Útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 16:10:44 (171)

1997-10-08 16:10:44# 122. lþ. 5.92 fundur 33#B útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[16:10]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrir að taka þetta mál upp á hinu háa Alþingi. Þegar við ræddum málefni flugstöðvarinnar utan dagskrár fyrr á árinu kom fram að nefnd sem utanrrh. hafði skipað hafði gert mjög misvel þokkaðar tillögur til að auka tekjur af rekstri flugstöðvarinnar. Þessar tekjur voru þó alls á síðasta ári 1.700 millj. kr. en tillögurnar voru gerðar til að hægt væri að greiða skuldir af byggingu flugstöðvarinnar. Skuldirnar voru nú allt í einu farnar að varna þeim svefni sem hingað til höfðu áhyggjulausir ráðstafað tekjum Fríhafnarinnar til annarra verkefna en niðurgreiðslna þeirra. Tillögurnar gerðu ráð fyrir stórauknum tekjum af Fríhöfninni, m.a. vegna aukinnar einkavæðingar og sérstök áhersla var lögð á útboð og samkeppni til að ná sem allra hagstæðustum samningum um alla hluti. Það vakti þess vegna mikla athygli þegar þessi fyrstu útboð voru opnuð að af tveimur gildum tilboðum í veitingareksturinn var því tekið sem var óhagstæðara fyrir ríkið, eða tilboði Flugleiða, en tilboð Atlanta hefði aflað ríkinu 35 millj. kr. aukinna tekna á þeim árum árum sem samið var um. Einhvern hefði nú munað um minna þegar þarf að borga niður skuldir og ég verð að segja að þrátt fyrir að hafa fylgst mjög vel með fréttum af þessu máli og kynnt mér það nokkuð vel hef ég ekki séð nein gild rök fyrir þessari afgreiðslu. Þetta virðist hafa verið geðþóttaákvörðun og af einhverjum ástæðum sem ekki hafa verið skýrðar, alls ekki tekið tillit til þess hvort tilboðið var hagstæðara fyrir ríkið.