Útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 16:06:28 (170)

1997-10-08 16:06:28# 122. lþ. 5.92 fundur 33#B útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[16:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Þegar þetta útboð var undirbúið þótti rétt að fela það Ríkiskaupum. Það þótti ekki rétt að utanrrn. væri með þetta í sínum höndum heldur væri rétt að fela þessari stofnun málið sem hefði bæði þekkingu og reynslu í þessum málum. Eftir að skipaður hafði verið átta manna vinnuhópur, fjórir frá Ríkiskaupum og þrír frá Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli og sérstakur ráðgjafi Ríkiskaupa við útboðsgerð vegna veitingarekstrar í flugstöð, Íslandskostur hf., þá er það niðurstaða þessarar stofnunar að öll önnur tilboð en tilboð Flugleiða væru ekki lögleg og það var ákveðið að taka tilboði Flugleiða. Átti utanrrn. að fara að breyta því?

Ég hef síðan spurt starfsmenn Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli af hvaða tilboði sé mestur fjárhagslegur ávinningur og þeir hafa tjáð mér að þeir telji að mestur fjárhagslegur ávinningur fyrir flugstöðina sé í tilboði Flugleiða hf. Nú heyri ég að hv. þm. hefur komist að annarri niðurstöðu sem ég skil ekki alveg. En það er margt sem kemur inn í tilboð Flugleiða, t.d. breytingar í flugstöðinni fyrir tugi milljóna, 3% af veltu til endurnýjunar tækja sem er viðbótarleigugjald, nýtt kassakerfi og lagfæringar og breytingar á mötuneyti. Þá greiða Flugleiðir veltutengt leigugjald, 10% af öllum viðskiptum milli deilda í félaginu, svo sem sölu á veitingum til flugvirkja félagsins, sölu inn á Saga Class stofuna o.s.frv. Þetta er mat þessara aðila og ég hef í sjálfu sér ekkert annað um það að segja. Ég tel að hér hafi verið staðið faglega að verki og utanrrn. vildi standa þannig að málum að hlutlaus aðili kæmi hér að og þar hafa menn ekki verið með neina sérhagsmuni í kollinum eins og hv. þm. virtist telja, heldur fyrst og fremst hagsmuni flugstöðvarinnar.

Að því er varðar uppsögn á þjónustusamningi við Flugleiðir, þá var honum sagt upp 18. nóvember í fyrra og miðað við að uppsögnin tæki gildi um næstu áramót. Flugleiðir hafa mótmælt uppsögninni, það er rétt, en það eru viðræður í gangi milli Flugleiða og utanrrn. og ég tel enga ástæðu til þess að ætla annað en þar fáist farsæl niðurstaða sem allir aðilar geti unað bærilega við.

Þrátt fyrir hrakspár liggur það ljóst fyrir að þetta útboð mun þýða allmiklu meiri tekjur en við reiknuðum með þegar farið var út í útboðið og hv. þm. til upplýsingar var gert ráð fyrir því að vegna þessa útboðs fjölgaði störfum í Flugstöðinni um 50--60 manns, en nú er talið að það muni verða um 70--80 manns. Og þrátt fyrir allar hrakspár hefur ekki einum einasta manni verið sagt upp hjá Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli vegna þessa útboðs þannig að ég sé ekki betur en hér hafi verið staðið eðlilega að verki. Ef menn telja sig hlunnfarna í þessu sambandi þá verða þeir að leita réttar síns. Það er engin önnur leið í því. Við getum ekki búið til nýjar leikreglur skyndilega. Við verðum að fylgja þeim leikreglum sem gert var ráð fyrir í útboðinu og ég vænti þess að þessar útskýringar séu fullnægjandi við þeim spurningum sem hér voru bornar fram.