu af slíku enda þótt í tilboði frá fyrirtækinu væri nákvæmlega gerð grein fyrir áformum fyrirtækisins og einnig tilgreindir reyndir veitingamenn sem hefðu ábyrgð á þeim rekstri. Nei, 700 manna fyrirtæki reyndist ekki nægilega trúverðugt að mati ráðgjafa utanrrh. sem lét sína menn síðan staðfesta. Þvílík firra. Og hæstbjóðandi, Erlan hf. og aðstandendur þess fyrirtækis, sem voru raunar með helmingi hagstæðara tilboð en Flugleiðir, hefur langa reynslu af veitingarekstri og sér t.d. samkeppnisaðila Flugleiða, Íslandsflugi, fyrir veitingum sem og Ferðaskrifstofu Íslands. Nei, þeir voru dæmdir úr leik vegna þess að þeirra tilboðsupphæð var á hvern fermetra hins leigða húsnæðis en heildartalan ekki sett á blað. Það var með öðrum orðum ráðgjafanum í Ríkiskaupum ofverk að margfalda fermetraverðið með hinum leigðu fermetrum. Raunar er nú þannig búið um hnúta í sýnishorni að leigusamningi sem fylgir útboðsgögnum að þar er umsamin leiga tilgreind í fermetraverði þannig að að dæma tilboð úr leik á þessum forsendum er fullkomlega fráleitt, virðulegi forseti.

Að vísu er það þannig, virðulegi forseti, að bjóðendur hafa engar skýringar fengið þrátt fyrir ítrekaðar spurningar í þá veru. Hvorki Ríkiskaup, flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli né ráðuneytið hafa virt þessa aðila svars. Þeir og aðrir hafa fengið útskýringar, ef útskýringar skal kalla, úr fjölmiðlum. Og trúnaðarmaður utanrrh. leyfir sér að tala opinberlega um smáa letrið í útboðsskilmálum sem gerði það að verkum að tilboði Flugleiða var tekið.

Ég hef áður átt orðastað við hæstv. utanrrh. um málefni Flugstöðvarinnar þar sem hann lagði þunga áherslu á að fara útboðsleiðina í Flugstöðinni. Þannig yrði unnt að stórauka tekjur í Leifsstöð. Útboðsleiðin var farin, ég hafði mínar efasemdir um hana. Þess undarlegra er að hæstv. ráðherra fúlsi nú við fjármunum sem eru á bilinu 45--80 millj. kr. á samningstímanum í fimm ár vegna þess að einhverjir undarlegir hagsmunir réðu þarna för.

Sú spurning hlýtur líka að vakna í þessu samhengi hvort samband sé á milli þessa svokallaða útboðs og þeirrar aðgerðar utanrrh. frá því í sumar að framlengja sjálfkrafa fimm ára þjónustusamningi við Flugleiðir um flugfarþega og flugrekstraraðila í Leifsstöðinni. Ákvæði þess samnings voru þau að væri honum ekki sagt upp, þá framlengdist hann sjálfkrafa. Utanrrh. bar því við að gleymst hefði að segja upp samningnum á réttum tíma og honum því framlengt fram yfir aldamót. Er eitthvert samband þarna á milli? Er það raunin á og óopinber stefna hins háa ráðuneytis að Flugleiðir hafi forgang umfram aðra þegar kemur að málefnum Keflavíkurflugvallar? Ég hef ekkert út á þetta ágæta fyrirtæki að setja, Flugleiðir. Hér er hins vegar um það að ræða hvort menn standi jafnir fyrir lögum, hvort þeir aðilar sem geta og vilja sinna þjónustu suður á velli hafi til þess yfirleitt tækifæri eða hvort þeim sé úthýst af einhverjum óútskýrðum sérhagsmunum sem ríkisstjórnin hefur í forgrunni.